Ályktun um sóknargjöld og atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá

Forystumenn austfirskra þjóðkirkjusókna ályktuðu um sóknargjöld og komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána á nýliðnu leiðarþingi Austurlandsprófastsdæmis, en slík þing eru haldin um allt land í tengslum við komandi Kirkjuþing. Leiðarþing í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi verða tvö, annars vegar í Glerárkirkju miðvikudagskvöldið 26. september og hins vegar í Bjarnahúsi á Húsavík laugardaginn 29. september kl. 11:00.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar fyrir austan:

1) Þjóðin mun ganga til atkvæðagreiðslu þann 20. október n.k. um eftirfarandi spurningu: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um Þjóðkirkju Íslands“?
Leiðarþing Austurlandsprófastsdæmis hvetur Íslendinga til þess að mæta á kjörstað og kjósa á þann veg að áfram verði ákvæði í stjórnarskrá Íslands um Þjóðkirkjuna.
Í 62 gr. stjórnarskrár stendur: „Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“
Leiðarþingið telur að þetta ákvæði hafi reynst þjóðinni vel og verið hornsteinn að gildismati sem kirkjunni ber að varðveita og rækta með stuðningi ríkisvaldsins. Kirkjan er samofin menningu og sögu þjóðarinnar sem og frændþjóða okkar á Norðurlöndunum, sjálfstæð og lýðræðisleg almannahreyfing sem heldur uppi þjónustu- og mannræktarstarfi um land allt.
2) Leiðarþing Austurlandsprófastsdæmis lýsir þungum áhyggjum af fjárhagsstöðu sókna vegna skerðingar Alþingis á sóknargjöldum undanfarin ár. Þessi skerðing er langt umfram það sem gerst hefur um opinber framlög á fjárlögum og nemur umframskerðingin 25%.
Sóknargjöldin eru ekki ríkisstyrkur heldur félagsgjöld sem ríkið innheimtir fyrir öll trúfélög.
Skorað er á Alþingi að leiðrétta þessa alvarlegu mismunun í fjárlögum fyrir árið 2013.