Fréttir

Biskup: Vegið að öryggi þjóðarinnar

Í nýárspredikun sinni í Dómkirkjunni í Reykjavík, lagði biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir áherslu á mikilvægi trúarinnar fyrir alla. Hún ræddi efnahagsvanda heimsins og sagði það umhugsunarefni hvers vegna svo hafi farið í hinum vestræna heimi allsnægtanna. Þá gerði hún vanda Landspítalans að umtalsefni og sagðist telja stöðuna það alvarlega að vegið væri að öryggi þjóðarinnar.

Agnes M. Sigurðardóttir er maður ársins á Stöð 2.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, er maður ársins á Stöð 2. Tilkynnt var um valið í áramótaþættinum Kryddsíld sem er sendur út á Stöð 2. Edda Andrésdóttir tók viðtal við Agnesi í þættinum. Þar sagði hún meðal annars að vildi að fólk vissi hvað hún og kirkjan er að gera og ræddi um þjónustu kirkjunnar og skyldur hennar um allt land.

Helgihald í Glerárkirkju um áramót

Gamlársdagur - 31. desember (mánudagur) Aftansöngur kl. 18:00. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir þjónar, Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots. Nýársdagur - 1. janúar 2013 (þriðjudagur) Hátíðarmessa kl. 14:00. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar. Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots. Þrettándi dagur jóla - 6. janúar 2013 (sunnudagur) Jólin kvödd við aftansöng kl. 18:00. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar. Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur.

Fjársjóður þinn

Í pistli dagsins á trú.is skrifar djákninn á Glerá meðal annars: ,,Nýleg sending frá Kirkjuhúsinu, lítill pappakassi sem á stendur„Hvar sem FJÁRSJÓÐUR þinn er þar mun og hjarta þitt vera“ lá á einu borðanna. Á þessari stundu var ég minntur á að út um allan heim sækir fólk sér sína hvatningartexta ýmist í Biblíuna eða í önnur trúarrit, bækur sem þeim eru helgar."

Jólaprédikun biskups

Í jólaprédikun sinni sagði biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir m.a.: ,,Á þessum jólum skulum við því minnast þakklætisins. Þakklætis fyrir að fá að lifa í landi þar sem lýðræði ríkir. Í landi þar sem kristin viðmið eru viðhöfð. Því þó margt megi betur fara erum við þó hamingjubörn miðað við margar aðrar þjóðir. Við getum líka þakkað fyrir líf okkar og þeirra sem á undan eru gengin og beðið Guð að líkna þeim sem þjást og stríða. Við getum þakkað að fá að stefna í faðm hans að leiðarlokum. "

Jólakveðja frá Kór Glerárkirkju

Jólakveðja frá Kór Glerárkirkju - smellið áfram til að sjá myndina stærri.

Þorláksmessa að vetri

Í dag, 23. desember, er Þorláksmessa, nánar tiltekið Þorláksmessa að vetri. Hún heitir svo því að aðra Þorláksmessu er að finna í dagatali kirkjunnar á sumri. Sr. Flóki Kristinsson, sóknarprestur á Hvanneyri hefur tekið saman áhugaverðan pistil um Þorlák helga, sem var sjötti biskup á Skálholtsstóli, fæddur á Hlíðarenda í Fljótshlíð 1133. Það er okkur gleðiefni að gefa birt þennan pistil með góðfúslegu leyfi sr. Flóka, en pistillinn er fjársjóður fyrir fróðleiksfúsa.

Fjölbreytt helgihald í Glerárkirkju um jól og áramót

Dagskrá um jól og áramót í Glerárkirkju samanstendur af sunnudagaskóla á Glerártorgi á Þorláksmessu, aftansöng og miðnæturmessu á aðfangadag, hátíðarmessu á jóladag, fjölskylduguðsþjónustu á öðrum degi jóla, aftansöng á gamlársdegi og hátíðarmessu á nýársdegi. Jólin verða svo kvödd í Glerárkirkju á þrettánda degi jóla við aftansöng.

Von í veröld

Í jólakveðju sinni leggur aðalritari Alkirkjuráðsins, dr. Olav Fykse Tveit, áherslu á leiðsögn Guðs sem birtist í Orði hans. Hann vitnar í sálmaskáldið sem lýsir Orði Guðs sem lampa fóta okkar og hinar mörgu tilvísanir Heilagrar ritningar til ljóssins sem sýnir dýrð Guðs og leiðsögn. Aðalritarinn minnir líka á að í listaverkum sjáum við skin stjörnunnar af himni, ljómann kringum englana og og hina himnesku birtu frá jötunni sem lýsir upp mannlífið.

Sr. Arnaldur og skatan

Akureyri Vikublað greinir frá því í síðasta tölublaði að Norðmenn vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að snúa sér þegar sr. Arnaldur sem var prestur hér í Glerárkirkju lét senda sér kæsta skötu og hákarl. Á síðustu stundu var málinu reddað og presturinn fær uppáhaldsmatinn sinn á Þorláksmessu. Við í Glerárkirkju samgleðjumst Arnaldi.