Fréttir

Ný vika, ný tækifæri

Mánudagsmorguninn 2. mars er að vanda opið hús og upplýsingar í Glerárkirkju fyrir fólk í atvinnuleit. Húsið opnar klukkan níu og setið er og spjallað í rúma klukkustund. Þennan dag er sérstaklega leitað eftir hugmyndum um efni sem þátttakendur vildu fá upplýsingar um á næstu mánudagsmorgnum en auk þess verður verkefnið Samlist kynnt.

Barnastarf og messa kl. 11:00 næstkomandi sunnudag

Sunnudaginn 1. mars næstkomandi er barnastarf og messa í Glerárkirkju kl. 11:00. Sameiginlegt upphaf er í messunni, en þegar kemur að síðasta sálmi fyrir prédikun þá fara börnin og þeir foreldra sem kjósa yfir í safnaðarsalinn þar sem barnastarfið heldur áfram. Sr. Arnaldur Bárðarson þjónar í messunni, Hjörtur Steinbergsson er organisti og félagar úr Kór Glerárkirkju leiða söng. Barnastarfið er í umsjón Valmars, Péturs, Sædísar og Kolbráar. Allir velkomnir.

Ný vika, ný tækifæri

Á mánudagsmorgnum hittist fólk í atvinnuleit í safnaðarsal Glerárkirkju, spjallar og spáir í spilin. Þá fær hópurinn góða gesti í heimsókn hverju sinni. Mánudaginn 23. febrúar verður það Soffía Gísladóttir frá Vinnumálastofnun sem færir hópnum upplýsingar um mikilvægustu þætti sem einstaklingar á atvinnuleysisskrá þurfa að hafa í huga. Húsið opnar kl. 09:00, erindi Soffíu er kl. 09:30. Allir velkomnir, brauð og kaffi á borðum þátttakendum að kostnaðarlausu.

Samskipti foreldra og barna og unglingsárin

Næstkomandi sunnudag, 22. febrúar verður boðið upp á fræðslu í safnaðarsal kirkjunnar á undan messu eða kl. 10:00 árdegis. Þar mun Kristján Már Magnússon sálfræðingur fjalla um efnið Samskipti foreldra og barna og unglingsárin. Minnt er á að blessuð börnin eru okkur dýrmætasti fjársjóður og foreldrar og aðrir hvattir til að gefa málefninu tíma. Nánari upplýsingar gefa prestar kirkjunnar, sr. Gunnlaugur Garðarsson og sr. Arnaldur Bárðarson.

Foreldramorgnar í Glerárkirkju

Fimmtudagsmorgnar eru foreldramorgnar í Glerárkirkju. Þá hittast ríflega 30 foreldrar með lítil börn á samverustund í safnaðarsalnum þar sem tíminn er fljótur að líða við leik og spjall auk þess sem rómað morgunverðarhlaðborð Rósu ráðskonu svíkur engan. Allir eru velkomnir á foreldramorgna í kirkjunni.