Fréttir

Vel heppnuð ferð Giljaskólahóps á Hólavatn

Þessa dagana standa yfir kynningaferðir æskulýðsstarfsins á Hólavatn. Ferð númer tvö lauk í dag þegar 24 krakkar komu til baka úr vel heppnaðri ferð, en flest þeirra eru í Giljaskóla. Veðrið lék við hópinn og var gaman hve mikill áhugi krakkanna var á íþróttum og var blakvöllurinn mikið notaður. Að sjálfsögðu var líka farið í og á vatnið og tekið þátt í fjölbreyttri dagskrá. Í dag leggur svo þriðji og síðasti hópurinn að þessu sinni upp í ferð á Hólavatn kl. 16:30.

Vel heppnuð ferð Glerárskólahóps á Hólavatn

Það voru 13 ánægðir unglingar sem snéru heim í hádeginu í dag að lokinni næturlangri dvöl á Hólavatni þar sem veðrið lék við hópinn. Mikið var verið á og í vatninu, brauð bakað yfir eldi á miðnætti, hlegið á kvöldvöku og sungið hástöfum. Um fyrstu ferðina af þremur var að ræða. Það er æskulýðsstarf Glerárkirkju sem stendur fyrir ferðunum og geta verðandi fermingarbörn valið að fara með í ferðina, en hún er ekki hluti af formlegri fermingarfræðslu kirkjunnar.

Biblían og bókstafurinn

,,Að smætta kristni í bókstafstrú og tefla henni gegn manneskjunni, vinnur gegn eðli hennar og er til skaða í samfélaginu. Auglýsingin um helgina minnir okkur á það." segja prestarnir Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir m.a. í pistli í dag í Fréttablaðinu og á trú.is. Þar benda þau á að: ,,Kristin manneskja byggir ekki trú sína á bókstöfum og lögmáli, heldur fyrirheitinu um frelsi og ást Guðs, eins og það birtist í Jesú frá Nasaret."

Lagt af stað á Hólavatn í dag

Nýung í starfi Glerárkirkju þetta haustið er að verðandi fermingarbörnum er boðið í gistiferð á Hólavatn. Þar dvelur hver hópur frá síðdegi fyrra daginn til hádegis næsta dag við leik og hópefli. Með ferðinni vill Glerárkirkja kynna það æskulýðsstarf sem fram fer á vegum kirkjunnar og samstarfsaðila hennar KFUM og KFUK. Nú þegar formlegri skráningu er lokið hafa tæplega 50% árgangsins skráð sig í ferðirnar, en þær eru valkostur til viðbótar við fermingarfræðsluna. Fyrsti hópurinn fer af stað í dag kl. 16:30 frá Glerárkirkju. Ef einhver hefur óvart gleymt að skrá sig er sá hinn sami / sú hin sama beðin að hringja í 864 8451.

Jesús grætur yfir hælisleitendum ...

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, vígði sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur til embættis vígslubiskups á Hólum við hátíðlega athöfn í Hóladómkirkju í dag. Í prédikun sinni minnti Solveig Lára áheyrendur á að Jesús grætur yfir ranglætinu í heiminum og sagði meðal annars: ,,Jesús grætur líka yfir okkur hér á Íslandi. Hann grætur yfir hælisleitendum sem ekki fá hæli hér á landi, þó við höfum hér nóg pláss og fullt af hjartarými, hælisleitendum sem eru bara fólk eins og við og börnin okkar. Jesús grætur yfir fórnarlömbum heimilisofbeldis á Íslandi og öllum þeim sem líður illa vegna óuppgerðra til finninga, sorgar, reiði og gremju."

Hólahátíð hefst í dag

Hólahátíð hefst formlega í kvöld kl. 20:00 í Auðunarstofu. Þar flytur Ragnheiður Þórsdóttir erindi um vefnað til forna við kljásteinsvefstól sem þar hefur verið settur upp. Hápunktur hátíðarinnar er svo á sunnudag en þá vígir biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, Solveigu Láru Guðmundsdóttur til vígslubiskups á Hólum. Meðal gesta verða sex erlendir biskupar.

Upplýsingaskilti við minnisvarða um sr. Friðrik endurnýjað

Í landi Háls í Svarfaðardal stendur minnismerki um sr. Friðrik Friðriksson. Á dögunum var skilti með upplýsingum um ævi og störf sr. Friðriks, endurnýjað.

Aung San Suu Kyi segir þörf á nýjum aðferðum við sáttargjörð

„Friður, öryggi og sáttargjörð í Myanmar“ var yfirskrift ráðstefnu sem haldin var dagana 2. til 5. ágúst sl. í Myanmar. Að baki ráðstefnunnar stóðu samtök kristinna kirkna í Asíu og samkirkjuráðið í Myanmar. Nóbelsverðlaunahafinn og mannréttindabaráttukonan Aung San Suu Kyi ávarpaði ráðstefnuna og benti á að leita þyrfti einfaldra, en djúpstæðra leiða til að tryggja frið.

Kirkjan hörfar

Þýski fréttavefurinn welt.de birti fyrir tveimur dögum áhugaverða grein sem ber heitið „Die Kirche räumt sich selbst aus dem Weg.“ Þar fjallar blaðamaðurinn Dankwart Guratzsch um þá breytingu sem hefur orðið í samfélaginu eða öllu heldur í viðhorfi kirkjunnar í gegnum tíðina. Hann byrjar á því að minna á að sú hafi verið tíðin að einræðisherrar eins og Stalín hafi þvingað trúfélög til þess að láta heilagar byggingar af hendi. Í dag taki trú og kirkjubyggingar sífellt minna pláss í þjóðfélaginu.

Ferðir fermingarbarna á Hólavatn nálgast

Á morgun, þriðjudaginn 14. ágúst hefjast gistiferðir verðandi fermingarbarna á Hólavatn í Eyjafirði. Minnt er á að nauðsynlegt er að skrá sig. Því fyrr sem fólk skráir sig, þeim mun betur getum við skipulagt ferðirnar. Þessar ferðir eru ekki hluti af formlegri fermingarfræðslu kirkjunnar heldur er um kynningu á æskulýðsstarfi Glerárkirkju að ræða. Skráning stendur yfir á netfangið glerarkirkja@glerarkirkja.is