Fréttir

Ályktun um sóknargjöld og atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá

Forystumenn austfirskra þjóðkirkjusókna ályktuðu um sóknargjöld og komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána á nýliðnu leiðarþingi Austurlandsprófastsdæmis, en slík þing eru haldin um allt land í tengslum við komandi Kirkjuþing. Leiðarþing í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi verða tvö, annars vegar í Glerárkirkju miðvikudagskvöldið 26. september og hins vegar í Bjarnahúsi á Húsavík laugardaginn 29. september kl. 11:00.

Helgihald sunnudaginn 23. september

Sunnudaginn 23. september kl. 11:00 er messa og barnastarf í Glerárkirkju. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar, Kór Glerárkirkju leiðir almennan söng. Sameiginlegt upphaf er í messu, en að loknum ritningarlestrum ganga börnin og þeir foreldrar sem það kjósa yfir í sunnudagaskólann sem er í safnaðarheimilinu. Sá háttur er einnig hafður á að í andyri kirkjunnar eru litir, blöð og leikföng þannig að ef þannig stendur á hjá fjölskyldunni þá er velkomið að bíða eftir sunnudagaskólanum í forkirkjunni.

Þjóðkirkjan og stjórnarskráin

,,Brátt verður gengið til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá. Þar verður meðal annars spurt um stöðu Þjóðkirkjunnar: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ Flestir hafi skoðanir á stöðu Þjóðkirkjunnar, ekki aðeins í stjórnarskránni heldur í samfélaginu almennt. En ef til vill hafa færri velt því fyrir sér um hvað komandi þjóðaratkvæðagreiðsla um stöðu Þjóðkirkjunnar snýst." skrifar sr. Gunnar Jóhannesson í pistli sem er birtur á trú.is í dag.

Þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskránni

Dr. Hjalti Hugason birtir í gær pistil m.a. á trú.is þar sem hann fjallar um þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskránni og segir m.a.: ,, Í 62. gr. felast bæði réttindi og skyldur þjóðkirkjunni til handa. Greinin kveður á um að evangeliska lúterska kirkjan skuli njóta stuðnings og verndar ríkisvaldsins „að því leyti“ sem hún er þjóðkirkja. Það var hún svo sannarlega 1874. Fram til þess tíma hafði þjóðinni borðið skylda til að vera lútersk. Með stjórnarskránni var hins vegar innleitt trúfrelsi. Allur þorri þjóðarinnar var þó áfram lúterskur í einhverri merkingu og tilheyrði kirkjunni. Því var hún þjóðkirkja, kirkja þjóðarinnar. Í ákvæðinu fólst aftur á móti ekki að ríkisvaldið skyldi styðja og vernda þessa kirkju vegna þess að hún boðaði réttari trú en aðrar kirkjur. "

Frá Kór Glerárkirkju

Nú er vetrarstarfið að hefjast og við tökum fagnandi á móti söngfólki í allar raddir. Sérstaklega myndum við fagna söngglöðum körlum. Nótnalæsi er æskilegt en ekki skilyrði. Áhugasamir hafi samband við Valmar Väljaots í síma 849 2949 eða sendi tölvupóst á netfangið valmar@glerarkirkja.is.

Fermingarfræðslan hefst í dag

Fermingarfræðslan hefst í dag samkvæmt stundarskrá en langflest verðandi fermingarbarna hafa nú valið sér fræðslutíma og skilað skráningarblaði til presta kirkjunnar, en fræðslan er alfarið í höndum sr. Gunnlaugs Garðarssonar sóknarprests og sr. Örnu Ýrrar Sigurðardóttur, prests. Fyrsti tíminn er í dag kl. 13:30.

Þróunarsamvinna ber ávöxt

Í dag, mánudaginn 17. september hefst kynningarátakið „Þróunarsamvinna ber ávöxt“ en undirtitill átaksins er í ár „Komum heiminum í lag“. Að átakinu standa frjáls félagasamtökum sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu þar á meðal Hjálparstarf kirkjunnar og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Markmiðið með átakinu er að auka skilning og þekkingu almennings á málefnum þróunarlanda og vekja Íslendinga til vitundar um samfélagslegar skyldur þjóðarinnar í baráttunni gegn fátækt, vannæringu og ójöfnuði í heiminum.

Gönguhópur Glerárkirkju byrjar í dag

Nýr þáttur í starfi Glerárkirkju er gönguhópur í umsjón hjónanna Regínu B. og Péturs Björgvins. Gengið er af stað frá Glerárkirkju um hálf fimmleytið hvern mánudag. Fastur viðkomustaður í hverri gönguferð er Lögmannshlíðarkirkja. Þar er haldin stutt helgistund áður en gengið er til baka. Engin skráning er í hópinn og öllum sem hafa áhuga og treysta sér í þessa göngu velkomið að slást í hópinn. Nánari upplýsingar gefur Pétur Björgvin í síma 864 8451.

Foreldramorgnar nú á þriðjudagsmorgnum

Sú breyting hefur verið gerð á dagskrá Glerárkirkju að foreldramorgnar eru nú á þriðjudagsmorgnum. Þangað er foreldrum, forráðafólki, já öfum og ömmum með ung börn boðið. Dagskráin samanstendur fyrst og fremst af samtali í notalegu umhverfi þar sem veitinga er notið af morgunverðarhlaðborði. Á meðan sofa börnin úti eða inni í vagni eða leika sér á gólfinu. Mjög gott aðgengi og aðstaða er í safnaðarsal Glerárkirkju fyrir hópa sem þennan og öll þau sem það vilja þiggja hjartanlega velkomin.

Hugleiðingar úr sveitinni

Pistill sem sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir ritaði í lok vikunnar og birtur er á trú.is hefur vakið verðskuldaða athygli, tæplega 3.000 manns hafa lesið pistilinn á tveimur dögum. Sólveig Halla býr ásamt fjölskyldu sinni á Þverá í Reykjahverfi. Í pistlinum gefur hún lesandanum innlit inn í lífið í sveitinni fyrstu dagana eftir óveðrið. Hún skrifar meðal annars: