Saga kirkjunnar

Ágrip af sögu Glerárkirkju
Töluvert er um liðið síðan hugmyndir vöknuðu um að reist skyldi kirkja í Glerárhverfi. Mörgum þótti það orðið tímabært, þar sem í Lögmannshlíðarsókn var aðeins ein kirkja, Lögmannshlíðarkirkja, sem fyrir löngu var orðin allt of lítil og auk þess komin nokkuð til ára sinna.

Fyrsta byggingarnefndin var skipuð í árslok 1969 og hófst hún strax handa í byrjun árs 1970 undir forystu Vals heitins Arnþórssonar. Aðalverkefni nefndarinnar voru að finna stað fyrir kirkju í Glerárhverfi og leiðir til að fjármagna byggingu hennar.

Nokkru áður en nefndin var skipuð höfðu sóknarprestarnir í Akureyrarprestakalli, Pétur Sigurgeirsson og Birgir Snæbjörnsson, lagt inn umsókn um lóð fyrir kirkju á svokölluðum Neðri-ás sem er beint norður af leikskólanum Árholti. Var kirkjunni ætlaður staður norðan Harðangurs og sunnan Melgerðis. Störf nefndarinnar miðuðust við það að kirkjan yrði reist á þessum stað og næstu misserin var unnið talsvert undirbúningsstarf. Mörgum kann að þykja það undarlegt nú, að ætlunin hafi verið að "troða " kirkju niður á þessum stað. En byggðin í Glerárhverfi hefur breyst geysilega mikið á undanförnum árum og á þessum tíma var alls ekki óeðlilegt að menn renndu sjónum að Neðri-ásnum þegar kirkjubyggingu bar á góma. Svo fór að störf nefndarinnar lögðust smám saman niður m.a. vegna þess að einhverjir nefndarmanna fluttu úr sókninni.

Glerárprestakall stofnað 1981
Árið 1981 var Akureyrarprestakalli skipt í tvennt og hét þá Glerárprestakall norðan Glerár. Til þess heyrðu í upphafi Lögmannshlíðarsókn og Miðgarðasókn í Grímsey, en fyrir tveim árum var Miðgarðasókn færð undir Akureyrarprestakall. Eftir breytingu þessa var lífi blásið í hugmyndir um nýja kirkju í Glerárhverfi. Ný byggingarnefnd var skipuð á ársbyrjun 1981 og veitti Andri Páll Sveinsson henni forstöðu. Í desember fóru fram prestskosningar og var þá kjörinn fyrsti prestur Glerárprestakalls, séra Pálmi Matthíasson. Átti hann ekki hvað minnstan þátt í að hugmyndir um að prestakallið unga eignaðist eigin kirkju urðu að veruleika. Nýskipuð byggingarnefnd hélt áfram á þeirri braut sem hin fyrri hafði markað. Mikið starf var unnið og miðaðist það við að kirkjan risi á ásnum norðan Harðangurs.

Nýr byggingarstaður
Smám saman kom í ljós að ef til vill væri staðurinn ekki eins heppilegur og talið hafði verið. Margar samverkandi ástæður urðu til þess að menn urðu afhuga honum; ásinn var um margt erfiður byggingarstaður auk þess sem byggð í Glerárhverfi hafði breyst mikið á skömmum tíma. Hún hafði fikrað sig æ lengra til vesturs og norðurs og heildarmynd hverfisins því orðin allt önnur en þegar fyrst var farið að hugsa um að reisa kirkju. Úr vöndu var að ráða. Ef hætt yrði við að byggja á ásnum, hvar væri þá pláss fyrir kirkju? Búið var að ráðstafa nánast öllum lóðum í hverfinu sem til greina gætu komið. En ekki tjóaði að leggja árar í bát, enda hvarflaði það ekki að neinum. Menn renndu hýru auga til lóðar við hlið Sjálfsbjargarlóðarinnar við Bugðusíðu, úrvals staðar nánast í miðpunkti Glerárhverfis. Forráðamenn Sjálfsbjargar voru búnir að fá vilyrði bæjaryfirvalda fyrir henni en það varð úr að sendinefnd var gerð út af örkinni til viðræna við Sjálfsbjörgu. Þar á bæ var síður en svo nokkur andstaða við að fá kirkju sem nágranna og í framhaldi af því samþykkti meirihluti byggingarnefndar í ársbyrjun 1983 að sækja um lóð undir kirkjubyggingu á svæðinu. Hlutirnir gengu hratt í "kerfinu" og lóðin var formlega veitt 31. maí 1983. Ný byggingarnefnd var skipuð í nóvember og var Ingi Þór Jóhannsson kjörinn formaður hennar og gegndi því starfi til ársins 1990. Störf Inga Þórs einkenndust af samviskusemi og tilfinningu fyrir hverju verki. Torfi Guðmundsson tók við formennsku í byggingarnefnd árið 1990 og stýrði henni farsællega á lokasprettinum.

Framkvæmdir hafnar
Hönnun kirkjunnar hafði að sjálfsögðu mikið verið rædd á undangengnum árum og haustið 1982 hófust viðræður við Svan Eiríksson, arkitekt, um að hann tæki hönnunina að sér. Hann reyndist fús til þess og formlega var gengið frá samningi við hann, ásamt öðrum hönnuðum, þegar lóðin var fengin. Tóku þeir til óspilltra málanna. Réttu ári eftir að Lögmannshlíðarsókn fékk lóðina til umráða, 31. mái 1984, var fyrsta skóflustungan að Glerárkirkju tekin. Það verk annaðist þáverandi biskup Íslands, herra Pétur Sigurgeirsson. Í júlí var samþykkt að semja við Híbýli hf. um byggingu fyrsta áfanga kirkjunnar, þ.e. uppsteypu neðri hæðar. Einnig var ákveðið að Eiríkur Stefánsson yrði eftirlitsmaður byggingarinnar fyrir hönd sóknarinnar. Því starfi hefur Eiríkur raunar gegnt allan byggingartímann af geysilegri elju og ósérhlífni. Bygging fyrsta áfanga gekk samkvæmt áætlun og í apríl 1985 var samið bið Híbýli hf. um byggingu 2. áfanga; að gera kirkjuna fokhelda. Þann 18. ágúst 1985 var í fyrsta sinn messað í hinni nýju kirkju og var kirkjugestum við það tækifæri kynnt skipulag og framkvæmdir við kirkjuna. Því fór þó víðs fjarri að reglulegt messuhald væri hafið í Glerárkirkju, hún var ekki einu sinni orðin fokheld. En unnið var af krafti við uppsteypu. Á þessum árum var Marinó Jónsson formaður sóknarnefndar eða frá 1985-1990 er hann flutti úr sókninni. Vann hann ötullega af framgangi kirkjubyggingarinnar og var byggingarnefnd góður stuðningur. Glerárkirkja var formlega fokheld 7. júní 1986 og var haldinn kirkjudagur af því tilefni með fjölbreyttri dagskrá. Var síðan hafist handa við frágang innan- og utanhúss og var óskað eftir sjálfboðaliðum til aðstoðar við þá vinnu. Viðbrögð sóknarbarna létu ekki á sér standa og næstu misseri var geysilega mikið sjálfboðaliðastarf innt af hendi. Lætur nærri að þrjú hundruð manns hafi lagt hönd á plóginn og það segir sig sjálft að slíkt framlag er ómetanlegt. Í byrjun árs 1987 var lokið við að innrétta eftir hæð suðurálmu og anddyri fyrir bráðabirgðakirkjuaðstöðu. Og þann 15. febrúar vígði herra Pétur Sigurgeirsson, biskup Íslands, fyrsta hluta kirkjunnar við hátíðlega athöfn. Í apríl 1987 var ráðinn kirkjuvörður að Glerárkirkju, Sigurveig Bergsteinsdóttir. Starf hennar hefur verið mikið og mun meira en kirkjuverðir almennt annast. Sigurveig hefur nýlega látið af störfum.

Orgel og kirkjuklukkur
Síðari hluti árs 1987 lét Áskell Jónsson af störfum en hann hafði verið organisti Lögmannshlíðarsóknar allar götur frá 1945, eða í 42 ár. Þegar Áskell varð 75 ára, árið 1986, stofnaði hann ásamt konu sinni Orgelsjóð Glerárkirkju. Hann vann ötullega að því að fá fyrirtæki og einstaklinga til að styrkja sjóðinn með fjárframlögum, með það að markmiði að Glerárkirkja eignaðist hljóðfæri við hæfi. Jóhann Baldvinsson tók við organistastarfinu og hófst fljótlega handa við að huga að orgeli fyrir nýju kirkjuna. Sumarið 1988 voru svo fest kaup á hljóðfæri. Orgelið er rafeindahljóðfæri og í því eru tölvukubbar sem innihalda hljóðupptökur á pípum frá tveimur orgelum í Evrópu. Tölvuheili sér síðan um að koma hljóðinu til átta hátalara. Árið 1988 var einnig farið að huga að kirkjuklukkum og snemma árs 1989 voru kynnt tilboð í þær. Eftir að búið var að hlusta á nokkrar klukkur af segulbandi, stóð ein tegund eftir og var gengið frá pöntun á henni seinna það ár. Klukkurnar voru steyptar í Hollandi og komu í hús 1990. Þær eru þrjár talsins og vega samtals um 1400 kg. Sérfræðingur frá seljanda kom til að setja þær upp og var þeim hringt í fyrsta sinn 2. september 1990.

Frágangur utanhúss
Árið 1989 var stálklæðning sett á þak og unnið að frágangi sem því tengist. Farið var að huga að næsta umhverfi byggingarinnar og samningur gerður við Halldór Jóhannsson, landslagsarkitekt, um skipulagningu lóðarinnar. Í tengslum við það var farið að leita tilboða í flóðlýsingu á turni og krossi. Gengið var frá pöntun í apríl og lýsingin var komin upp síðla árs. Hafist var handa við málun utanhúss en vegna veðurs tókst ekki að ljúka verkinu fyrir veturinn. Þeirri vinnu lauk sumarið eftir.

Fjölbreytt starfsemi í Kirkjunni
Kirkjustarf var að sjálfsögðu komið í fullan gang í nýja húsinu og eins og nærri má geta var aðstaðan til þess öll önnur og betri en áður. Sérstaklega batnaði aðstaða kórsins verulega og hefur hann verið mjög öflugur. En Glerárkirkja hýsir fleira en hið kirkjulega starf. Á neðri hæðinni hefur verið leigt út rými. Skátafélagið Klakkur var með aðstöðu fyrir starfsemi sína sem var afhent í ársbyrjun 1989 og síðla sumars það ár komu Velunnarar Krógabóls þar inn með dagheimili sitt, síðar rekið af Akureyrarbæ. Einnig hafa fleiri samtök fengið inni með starfsemi í kirkjunni.

Prestaskipti
Í apríl 1989 var sóknarpresturinn Pálmi Matthíasson óvænt kallaður til starfa í Bústaðasókn en sr. Pálmi hafði verið prestur í Glerárprestakalli frá því það var stofnað. Prestkosningar fóru fram í júní og var sr. Pétur Þórarinsson á Möðruvöllum valinn úr hópi þriggja umsækjenda. Ekki auðnaðist sr. Pétri langt starf í sókninni, því rúmu einu og hálfu ári síðar þurfti hann í frí sökum veikinda. Pétur Þórarinsson náði ekki þeim bata að hann gæti komið aftur til starfa og varð því að segja starfinu lausu. Séra Lárus Halldórsson leysti Pétur af í nóvember 1990og starfaði fram í maílok 1991. Í apríl það ár voru enn haldnar prestskosningar og var sr. Gunnlaugur Garðarsson Í Garðasókn valinn úr hópi þriggja umsækjenda. Hann kom til starfa í Glerárprestakalli í júníbyrjun 1991. 

Lokaspretturinn
Árið 1990 var lokið við frágang neðri hæðar vesturálmu. Bílastæði vestan kirkjunnar voru malbikuð og fyrir jól var lokið við að einangra kirkjuskipið. Einnig var þak safnaðarheimilisins einangrað; auk þess sem í mörg horn var að líta varðandi annan frágang. Þegar loks var farið að sjást fyrir endann á framkvæmdunum settist bygginganefndin niður og gerði framkvæmda- og kostnaðaráætlun fyrir lokasprettinn. Það var margt sem þurfti að taka tillit til og hefur áætlunin verið í sífelldri endurskoðun eftir því sem verkinu hefur miðað. Bygginganefndin hefur haft það að leiðarljósi við vinnu sína að Glerárkirkja sé bygging sem eigi eftir að standa um ókomna tíð. Vegna þessa hefur oft tekið langan tíma að komast að niðurstöðu um hönnun og efnisval. Mikið hefur mætt á nefndarmönnum sem hafa undanfarin misseri fundað a.m.k vikulega oft með arkitekt og sóknarpresti þar sem ákvarðanir hafa verið teknar um stór og smá forgangsatriði. Sem dæmi má taka frágang lofts í kirkjuskipi. Mikill tími fór í að samræma fagurfræðilegar kröfur og kröfur um hljómburð. Einnig var lengi velt vöngum yfir lýsingu og vali á gólfefnum, svo eitthvað sé nefnt auk ótal smærri atriða sem ógerlegt er að telja upp. En til allra þátta,stórra sem smárra hefur verið vandað eins og frekast er kostur. En þótt bygginganefnd hafi lagt á ráðin um allan frágang hefur hún oft haft samstarf við þá aðila sem vinna í kirkjunni. Eldhúsið var til að mynda hannað í samstarfi við Kvenfélagið Baldursbrá en kvenfélagskonur hafa séð um veitingar í kirkjunni og raunar stutt hana og starf hennar með ósérhlífnu og fórnfúsu starfi alla tíð. Kvenfélagið studdi einnig kirkjubygginguna með beinum fjárframlögum og meðal annars gaf það megnið af tækjunum í eldhúsið.

Glerárkirkja vígð
Þann 6. desember árið 1992 var Glerárkirkja svo vígð, um átta og hálfu ári eftir að fyrsta skóflustungan var tekin. Kirkjan er alls um 2100 m2 þar af er neðri hæðin um 1000 m2. Til gamans má geta þess að í upphafi var áætlað að það rými sem nú er neðri hæðin yrði fyllt upp en sem betur fer var horfið frá því. Þótt ekki sé öllu plássi enn ráðstafað þar er ljóst að allmiklu þrengra hefði verið um allt starf ef engin væri neðri hæðin. Þarna voru langtíma sjónarmið látin ráða. Þá rættist loks langþráður draumur um kirkju i Glerárhverfi.

Hin seinni ár
Í febrúar árið 1994 var gerður verksamningur við SS Byggi um innréttingu á hluta neðri hæðar Glerárkirkju fyrir leikskóla. Gerður var leigusamningur við Akureyrarbæ til 15 ára frá 1. Júní 1994 og var hið leigða rými 535m2. Þann 28. maí árið 1995 kom upp eldur í Glerárkirkju. Eldsupptökin voru á neðri hæð byggingarinnar þar sem leikskólinn Krógaból er til húsa og nam tjón af völdum elds, vatns og reyks tugum milljóna króna. Þremur vikum eftir brunann var kirkjan tilbúin til helgiathafna og öllum endurbótum á Neðri hæð lauk í byrjun septembermánaðar. Fyrsta guðsþjónustan eftir brunann var haldin sunnudaginn 9. júlí þegar séra Bolli Gústafsson vígslubiskup flutti þar predikun, fyrirbæn og blessunarorð.

Sunnudaginn 5. desember árið 1999 vígði sr. Bolli Gústafsson nýtt altari í kirkjunni við hátíðlega athöfn í upphafi messu. Séra Hannes Örn Blandon prófastur predikaði og sóknarprestur þjónaði fyrir altari.

Gerður var nýr leigusamningur við Akureyrarbæ um leikskólann Krógaból á árinu 2001 og var þá innréttað viðbótar húsnæði fyrir skólann sem nú er alls 708m2 og er leigusamningurinn til 10 ára frá 1. júlí 2001 til 30. júní árið 2011. Í september árið 2002 var sett þak yfir klukkuportið í kirkjuturninum og var þar náð enn einum langþráðum áfanganum í byggingarsögu kirkjunnar. Við hátíðarmessu á tíu ára vígsluafmæli kirkjunnar þann 8. desember árið 2002 vígði herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, kapellu í suður álmu kirkjunnar en þar hefur verið innréttuð aðstaða fyrir prestana og annað starfsfólk kirkjunnar auk þess sem það er einnig lítil kapella. Í Suður álmu kirkjunnar voru innréttaðar tvær kennslustofur sem síðan voru leigðar til Síðuskóla frá 1994 til 2001. Í dag er kirkjan með alla efri hæð hússins í notkun og hluta af neðri hæð. Með nýjum leigusamningi við Akureyrarbæ árið 2011 var leikskólanum tryggt áframhaldandi húsnæði á neðri hæð kirkjunnar.

Vegna stærðar prestakallsins og mikinn fjölda sóknarbarna var nýtt embætti  prests stofnað við Glerárpestakall til þess að starfa við hlið sóknarprests. Þá var sr. Arnaldur Bárðarson skipaður prestur í Glerárpestakalli í mars 2005og þjónaði hann við kirkjuna til ársins 2009. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir var skipuð prestur við prestakallið í júní 2010 og þjónaði hún við kirkjuna til ársins 2014. Sr. Jón Ómar Gunnarsson var skipaður prestur í hennar stað í september 2014. 

Myndir: