Fréttir

Ályktanir frá Kirkjuþingi unga fólksins á Vestmannsvatni

Glerárkirkja átti fulltrúa meðal þeirra sem sóttu Kirkjuþing unga fólksins í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi laugardaginn 28. maí. Unnið var í fjórum hópum og kom hver hópur með eina eða fleiri ályktanir sem allar voru samþykktar (að hluta til sameinaðar). Upptakan hér að ofan er frá þeim hluta þingsins þegar ályktanirnar voru kynntar fyrir fundinum.

Til hamingju með afmælið Krógaból

25 ár eru liðin frá því að leikskólinn Krógaból tók til starfa sem foreldrarekinn leikskóli í húsnæði að Löngumýri 16 á Akureyri, en fljótlega, eða í ágúst 1989 flutti leikskólinn á neðri hæð Glerárkirkju og hefur verið þar síðan. Í dag var mikil gleði og hátíð í leikskólanum í tilefni af afmælinu. Starfsfólk og sóknarnefnd Glerárkirkju óskar starfsfólki, foreldrum og að sjálfsögðu öllum börnunum til hamingju með daginn. Hér á vef Glerárkirkju má skoða  nokkrar myndir af því hvernig hátíðin blasti við okkar af svölunum á efri hæð kirkjunnar.

Lögmannshlíðarkirkja 150 ára - hátíðarmessa

Sunnudaginn 29. maí kl. 14:00 verður hátíðarmessa vegna 150 ára afmælis þeirrar kirkju sem nú stendur í Lögmannshlíð. Vígðir þjónar kirkjunnar þjóna, Jón A. Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum prédikar. Að messu lokinni er boðið til messukaffis í safnaðarheimili Glerárkirkju. Allir velkomnir.

Aðalfundur Kórs Glerárkirkju.

Aðalfundur Kórs Glerárkirkju verður haldinn miðvikudaginn 1. júní kl. 20.30 Dagskrá. 1. Fundur settur 2. Kosning fundarstjóra og ritara 3. Fundargerð síðasta aðalfundar lesin 4. Skýrsla formanns 5. Skýrsla gjaldkera, ársreikningar lagðir fram 6. Kosning stjórnar og varamanna 7. kosning raddstjóra, nótnavarða og skoðunarmanna reikninga 8.Kaffihlé 9. Önnur mál.

Breytingar í sóknarnefnd

Á aðalsafnaðarfundi sunnudaginn 22. maí síðastliðinn fóru fram kosningar í sóknarnefnd.

Ályktun aðalsafnaðarfundar

Á aðalsafnaðarfundi Lögmannshlíðarsóknar var eftirfarandi ályktun samþykkt: Aðalsafnaðarfundur Lögmannshlíðarsóknar haldinn í Glerárkirkju sunnudaginn 22. maí 2011 harmar þann róttæka og ósanngjarna niðurskurð á sóknargjöldum sem orðið hefur á hinum síðustu árum. Fundurinn varar við því að frekari niðurskurður muni koma alvarlega niður á þjónustu við alla þá aldurs- og þjóðfélagshópa sem til kirkjunnar leita og þiggja þjónustu hennar. Minnt er á að sóknargjöld eru  félagsgjöld í eðli sínu sem renna jafnt til safnaða þjóðkirkjunnar sem og annarra skráðra trúfélaga og standa undir grunnþjónustu þeirra og mynda þar með mikilvægan þátt í velferðaruppbyggingu samfélagsins. Fundurinn hvetur háttvirt alþingi til þess að sporna við því að til frekari niðurskurðar komi. Ályktunin er send öllum alþingismönnum og afrit til fjölmiðla, ásamt fylgiskjölum sem finna má hér fyrir neðan.

Bæn um vernd á tíma eldgoss

Þegar æðandi kraftar eldsins úr iðrum jarðar, þrýsta öskunni til himins breiða hana yfir byggðirnar, byrgja auglit sólar, fela angan jarðar , og fylla vit alls sem andar, áköllum við þig ó, Guð um miskunn. Þú, sem í árdaga bast höfuðskepnurnar og breyttir óskapnaðinum í sköpun við biðjum þig, Kom í mætti þínum og beisla óhemjuna, svo að aftur verði kyrrð og friður á jörðu, ullin verði aftur hvít og jörðin græn og fólkið gangi til iðju sinnar í öruggu trausti, til verndar þinnar og varðveislu í frelsaranum Jesú Kristi. Amen. Kristjan Valur Ingólfsson

Messa og aðalsafnaðarfundur

Messað verður í Glerárkirkju sunnudaginn 22. maí kl. 11:00. Prestur er sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir. Kór Glerárkirkju leiðir söng undir stjórn Valmars Väljaots. Að messu lokinni er aðalsafnaðarfundur í safnaðarsal kirkjunnar. Venjuleg aðalfundarstörf.

Vortónleikar Kórs Glerárkirkju

Vortónleikar Kórs Glerárkirkju verða haldnir laugardaginn 14. maí kl. 16.00.  Stjórnandi er  Valmars Väljaots og undirleikari Petra Björk Pálsdóttir. Efnisskráin er fjölbreytt blanda kirkjulegs og veraldlegs efnis. Má þar nefna verk eins og  Komm, Jesu, komm eftir Johann Sebastian Bach,  Ég man hverja stund eftir Jón Kell,  Thank you for the music, hið alþekkta Abbalag eftir Benny Anderson & Björn Ulvaeus  og Locus iste eftir Anton Brucner. Við fáum góða heimsókn því Sönghópurinn Veirurnar undir stjórn Guðbjargar Tryggvadóttur mun líta við hjá okkur eftir tónleika sem þau eru með í Hofi kl. 14.00 . Þau flytja nokkur lög af sinni efnisskrá og að lokum syngja kórarnir saman eitt lag.   Miðaverð er krónur 1.500.- Við getum því miður ekki tekið greiðslukort Hlökkum til að sjá ykkur! Með kveðju frá félögum og stjórnanda Kórs Glérárkirkju:o)

Óskilamunir í Glerárkirkju

Að vanda hefur nokkuð safnast af óskilamunum í Glerárkirkju í vetur, húfur, vettlingar, peysur, reiðhjólahjálmar og jafnvel buxur. Þeim sem grunar að þau gætu hafa gleymt einhverju í kirkjunni í vetur er bent á að hægt er að nálgast óskilamuni í kringum viðburði í kirkjunni sem og á opnunartíma virka daga milli 11:00 og 15:00. Þann 20. maí verða ósóttir óskilamunir svo gefnir til Hjálpræðishersins. Fermingarbörn sem enn eiga eftir að sækja vinnubækur sínar eru hvött til að gera það á næstu dögum, en prestar kirkjunnar munu hins vegar koma í heimsókn í bekki með myndir úr fermingarathöfnunum í næstu viku.