Fréttir

Síðasti opni tólf spora fundurinn í kvöld

12 spora fundir í Glerárkirkju verða á mánudögum kl. 19:30 í vetur. Í kvöld, 1. október kl. 20:00 er komið að þriðja og síðasta svokallaða opna kvöldi þar sem öllum gefst kostur á að kynna sér starfið. Frá og með fjórða kvöldi geta engir nýir bæst í hópinn, því frá þeim tíma er unnið í lokuðum sjálfshjálparhópum.

Hvað ertu að gera á Facebook?

KFUM og KFUK ásamt Glerárkirkju bjóða upp á fræðslukvöld fyrir unglinga og foreldra um samfélagsmiðla á netinu með stuðningi Æskulýðssjóðs. Fræðslukvöldið verður haldið í kvöld, miðvikudagskvöldið 3. október og hefst kl. 20:00 í safnaðarsal Glerárkirkju. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Halldór Elías Guðmundsson djákni og æskulýðsfulltrúi hjá KFUM og KFUK á Íslandi.

Kristin trú

Fræðslukvöldin í Glerárkirkju í október og nóvember bera að þessu sinni yfirskriftina "Hvað er kristin trú?" og er fræðslan byggð á samnefndri bók eftir Halvor Moxnes sem kom út í þýðingu sr. Hreins Hákonarsonar hjá Skálholtsútgáfunni á síðasta ári. Fræðslukvöldin verða á miðvikudagskvöldum kl. 20:00 - 22:00. Að loknu inngangserindi málshefjanda er kaffihlé og síðan taka við umræður og eru þátttakendur hvattir til virkrar þátttöku, þó vissulega sé líka velkomið að sitja hljóður og hlusta.

Innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins - hægt að sækja um í Glerárkirkju

Hjálparstarf kirkjunnar veitir bágstöddum um allt land aðstoð, árið um kring. Félagsráðgjafi veitir innanlandsdeild Hjálparstarfsins forstöðu en tveir félagsráðgjafar eru starfandi hjá stofnuninni. Tekið er á móti fólki sem sækir um og þeim veitt ráðgjöf og ýmis aðstoð eftir aðstæðum fyrir hönd Hjálparstarfsins í Glerárkirkju á viðtalstímum presta, þriðjudaga til föstudaga milli 11:00 og 12:00. Barnafjölskyldur sem og einstaklingar geta fengið inneignarkort í matvöruverslunum. Allir geta sótt um aðstoð við að leysa út lyf (ekki þríhyrningsmerkt lyf), fengið stuðning við skólagöngu og tómstundir barna. Varðandi fatnað vísum við alla jafna á Rauða Krossinn og Hjálpræðisherinn. Okkar hlutverk í Glerárkirkju er m.a. að koma útfylltum umsóknum til Hjálparstarfsins. Öllum umsóknum þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á tekjur og gjöld viðkomandi.

Skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða

Glerárkirkja stendur fyrir skyndihjálparnámskeiði fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða kirkjunnar og KFUM og KFUK. Um fjögurra kennslustunda námskeið er að ræða. Námskeiðið fer fram í safnaðarsal Glerárkirkju þriðjudaginn 9. október og hefst kl. 17:30. Þátttaka er ókeypis, skráning á netfangið glerarkirkja@glerarkirkja.is.

Foreldrafundur UD-Glerá

Fimmtudagskvöldið 4. október kl. 20:00 er foreldrafundur í UD-Glerá, sameiginlegu unglingastarfi KFUM og KFUK og Glerárkirkju. Til fundarins er boðað til að ræða markmið og ramma unglingastarfsins og sérstaklega fyrirhugaða ferð á Evrópuhátíð KFUM og KFUK í ágúst 2013. Fundurinn verður haldinn í félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð en þar fer unglingastarfið fram. Þeir 50 krakkar sem mættu í gærkvöldi (27. september) fengu foreldrabréf með sér heim, en það er einnig birt hér á vef Glerárkirkju:

Líf og fjör í UD-Glerá

Þriðja fimmtudagskvöldið í röð mættu um 50 krakkar í sameiginlegt unglingastarf KFUM og KFUK og Glerárkirkju sem nú hefur hlotið nafnið UD-Glerá. Dagskrá kvöldsins hófst með helgistund þar sem að sagt var frá því þegar Jesú hitti lærisveinana við Tíberíasvatn og borðaði með þeim grillaðan fisk og brauð (Jóh. 21). En það var í þriðja sinn sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum. Að helgistund lokinni tók við skapandi verkefni þar sem hver hópur bjó til myndastyttu. Kvöldinu lauk svo með pizzuveislu en krakkarnir slógu saman í 15 pizzur. Það var kátur og fjörugur hópur sem hélt heim á leið að samveru lokinni, öll með foreldrabréf í vasanum því næst (4. október) er foreldrafundur.

Helgihald sunnudaginn 30. september

Messað verður í Glerárkirkju sunnudaginn 30. september kl. 11:00. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar. Kór Glerárkirkju leiðir almennan safnaðarsöng undir stjórn Valmars Väljaots. Barnastarf á sama tíma í safnaðarsal. Sameiginlegt upphaf í messu. Allir hjartanlega velkomnir.

Ágúst Þór Árnason ræðir um stjórnarskrá, gildismat og trú

Í dag er samvera eldri borgara í Glerárkirkju. Þar ræðir Ágúst Þór Árnason um stjórnarskrá, gildismat og trú. Samveran hefst með söng og helgistund. Boðið er upp á kaffihlaðborð á vægu verði að hætti Rósu. Að venju eru rútuferðir frá Lindasíðu kl. 14:45. Reiknað er með að samverunni ljúki um hálf fimmleytið. Allir hjartanlega velkomnir.

Starfsfólk og kórfélagar á eldvarnarnámskeiði

Starfsfólk Glerárkirkju og fulltrúar frá Kór Glerárkirkju sóttu í gær eldvarnarnámskeið hjá Birni H. Sigurbjarnarsyni, aðstoðarslökkviliðsstjóra á Akureyri. Námskeiðið er liður í símenntun og þjálfun þeirra sem koma að starfinu í Glerárkirkju. Farið var yfir helstu lög og reglur varðandi eldvarnir og benti Björn á ýmsa mikilvæga þætti varðandi rýmingu húsnæðis, útgönguleiðir, staðsetningu slökkvitækja, neyðarlýsingu og útlýsingu. Þá fengu þátttakendur kynningu á helstu gerðum slökkvitækja og tækifæri til að prufa þær allar. Síðasta mál á dagskrá var svo æfing í notkun á eldvarnarteppi.