Listin, kirkjan og trúin

Listaverk á vesturgafli Glerárkirkju, gefandi: Kvenfélagið BaldursbráÍ desember 2002 var opnuð sýningin Sigur lífsins eftir Leif Breiðfjörð í Glerárkirkju á Akureyri. Af því tilefni birtist grein í Morgunblaðinu (4. janúar 2003, bls. 8-9 í Lesbók) eftir dr. Pétur Pétursson þar sem hann fjallaði um nýtt glerverk Leifs í kirkjunni og samspil listar, kirkju og trúar. Greinin er endurbirt hér í heild sinni. Rétt er að taka fram að frá því að greinin var skrifuð hefur verkum eftir Leif Breiðfjörð fjölgað í Glerárkirkju. Gefandi þess verks sem hér er talað um var Kvenfélagið Baldursbrá.
 

Jóhannesarguðspjall hefst þannig: "Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð." Þetta orð varð hljóð og bókstafir. Kristnir menn lesa það sem spámenn hafa séð og vitni hafa sagt frá og menn hafa fundið snertingu almættisins í predikun, tónlist og söng. Í upphafi var orðið og það var hjá Guði og það varð einnig litur og form.

Þannig snertir opinberun Guðs okkur í skynjuninni og þannig tekur hann á sig mynd til þess að minna okkur á hver hann er. Holdtekningin, það að orðið varð hold í Jesú Kristi, að Guð varð maður, er opinberunin sem kristin trú hvílir á. Guð elskar mennina og þess vegna opinberaðist hann. Guð tekur á sig mynd og myndin verður bæði til í efni og í hugskoti þess sem tekur við orðinu sem er efni og tákn. Jesús er nálægur í brauðinu og víninu sem helgað er við útdeilingu altarissakramentisins. Hann er einnig nálægur í vatninu sem ausið er yfir höfuð barnsins í skírninni þegar það er tekið inn í söfnuð Krists og helgað fyrir trúna á hann. Kristur kenndi að hann væri einnig í þeirri mynd sem birtist þar sem fólk þjáist og er einmana, þar sem fólk á ekki í sig og á og þar sem fólk er í fangelsi, þar sem fólk er afmyndað af fíkn og fátækt.

Guð er þó alltaf eitthvað annað en það efni sem hann snertir við hverju sinni og þess vegna er tilhneiging í öllum eingyðistrúarbrögðum að hafna helgimyndum. Sú trú og tilbeiðsla sem Guði einum tilheyrir getur svo auðveldlega snúist upp í skurðgoðadýrkun. Í gyðingdómi og meðal múslima er bannað að gera myndir af Guði. Myndir af spámönnum, englum og postulum eru ekki í guðshúsum þeirra. Svo er einnig um þá kirkjudeild mótmælenda innan kristninnar sem kennir sig við Jóhann Kalvín og þær trúarhreyfingar sem sprottnar eru af þeim meiði eins og hvítasunnuhreyfingin. Þar eru hvorki altaristöflur né kristsmyndir. Margir mótmælendur gengu hart fram í að tortíma helgimyndum og líkneskjum á 16. öld. Þeir gagnrýndu fyrst og fremst það fyrirkomulag að vald kirkjunnar væri sprottið af umráðum hennar yfir sakramentinu. Hlutdeild táknsins, þ.e. efnanna brauðs og víns, í fórnarverki Krists var tengd valdi kirkjunnar yfir veraldlegum gæðum. Af þessu sést hve guðfræðin getur verið nákomin trúarlegri list.

Í frumkristni blossaði upp tortryggni í garð helgimynda og myndbrjótar geystust fram og eyðilögðu fögur listaverk. En staðreyndin er sú að efnið er ekki af hinu illa samkvæmt kristninni. Kristur var maður sem lifði og dó og við eigum lýsingar af honum og þær lifna í huga okkar og Kristur starfar í okkur þegar við sinnum kalli hans í þeim heimi sem hann vill reisa við og gera dýrðlegan.

Birtan sem berst frá hugsun

Þau eru merkileg fræðin sem fjalla um hlutdeild myndanna í því sem þær vísa til. Þar er vitnað til kenninga Platóns um frummyndirnar og hugmyndir Aristótelesar um formgerð hugsunar og reynsluheiminn. Frummyndirnar eru, líkt og hugsanir Guðs um sjálfan sig, heiminn og það sem í honum er, fullkomnar og óumbreytanlegar. Þegar við speglum okkur í augliti íkonamyndanna sjáum við inn í þann handanheim. Langt er frá þeim myndum yfir í óhlutbundna list nútímans. En ef viðleitnin er sönn þá er margt líkt með nútímanum og hinni fögru og þroskuðu list frá Bysans. En margt hefur gerst á þeirri leið í reynsluheimi mannkyns sem snertir merkingu og notkun tákna.

Í listfræðinni mætast guðfræði og fagurfræði og menn reyna að átta sig á tengslum tákna og reynslu mannsins - heimi trúarinnar og heimi táknanna sem spretta úr hefðinni og viðleitni mannsins til að skynja og skilja sjálfan sig sem hluta af heild. Guðbergur Bergsson rithöfundur kemst skemmtilega að orði þegar hann bregður sér í gervi guðfræðings og ritar pistil í skrá yfir sýninguna Kyrr birta - heilög birta sem hann setti upp í Gerðarsafni í Kópavogi í nóvember sl. Þar tengir hann nútíma abstraktverk við sköpunarsöguna:

Þegar skaparinn sagði í upphafi: Verði ljós! þá ákvað hann ekki hvernig ljósið ætti að vera. Líklega er það óákvörðun hans og frjálsræði ljóssins að þakka að myndverk breytist í augum okkar eftir því hvernig birtan skín á það. Hún gefur efninu margvíslegan sjónræna eiginleika. Og birtan getur borist frá hugsun, hún getur líka borist frá sól dagsins, rafmagni og kertaljósi; en oftast notar þó málarinn birtu náttúrunnar með hliðsjón af eigin uppljómun, flæði tilfinninganna.1

Í steindum gluggum hefur þjónusta myndlistarinnar við kirkjuna náð hvað hæst. Þar verður náðargáfa listamannsins leitendum og trúuðum sífelld uppspretta aðdáunar, gleði og uppljómunar. Glerið er fast efni, áþreifanlegt efni, en hleypir ljósinu í gegnum sig eins og ekkert sé. Glerið hefur verið skilið sem tákn heilagrar ritningar sem opinberar dýrð Guðs og vernd gegn hinu illa. Birtan í helgidóminum táknar lifandi orð Guðs og nærveru Krists. Heilagri þrenningu hefur verið líkt við ljósið í náttúrunni með því að sólin táknar Guð föður almáttugan skapara, ljósið Krist, sem fæðist í heiminn, og geislarnir heilagan anda sem upplýsir hvern mann.

Um það bil sem gotnesk glerlistaverk í dómkirkjum miðalda eru að ná hátindi sínum skrifar munkur eða prestur upp á íslensku hómilíu (þ.e. predikun) um himnaför Maríu Guðsmóður. Hómilían ber þess merki að höfundurinn hefur þekkt hvernig guðfræði holdtekningarinnar beitir listinni fyrir sig. Guð er sólin og ljósið hreint og skírt og þetta ljós fer eins og góðir englar Guðs, ósnert af mennskunni, gegnum hvítt gler. Það er litur glersins sem skapar myndina og myndin af Kristi helgar listaverkið eins og orðin um Krist og orð Krists gera Biblíuna að helgri bók. Kristur er guðlegur, sannur Guð, eins og ljósið er hreint og tært, en um leið er hann sannur maður af holdi og blóði. María hlaut að búa yfir hreinleik ljóssins, kærleika og syndleysi fyrst hún var valin makleg móðir Guðs. Hómilíubókin talar til nútímans frá þeim tíma sem íslensk tunga varð til sem ritmál í þjónustu trúarinnar.

Svo hafði María hreinlífi slíkt sem englar og alla manndýrð að aukahlut. Því mátti hún maklega vera móðir Guðs, að hún hafði hreinlífi, sem Guðs englar og mannlegt eðli, svo að guðdómurinn mátti taka af hennar holdi manndóminn, svo sem hann hafði skapað fyr öndverðu, að maður skyldi frá manni getast. En geislinn skín í gegnum glerið og hefir bæði birtu sólskins og líkneski af glerinu. Svo hefir og Drottinn vor, Jesús Kristur, bæði guðdóm af Guði, en manndóm af Maríu.2

Glugginn í Glerárkirkju

Glerárkirkja hefur eignast nútíma listaverk úr steindu gleri sem mun setja sterkan svip á kirkjurýmið og magna tilfinningu safnaðarins fyrir því að hann sé staddur á heilögum stað. Glerlistaverkið á vesturveggnum sem blasir við kirkjugestum, mætir manni nánast eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar komið er að kirkjunni þegar dimmt er úti en ljós inni. Planið fyrir framan kirkjuna er vítt og breitt og veggirnir sem mæta gestum eru eins og opinn faðmur. Sólin í miðju myndarinnar verður þá sól upprisunnar og það er eins og hún skíni úr sjálfri kirkjunni frá austri. Þannig kallar þetta verk söfnuðinn til guðsþjónustu og leiðir hann inn í messuna.

Verkið opnar kirkjurýmið á sérstakan hátt fyrir ljósinu að ofan um leið og það dregur kirkjugesti inn í atburði sem litir og form þyrla upp fyrir augum áhorfenda eins og hvirfilvindur fari um. Hefðbundin form og tákn eru sífellt brotin upp og raðað saman upp á nýtt þannig að kirkjugestir eru staddir í hrynjandi sem tilheyrir annarri vídd. Myndin er á stöðugri hreyfingu vegna áhrifa frá utanaðkomandi krafti. Táknin hverfa þó ekki en það er eins og sá veruleiki sem þau vísa til beri þau ofurliði. Sólin skín í miðju verksins en hún er umvafin þyrnikórónu. Tærir litir skerpast við leik ljóssins sem breytist í sífellu eftir því sem á daginn líður.

Þessi mynd er nútímalistaverk, sem eins og svo mörg listaverk, sem Leifur hefur gert fyrir kirkjur, gefur táknheimi kristninnar nýtt líf. Margir listfræðingar telja að hinn hefðbundni táknheimur kristninnar sé hruninn, hann sé eins og fornminjar grafnar í rústum. Með list sinni hefur Leifur Breiðfjörð afsannað þetta. Snilligáfa hans blæs anda í kalt glerið.

Myndin er reyndar í fjórum hlutum, klofin af óhagganlegu krossmarki sem tilheyrir steinsteyptum veggnum. Krossinn verður raunverulegur þegar við greinum verurnar sem standa sitt hvorum megin við hann og við erum minnt á frásögn guðspjallanna af krossfestingunni á Golgata. María, móðir Jesú, og lærisveinninn Jóhannes standa til vinstri, en til hægri má greina verur sem vísa til rómversku hermannanna sem stóðu vörð við aftöku Jesú. Við sjáum glitta í vopn þeirra. Kannske er þarna hjálmur, skjöldur og spjótið sem stungið var í síðu Jesú.

Efri hluti myndarinnar til hægri er í björtum litum enda segir Lúkas guðspjallamaður að sól hafi verið á lofti þegar Jesú var krossfestur en um hádegisbil segir hann "missti sólin birtu sinnar og það varð myrkur um allt land til nóns". Fortjald musterisins rifnaði sundur í miðju og Jesús kallaði hárri röddu: "Faðir í þínar hendur fel ég anda minn. Og er hann hafði þetta mælt, gaf hann upp andann." (Lúk. 23.46.)

Í efri hluta myndarinnar til vinstri eru litirnir dekkri og þar má greina eldingu og ef vel er að gáð má heyra þrumurnar og finna jörðina skjálfa og björgin klofna (Matt. 27.51.) Í Jóhannesarguðspjalli kemur fram að það síðasta sem Jesús sagði áður en hann gaf upp andann var: "Það er fullkomnað." (Jh. 19.30.)

Og við spyrjum hvað átti hann við? Hvað var fullkomnað?

Í Jóhannesarguðspjalli er einnig sagt frá því er Pílatus yfirheyrði Jesú og hann spurði og við með honum: "Hvað er sannleikur?"

Pílatus vissi ekki að hann stóð frammi fyrir sannleikanum.

Myndin og ýtrustu sannindi

Einn fremsti guðfræðingur sem uppi var á öldinni sem leið, Paul Tillich, segir á einum stað að öll sönn list fáist á einn eða annan hátt við það að miðla og túlka það sem hann nefnir endanlegan veruleika eða sannleika (ultimate concern, ultimate reality). Þessi veruleiki fullkomnast aldrei í neinu sérstöku sem við sjáum eða þreifum á, heldur er hann eins og óhagganleg staðreynd á bak við það allt saman sem er hér og nú og hægt er að þreifa á. Þetta upplifir trúaður maður ekki bara sem möguleika heldur sem staðreynd, veruleika trúarinnar, sem maðurinn er sífellt að leita að en fær aldrei höndlað af hyggjuviti einu saman.

Listamenn, sem eru heiðarlegir og sannir í list sinni, geta fengið hugboð um þennan sannleika vegna þess að þeir falla ekki í þá freistni að falsa eða gera málamiðlanir. Hugtakið synd er stundum hægt að nota þegar maður stendur frammi fyrir trúarlegri list sem er fölsun eða málamiðlun vegna þess að hún er skurðgoðadýrkun. Þá er myndin dýrkuð en ekki það sem hún miðlar eða túlkar. Aðdáunin, lofgjörðin, beinist að listamanninum sjálfum og hann verður einhvers konar goð vegna náðargáfu sinnar.

Hvað er þá eiginlega átt við þegar talað er um leit mannsins að endanlegum sannleika? Það sem við er átt er að hann stendur frammi fyrir ósvöruðum spurningum um réttlætið, þjáninguna og dauðann. Það er eins og okkur sé áskapað að pæla í þessum hlutum þótt þeir gangi ekki upp í lífi okkar dags daglega. Við erum sífellt að leita og spyrja um meininguna með lífinu og hún er að miklu leyti fólgin í svörum við spurningunum um þessi þrjú atriði.

Þar sem armar krossins mætast

Sennilega á almættið einhvern aðgang að dulvitund listamanna sem nemur skilaboð sem aðrir fá ekki. Sannir listamenn eru á sérstakan hátt þátttakendur í hinu eilífa sköpunarverki sem alltaf er að eiga sér stað. Kristin trú gefur svör við áðurnefndum spurningum og þau hafa verið myndgerð í kirkjunni frá upphafi vega, túlkuð margvíslega á stílfærðu táknmáli og í staðfærðum frásögum.

Listaverkið á vesturvegg Glerárkirkju er samsett úr tveimur frásögum sem teflt er saman og þannig myndast sú magnaða spenna sem berst til okkar með ljósinu. Hér er ekki lítið lagt undir. Á dramatískan hátt er verið að túlka sköpun og frelsun heimsins í einni mynd. Byggt er á þeim atburðum Biblíunnar þar sem Guð opinberar kærleika sinn til mannanna. Annars vegar er það krossfestingin á Golgata þar sem Jesús Kristur sonur Guðs, boðberi kærleika og friðar, er líflátinn á kvalafullan hátt. Hins vegar er um að ræða mynd af sólarupprás. Sólin er komin upp og miðja hennar er þar sem armar krossins mætast.

Þessi mynd minnir mig á aðra mynd sem ég á í hugskoti mínu. Norðan við kirkjuna í Skálholti hefur verið settur útikross að gömlum sið. Standi maður steinsnar vestar má á föstuinngangi sjá sólina koma upp við eldfjallið Heklu sem kúrir sakleysislega undir skýinu sem oft hylur tind þess. Í nokkrar mínútur ber miðju krossins við sólina og þá kemur manni Golgata síst í hug. Ljósið verður þessa stuttu stund birtingarform skapara himins og jarðar.

Við erum nálægt atburðunum sem myndin lýsir - við erum í myndinni, við erum ímynd Guðs. Sólarupprásin er birtingarform sköpunar Guðs, sem opinberaði það í syni sínum að hann er kærleikur. Þetta sýndi hann vottunum á Golgata og vottunum við gröf Krists á páskadagsmorgun.

Í sólarupprás á páskadagsmorgun að afloknum hvíldardegi gyðinga, á fyrsta degi nýrrar viku, kom í ljós að gröfin var tóm.

Það var fullkomnað.

Kærleikur Guðs hafði sigrað vegna lífs, dauða og upprisu Guðs sonar. Kristur er því svarið við dýpstu og stærstu spurningum mannsins, spurningum um þjáninguna, réttlætið og dauðann. Þetta magnaða listaverk, gæti sem best borið heitið sköpun og endurlausn, en það er heiti á kennslubók í trúfræði sem notuð var um áraraðir við guðfræðideild Háskóla Íslands.

Þessi mynd gæti einnig borið heitið Sigur lífsins, sem er yfirskrift sýningar Leifs Breiðfjörð í anddyri Glerárkirkju, kirkjunnar sem opnuð var um leið og nýi glugginn var tekin í notkun.3 Þar voru fimmtán myndir til sýnis unnar í vatnslitum og pastel. Sigurboginn, hringlaga eggform og kvadrófóíl formin eru notuð sem umgjörð. Það síðastnefnda er eins konar fjórblöðungur eða blómakróna sem vísar, eins og hringformið, til fullkomleikans.

Kvadrófóil formið er mjög algengt í kirkjulist, ekki síst í dómkirkjum miðalda. Það skírskotar til jafnvægis og samræmis bæði í ljósi fagurfræði og sálfræði. Sálkönnuðurinn frægi, Carl Gustav Jung, hélt því fram að ferningin, quaternity, væri frumlægara og sterkara trúartákn en þrenningin sem skortir skírskotun í höfuðáttirnar fjórar og frumefnin fjögur eins og krosstáknið gerir til dæmis.

Verurnar í myndunum á sýningunni eru í sama stíl og í glermyndinni, englar, dýrlingar og biblíulegar persónur - tengiliðir mannsins við æðri heima, sendiboðar Guðs. Í þessum myndum eru fuglar. Dúfan er tákn heilags anda, en getur einnig táknað hinn leitandi og frjálsa huga mannsins. Örnin flýgur fugla hæst og hefur því yfirsýn. Hann er tákn Jóhannesar guðspjallamanns.

Í myndunum má sjá glímuna við sköpunarstefið, t.d. þar sem sjónarhornið er frá öðrum hnetti á eyjuna Solaris í hringlaga úthafinu. Hér vísar Leifur til þekktrar kvikmyndar eftir Rússann Andrei Tarkovsky með þessu nafni.

Höfuð Leifs

Í myndum Leifs Breiðfjörð má oft greina fyrirbæri sem hann kallar hausinn eða kallinn. Þetta er einfalt og stílgert mannshöfuð, sem kannske er tákn um manninn sem slíkan eða mennskuna. Hausinn er yfirþyrmandi í stórum glerverkum sem er t.d. að finna í Þjóðarbókhlöðunni og í flugstöðinni í Keflavík, sem kennd er við Leif Eiríksson og hann er einnig til sem glerskúlptúr í minni gerð.

Þessi haus veit upp og starir oft blindum augum inn í óendanleikann. Yfirleitt eru hausarnir með lokaðan munninn eða hann er aðeins opin upp á gátt, en nefið er stórt og skagar fram. Það er engu líkara en að hann sé að þefa af óendanleikanum, hinum endalega veruleika sem öll sönn list reynir komast í tæri við, ef trúa má Paul Tillich sem áður er nefndur.

Ég held að þessi haus sé í raun og veru tákn listamannsins sjálfs og að hann samsami sig stundum þessum hausi.

Stíll og form steinda gluggans á vesturgafli Glerárkirkju svipar um margt til annarra mynda sem Leifur hefur gert fyrir kirkjur. Hann notar hefðbundin tákn án þess að vera háður þeim og hann brýtur þau upp hvenær sem honum sýnist til að opna fyrir nýrri sköpun. Hann er alltaf tilbúinn að ryðja úr vegi því sem hindrar nýja uppbyggingu.

Í því skyni teflir hann fram andstæðum í formum, litum og ljósi. Það óvænta er alltaf að verða til í þessum myndum. Á máli guðfræðinnar segjum við að kraftur Guðs brjóti hlekki, fyrirgefi og frelsi. Hann leysir manninn frá ofurvaldi syndarinnar og hefðarinnar ef hún er aðeins dauður bókstafur.

Það er mikið af karisma í þessum myndum, mikil gleði, lofgjörð og dýrðarsöngur. Sjálft verkið er eins og í leiðslu. Það er næstum eins og undir taki englasöngur í litadýrðinni og hreyfanleika formanna. Þannig fyllast verkin anda sem blæs þangað sem hann vill.

Þetta einkennir einnig þau glerlistaverk sem Leifur hefur gert tillögu að í fjóra glugga kirkjuskipsins. En þar eru einnig verk sem af stafar blæ íhugunar og kyrrðar, t.d. myndirnar af auganu og fiskinum sem kallast á yfir kirkjurýmið og geta táknað nærveru Guðs og kirkjuna. Stundum má greina kímni í kirkjulist Leifs og það þarf ekki að vera goðgá í trúarlegri list þar sem lofgjörð og gleði eru annars vegar. Myndin af fiskinum með helga menn í maganum er dæmi um þetta. Stórfiskurinn syndir tignarlega í loftinu að því er virðist yfir yfirborði vatnsins eða textans því öldurnar geta einnig skírskotað til ólæsilegra orða á blaði. Fiskur sem er laus við vatnið er tákn um mikið frelsi - allavega er það vísbending um kraftaverk. Fiskurinn - kirkjan og vatnið - textinn kallast á eins og í allri góðri guðfræði. Það kirkjulistaverk úr gleri sem skýrast talar á máli íhugunar og bænar er myndin í kapellu kvennadeildar Landspítalans. Heilög kyrrð einkennir verkið sem og trúarleg alvara samfara sterkri von. Þannig slær list Leifs á marga strengi trúarlífsins.

Markmið listamannsins er hvorki að auglýsa tákn og merki né endurtaka ákveðna játningu. Hér eru það tilfinningarnar sem lýsa upp myndverkið - tilfinningar sem frelsandi kærleikur Guðs hefur vakið - Guðs sem lætur sér annt um sköpun sína og manninn þar með talinn.

Paul Tillich hefur sett fram kenningu um fimm formgerðir í myndlist sem tengja má við mismunandi trúarafstöðu og trúarreynslu.4 Þau verk Leifs sem hér eru sérstaklega til umræðu falla öll undir expressionisma vegna þess að þau vísa til veruleika bak við það sem myndin sýnir. Trúin sem þar finnur farveg er fyrst og fremst hrifning og leiðsla - ecstatic og spiritúal. Myndirnar grípa áhorfandann og hrífa hann með sér inn í annan heim sem er laus við takmarkanir og hindranir þessa heims.

Sem stílform er expressionisminn andsvar við raunsæisstefnu og hughyggju í myndlist. Raunsæisstefnan (realism) er að mati expressionista of jarðbundin - of bundin við þá hluti og þau tákn sem notuð eru í myndefninu sjálfu til að geta opinberað handanveruleikann. Hún hneigist stundum til bölsýni og fer því á mis við vonina sem er grundvöllur trúarinnar.

Hughyggjan (idealism) er aftur á móti í eðli sínu bjartsýn á möguleika mannsins til að ná fullkomnun og fundvís á æðri markmið og leiðir. Þessi stefna gefur manninum og athöfnum hans því gjarnan guðlegar eigindir. En það er einmitt þetta sem getur komið í veg fyrir að sannleikurinn nái að brjótast fram og sigra illu öflin, öfl myrkursins.

Það sem hindrar hughyggjuna í að miðla sannleikanum á trúverðugan hátt er, að margra mati, að hún kemst ekki lengra en að fegra það sem fyrir er og birtir þess vegna falska mynd af veruleikanum. Frelsandi sannindi verða ekki leyst úr læðingi innan vébanda hughyggjunnar segja expressionistar.

Frelsandi kærleikur

Hvað er það sem leysir sannindin um frelsandi kærleika úr læðingi í þessum myndum og gerir þær trúverðugar sem listaverk? Leifur Breiðfjörð svarar því aldrei beint. Ég hef umgengist hann í nokkur ár og hef ekki fengið svar, þótt ég viti að hann sé allur af vilja gerður að leysa úr þessari þraut.

Leifur er ekki beinlínis karismatísk persóna og ekki líklegur til að falla í trans á trúarsamkomum. Þeir sem ekki þekkja hann vel gætu haldið að áhugi hans væri takmarkaður við efnisleg fyrirbæri. Hann virðist bundinn við handverkið og tæknilega útfærslu og hefði, eins og forfeður hans, ábyggilega orðið góður uppfinningamaður. Stundum minnir höfuðið í myndum hans á kafara eða geimfara. Leifur hefði ábyggilega orðið góður landkönnuður.

Það er eins og náðargáfa listamannsins hafi farið beint í fingur hans. Ég hef séð andann koma yfir hann og þá sést það bara á því hvernig hann hreyfir hendurnar.

Leifur var í Skálholti að bíða eftir fólki sem vildi fá eiginhandaráritun hans á listverkabók hans með myndum úr Opinberunarbókinni. Andinn féll einnig yfir hann þar sem hann var með blað og blýant á djasstónleikum í Skálholtskirkju vorið 2000. Á ótrúlegum hraða teiknaði hann hugmyndir sínar að nýjum listaverkum.

Það er sama hve oft maður spyr og hvernig maður spyr um raunverulegt inntak verka hans. Hann brosir sínu ljúfa og milda brosi og víkur sér glaðlega undan og breytir um umræðuefni, og víkur talinu gjarnan að einhverju sem hann veit að viðmælandinn hefur áhuga á. Eiginkona hans og náinn samstarfsmaður til margra ára, Sigríður Jóhannsdóttir sem einnig er kirkjulistamaður, hefur heldur ekki gefið skýr svör um þetta.

En hún sagði mér frá atviki sem ég held að sé lykillinn að svarinu við spurningunni. Leifur var spurður í þaula af væntanlegum kaupanda verks um endanlega merkingu þess og hann færðist undan eins og vanalega, en sá fyrri gaf ekki eftir og varð ágengur. Leifur svaraði honum loks, svolítíð pirraður: "Æ, það má Guð vita."

Listaverk Leifs lifna og fá merkingu fyrir trú þeirra sem njóta þeirra í kirkjunni. Hefðbundnu sálmarnir eru ef til vill ekki alveg í sama takti og þessi listaverk, en í nýju sálmabókinni eru lofsöngvar sem taka undir með þessum myndum. Þau skírskota sérstaklega til lofgjörðarinnar í upphafi messunnar.

Í messunni, 8. desember, þar sem söfnuðurinn tók á móti nýja listaverkinu og þakkaði listamanninum var sunginn lofgjörðarsálmur eftir Sigurbjörn Einarsson sem vel á við andann í kirkjulist Leifs. Eftirfarandi vers flytur sama boðskap og glerlistaverið umrædda og er yfirskriftin Sigur lífsins:

Vakna, lifna, lífið kallar,
ljóssins ríki frelsarans,
bróðurfórnin brúað hefur
bilið milli Guðs og manns.
Opna hjartað, elska, þjóna
anda, vilja, kærleik hans.

Listaverkið í glugganum og myndirnar á sýningunni lifna við þegar presturinn tónar eftirfarandi lofgjörð í upphafi þakkargjörðarinnar þegar kemur að altarissakramentinu:

Sannlega er það maklegt og réttvíst,
skyldugt og mjög hjálpsamlegt,
að vér alla daga og á öllum stöðum
lofum þig og þökkum þér,
þú heilagi Drottinn, almáttugi faðir og eilífi Guð
fyrir Jesú Krist Drottin vorn.
 
Og þegar söfnuðurinn rís úr sætum og syngur Sanctus (heilagur) þá taka englarnir og postularnir undir:
 
Heilagur, heilagur, heilagur ert þú,

Drottinn, Guð allsherjar.
Himnarnir og jörðin eru full af dýrð þinni.
Hósíanna í upphæðum.
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.

Í krossmarkinu miðju er þyrnikórónan, eina táknið fyrir utan spjótið sem í raun minnir á þjáningar Jesú. En fyrir áhrif sólarinnar ummyndast þyrnikóróna þjáningarinnar í lífsins kórónu, sem minnst er á í Opinberunarbók Jóhannesar. Það er þessi kóróna sem átt er við þegar fermingarbörnin fá blessun með orðunum:

"Vertu trú allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu."

Kristur er ekki lengur á þessum krossi og hann er ekki í gröfinni heldur. Hann er hér meðal okkar, hér í kirkjunni og í hjörtum þeirra sem trúa.

Og í messunni erum við ímynd - í mynd - hans.

 

Heimildir

1 Guðbergur Bergsson 2002: Kyrr birta - heilög birta. Listasafn Kópavogs. S. 74.
2 Íslensk Hómilíubók. Fornar stólræður. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík 1993. S. 8-9.
3 Laugardaginn 7. desember 2002. Daginn eftir var glugginn helgaður af biskupi Íslands, Herra Karli Sigurbjörnssyni, við hátíðarmessu að viðstöddu fjölmenni. Þá var tíu ára vígsluafmæli kirkjunnar og við það tækifæri var ný kapella tekin í notkun.
4 Paul Tillich 1960: "Art and Ulitimate Reality." Cross Currents. A Quarterly Review. Vol X,1

EFTIR PÉTUR PÉTURSSON
Höfundur er prófessor í kennimannlegri guðfræði við guðfræðideild Háskóla Íslands.

Upprunalega birt í Lesbók Morgunblaðsins, 4. janúar 2003, bls. 8 - 9 og á vef blaðsins: http://mbl.is/greinasafn/grein/706888/?item_num=4&searchid=ccb8258475be813511dfbcf6f792bf2575654a24