Mars 2014

Fyrirlestraröð og umræður um réttlæti

Hér fyrir neðan má horfa á kynningu sr. Örnu Ýrrar Sigurðardóttur á málþinginu sem verður nú í mars á miðvikudagskvöldum. Á næstunni verða hugvekjur og erindi birt jafn óðurm.

Fyrirlesarar

Fyrirlesararnir eru sérfræðingar í málefnunum  sem tekin eru til umfjöllunar og vinna með þau í starfi sínu.

Pallborðsumræður

Fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum hafa verið boðnir til þátttöku í pallborðsumræðum um málefnin. Allt eru þetta málefni sem snerta alla og vonir standa til að umræðurnar verði gefandi fyrir kirkju og samfélag.

Markmið

Markmiðið með kvöldunum er að skapa vettvang fyrir opna umræðu um málefni sem snerta kirkju og samfélag, mannréttindi, fátækt og misskiptingu auðs, jafnrétti og jafnræði, einstaklingshyggju og samfélagslega ábyrgð.

Í Biblíunni er fjallað um réttlæti og kristin trú hefur á öllum tímum tekið þátt í umræðu um hvernig má skapa gott og réttlátt samfélag. Á fræðslukvöldum Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis og Glerárkirkju í mars verður leitast við að efna til slíkrar umræðu með því að leiða saman kirkjunnar fólk, fræðimenn og stjórnmálamenn til að ræða um félagslegt réttlæti út frá ákveðnum þemum.

___________________________________________

Mannréttindi, fátækt, jafnrétti,
frelsi og félagsleg ábyrgð 

___________________________________________

Auglýsing til útprentunar á Pdf-formi

Bæklingur til útprentunar á Pdf-formi baeklingur_umrgler1403A4

Dagskrá:

Málþing á miðvikudögum í mars í Glerárkirkju kl. 20-22

Félagslegt réttlæti verður skoðað út frá fjórum þemum. Auk fyrirlesara taka fulltrúar stjórnmálaflokka þátt í pallborðsumræðum. Í upphafi er stutt hugvekja út frá efni kvölsins. Velkomið er að taka þátt í opinni umræðu um málefni sem snerta alla. Kvöldin eru öllum opin og kosta ekkert. Veitingar eru í boði á vægu verði.

 

5. mars - Mannréttindi og réttlæti

Fyrirlestur: Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Vefsíða Mannréttindastofu Íslands: http://www.humanrights.is

Eru mannréttindi besti grundvöllur réttláts samfélags?

Hvernig styðja lífsskoðanir og gildismat mannréttindi og hugmyndir um réttlæti?

 

Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir flutti hugvekju um mannréttindi og réttlæti.

Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir gekk út frá réttlætisvitund barnsins í hugvekju sinni eftir að hafa lesið sæluboðun Jesú í Fjallræðunni. Hún benti á að réttlætið væri eitt af stóru viðfangsefni manneskjunnar og hvernig við sköpun réttlátt samfélag og umgöngumst hvert annað. Hún benti á að mikið er talað um réttlæti í Biblíunni.  Spámenn Gamla testamentisins hefðu verið samfélagsrýnar síns tíma. Vitnaði hún í spámanninn Sakaría í því sambandi:

9... Fellið réttláta dóma
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
10Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
aðkomumönnum né fátæklingum
og hyggið ekki á ill ráð
hver gegn öðrum í hjarta yðar. (Sak. 7, 9-10)

Forsendan sem Biblían gefur er sú að Guð sé réttlátur og gerir þá kröfu til manna. Réttlætið er ástand sem menn eiga að stefna að, Guðs ríki. Réttlætið felur í sér frið, velgengni og heilbrigði. Og að ekkert skyggi á tengsl manna á milli og tengsl þeirra við Guð.

Jesús endurspeglar þessar áherslur í Fjallræðunni. Raunverulegt réttlæti gengur inn í heim synda og illsku til þess að lækna og endurreisa tengsl. Jesús ætlast til þess að menn ástundi réttlætið með gullnu reglunni: "Allt sem þér viljið að aðrir gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra." Þetta er verknaðarregla sem kallar okkur til framkvæmda, ekki aðeins að láta eitthvað ógert.

En hann gengur lengra. Mælikvarðinn er ekki við sjálf eins og gullna reglan gerir ráð fyrir heldur að við eigum að elska Guð og náungann, sem felur í sér mælikvarða annan en við sjálf. Það leiðir til auðmýktar og virðingar gagnvart öðrum, umhverfinu og sjálfum sér. Hún vildi líta á Jesús sem mannréttindafrömuð. Allur hans boðskapur gekk út á það að hver einasta manneskja hefur grundvallargildi sem enginn má fótum troða.

Að lokum vísaði hún aftur til reynslunnar af óréttlæti. Í sumum tilfellum gerum við okkur ekki grein fyrir þeim órétti sem við beitum og við lítum mismunandi augum á málin. Þess vegna er samræðan mikilvæg, bæði að hlusta á aðra og vilja til að breyta og það er ástæða þess að boðað er til þessa málþings ef það mætti verða til að bæta samfélag okkar, að það verði réttlátara.

 Margrét Steinarsdóttir flutti erindi um mannréttindi og réttlæti

Í erindi sínu gerði Margrét grein fyrir mannréttindum almennt en í síðara hluta erindisins fékkst hún við efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Hún skilgreindi mannréttindi út frá Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna:

“Það ber að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.”

Þau fjalla um mannlega reisn. Eru réttindi sem menn eiga á þeim eina grundvelli að vera manneskjur, meðfædd, óafsalanleg, ódeilanleg, háð innbyrðis og samtvinnuð. Þau eru algildar reglur, gilda fyrir alla, alls staðar. Það er skylda stjórnvalda sem aðilar eru að sáttmálanum um mannréttindi að fylgja þeim eftir en ekki einstaklinga.

Margrét greindi á milli annars vegar borgaralegra og stjórnmálalegra mannréttinda sem fjallað er um í 1-21. greinum Mannréttindayfirlýsingarinnar, og hins vegar efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda sem fjallað er um í 22-28. greinum Mannréttindayfirlýsingarinnar. Þetta er reyndar mjög umdeild aðgreining og réttindin samtvinnuð.

Hún rakti rætur mannréttinda til frönsku mannréttindayfirlýsingarinnar sem kom í kjölfar frönsku byltingarinnar og mannréttindayfirlýsingar Bandaríkjanna. En eftir hörmungar síðara heimsstyrjaldarinnar hafi Sameinuðu þjóðarnar verið stofnaðar á grundvelli þessara hugmynda sem hún taldi tæmandi talningu í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Þá fór hún í þau vandkvæði og áherslumun sem hefði komið fram við gerð bindandi mannréttindasáttmála og í umræðunum var það tekið til umfjöllunar að sumar þjóðir hafa ekki skuldbundið sig og aðrar telja mannréttindi menningarbundin. Þá fjallaði hún um þrjár kynslóðir mannréttinda og tók mörg raunveruleg dæmi þegar hún fjallaði um framkvæmd mannréttindi í raun eftir efnahag þjóðanna t. d. þegar tímabundin kreppa hefur takmarkað möguleika þjóða að framfylgja efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, en óháð efnahag ber stjórnvöldum að tryggja grundvallarmannréttindi.

Pallborðsumræður með fulltrúum stjórnmálaflokkanna

Fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum á Akureyri voru í pallborðsumræðum sem dr. Hjalti Hugason, guðfræðingur, leiddi. Það voru þau Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum, Preben Pétursson, fyrir Bjarta framtíð en hann skipar 3. sæti hjá þeim, Logi Einarsson, sem skipar 1. sæti fyrir Samfylkinguna, Sólveig Björk Stefánsdóttir, 1. sæti hjá Vinstri-grænum, og Geir Kristinn Aðalsteinsson, oddviti L-listans og formaður bæjarráðs.  Umræðurnar snérust um nauðsyn þess að móta samfélagið eftir mannréttindum, spurt var hvort mannréttindabrot ættu sér stað á Íslandi, hvernig mannréttindi væru í framkvæmd á sveitarstjórnarstíginu en undir lokin var rætt um alþjóðlega vídd þeirra t.d. um rétt til vatns. Hér má hlusta á umræðurnar á hljóðskrá.

Hljóðskrá: Umræða um mannréttindi og réttlæti

 

12. mars - Fátækt og misskipting auðs

Halldór S. GuðmundsonFyrirlestur: Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar.

Farsæld - skýrsla um fátækt verður skoðuð í þessu samhengi. Hana má nálgast hér.

Hvernig skilgreinum við fátækt?

Er fátækt óumflýjanleg?

Hvernig berjumst við gegn misskiptingu í samfélaginu?

 

Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, flutti hugvekju um fátækt og jóla-aðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu

Ragnheiður fullyrti í upphafi að fátækt væri ekki náttúrulögmál. Eftir vísun í fyrri erindi og boð um að sinna fátækum í Gamla testamentinu og tvöfalda kærleiksboðorðinu, fór hún yfir tölfræðilegar upplýsingar um jóla-aðstoðina, sem gefur mynd af stöðunni á svæðinu. Vildu hún fyrir hönd samstarfsaðilanna, Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins, Mæðrastyrksnefndar og Rauða krossins, sem hafa samstarfs með sér um þessa aðstoð vekja athygli á stöðunni.

 

Halldór S. Guðmundsson flutti erindi um farsæld og baráttu við fátækt á Íslandi

Halldór kaus að nefna erindi sitt eins og skýrsluna sem hann lagði til grundvallar: Farsæld. Barátta gegn fátækt á Íslandi. Í erindinu sagði hann frá vinnunni á bakvið skýrsluna og þeim vanda sem höfundar skýrslunnar stóðu frammi fyrir úr ýmsum geirum samfélagsins sem fengist hafa við fátækt. Skýrslan leggur til nýja hugsun um fátækt. Hann taldi upp ýmis raunhæf atriði til úrlausnar en það helst að endurskilgreina þarf fátækt og forða fólki frá fátæktar gildrum sem eru samfélagsmein. Hann taldi að samfélags-sáttmáli um ný grunndgildi í umræðunni sem byggði á mannréttindum væri ein meginforsenda í baráttunni við fátækt á Íslandi. Hann gerði í erindinu góða grein fyrir meginatriðunum í skýrslunni og vakti athygli fulltrúa stjórnmálaflokkanna eins og vonir stóðu til þegar skýrslan var saminn.

 

19. mars - Jafnrétti og jafnræði

Kristín ÁstgeirsdóttirFyrirlestur: Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu

Vefur Jafnréttisstofu: http://jafnretti.is

Hver er staða jafnréttismála á Íslandi í dag?

Hvernig er hægt að jafna stöðu kynjanna og vinna gegn öðrum ójöfnuði?

 

Sr. Guðmundur Guðmundsson flutti hugvekju kvöldins um jafnrétti og jafnræði

Í hugvekju sinni dró hann upp raunverulega mynd af jafnræði innan kirkju og kristni, byrjaði erindi sitt í Paradís og taldi sköpunarsögurnar tvær í 1. Mósebók mis jafnréttissinnaðar. Hann kom inn á starf jafnréttisnefndar þjóðkirkjunnar og kvennaguðfræi. Hann bar í því sambandi aðeins saman kaþólsku kirkjuna og þá lúthersku. Svo tók hana dæmi um samstarfsaðila Hjálparstarfs kirkjunnar á Indlandi í Social Action Movement og vitnaði í erindi sem sr. Martin Balayya, stofnandi þessara mannréttindasamtaka, hélt yfir kaþólskum prestum þar. En faðir Martin hefur í anda frelsunarguðfræði unnið gegn barnaþrælkun og giftingum ungra stúlkna með menntun barnanna. Tillaga hans var að mannréttindabarátta sé eðlileg í starfi kirkjunnar. Trú og mannréttindin eiga ekki aðeins samleið heldur styðja hvort annað. Það leiðir til þessa að guðfræðin og kirkjurnar verða að taka breytingum sem er þó ólíklegt þyki eðli trúarbragða.

Kristín Ástgeirsdóttir flutti erindi sem hún nefndi Jafnrétti og jafnræði, frá réttleysi til jafnréttis?

Kristín greindi frá sögu jafnréttindabaráttu í erindi sínu. Hún rakti söguna aftur til frönsku byltingarinnar og frelsisbaráttunnar í Bandaríkjunum. Kvennabaráttan tengist tilkomu mannréttinda yfirlýsingar þeirra  frönsku og bandarísku. Lýsti hún vel þeim aðstæðum sem konurnar voru að fást við erlendis og hér á landi. Sýndi hún meðal annar mynd af frú Vigdísi Finnbogadóttur við embættistöku hennar, en þar sat hún ein ásamt Halldóru fráfarandi forsetafrú meðal karlanna á þingi og æðstu embættum samfélagsins. Erindið var yfirgripsmikið og gaf góða mynd af sögunni og stöðu jafnréttismála í dag sem á engan hátt er lokið þó að Íslendingar séu til fyrirmyndar miðað við aðrar þjóðir samkvæmt alþjóðlegum stuðlum.

 

26. mars - Einstaklingshyggja og samfélagsleg ábyrgð

Ágúst Þór Árnason

Fyrirlestur: Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri við lagadeild Háskólans á Akureyri

Skýrslu Lútherska heimssambandsins: Þjónusta í síbreytilegu samhengi má skoða hér.

Eru einstaklingshyggja eða félagshyggja nothæfar nálganir í nútíma lýðræðis samfélagi?

Hvað segir kristin trú um  einstaklingshyggju og samfélagslega ábyrgð?

Sr. Svavar A. Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, flutti hugvekju um einstaklingshyggju og samfélagslega ábyrgð

Sr. Svavar A. Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, gekk út frá dæmisögu Jesú um miskunnsama Samverjann.  Hugvekja hans beindi athyglinni frá spurningunni sem lögvitringurinn lagði fyrir Jesú: Hver er náungi minn? Og að því sem Jesús gerði. Hann svaraði ekki spurningunni heldur leiddi lögvitringinn að annarri hugsun eða nálgun. Jesús snýr spurningunni við. Hver af þessum þremur mönnum reyndist náungi manninum sem féll í hendur ræningjunum? Með því leggur Jesús ögrandi verkefni fyrir áheyrendur sína að við reynumst öðrum náungi en greinum menn ekki í sundur í náunga og ekki náunga af þeim sem verða á vegi okkar. Jesús segir sögu af neyðinni holdi klæddri og þannig kallar hún okkur til að vera þeim náungi.

Ágúst Þór Árnason flutti erindi um einstaklingshyggju sem hann kaust að kalla "einstaklingsfesti" og samféalgslega áybyrgð

Í upphafi lét Ágúst Þór Árnason eins og hann ætti í nokkrum erfiðleikum með að skilgreina hugtakið einstaklingshyggja en eftir tilvísanir í orðabækur og gríska heimspeki taldi hann það um vera að ræða hið einstaka, það sem hver einstaklingur er. Hann taldi að ekki hefði verið átt við skammaryrði í yfirskriftinni eins og oft er talað um einstaklingshyggju nú orðið því vildi hann innleiða annað orð "einstaklingfesti" og vísa þá í frelsi einstaklingsins og mannlega reisn sem hver maður á með einhverjum hætti. Hann hallaðist að því í seinni tíð að sú festi þyrfti einhvern, jafnvel trúarlegan grundvöll, að einhverskonur augnabliks reynslu staðfesti að maðurinn ætti mannlega reisn, sem hann nefndi síðar "trúarlegt andartak". Þá ræddi hann um mannréttindi og setti þau í sitt sögulega samhengi, borgaraleg annars vegar og hins vegar efnahagsleg, félagsleg og menningarleg og mismunandi áherslur Vestur og Austu blokkanna en það hefði verið niðurstaðan að mannréttindi eru ódeilanleg eins og var samþykkt á þingi SÞ í Vín 1993. Hann spurði undir lok erindisins hvort það væri einhver í dag sem héldi því fram að mannréttindi ættu ekki rétt á sér. Þau eru grundvöllur mannlegrar tilveru. Þau þarf að grundvalla á einhverskonar trú á að maðurinn eigi þessi réttindi í sjálfum sér eða þá að hugsa sér það sem samkomulag að þannig skulu það vera í mannlegu samfélagi, sem væri þá hin guðlausa útfærsla á mannréttindasáttmála SÞ. Þá er ályktunin sú að við getum hreinlega ekki lifað saman í mannlegu samfélagi nema við berum þessa virðingu hvert fyrir öðru. Í báðum tilfellum er gengið út frá því að við séum einstök. Hann sá því ekki hvernig væri hægt að aftengja einstaklingsfestuna því að maðurinn beri ábyrgð á samfélaginu. Vildi hann taka umræðuna um samfélagslega ábyrgð við stjórnmálamennina. Taldi hann að hér hefði ekki verið tekin þessi umræða um fjálshyggjuna og því nauðsynlegt umræðuefni í samfélginu um einstaklingshyggju og samfélagslega ábyrgð.

 

Upplýsingar

Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur Sími: 462 6702 og 897 3302
Netfang: gudmundur.gudmundsson@kirkjan.is
Vefur: kirkjan.is/naust

Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni
Sími: 464 8800 og 864 8451
Netfang: ragnheidur@glerarkirkja.is
Vefur: glerarkirkja.is