Biblían og menningin

Í febrúar 2015 stendur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi í samstarfi við Glerárkirkju fyrir samræðukvöldum eins og undanfarin misseri. Tilgangurinn með þeim er að skapa vettvang til samtals um kirkju og kristni og er öllum sem áhuga hafa velkomið að taka þátt í samtalinu. Fræðslukvöldin eru á miðvikudagskvöldum kl. 20:00 - 22:00. Að loknu inngangserindi málshefjanda er kaffihlé og síðan taka við umræður og eru þátttakendur hvattir til virkrar þátttöku, þó vissulega sé líka velkomið að sitja hljóður og hlusta.

Fræðslukvöldin eru samstarfsverkefni Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis og Glerárkirkju. Umsjón með kvöldunum hafa sr. Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur og Jón Ómar Gunnarsson, prestur í Glerárkirkju. Aðgangur er ókeypis, óþarfi að skrá sig og velkomið að sækja stök kvöld en fólk hvatt til að mæta eins oft og það hefur tök á. Hin síðustu ár hafa konur og karlar úr hinum ýmsu söfnuðum, trúað fólk og efasemdamenn, ungir og gamlir, já fólk af öllum gerðum sótt fræðslukvöldin í Glerárkirkju og vonumst við til þess að hópurinn í vor verði litríkur og fjölbreyttur. Gaman væri að sjá þig í þeim hópi!

Í febrúar verður viðfangsefnið: Biblían og menningin 

Fyrirlestraröð í tilefni af 200 ára afmælis Hins íslenska biblíufélags þar sem fjallað verður um áhrif Biblíunnar á menningu og samfélag. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Gamla testamentinu mun fjalla um áhrif Davíðssálma á íslenska menningu. Nýútkomin er bók eftir hann um efnið Áhrifasaga Saltarans, þar sem hann ritskýrir Davíðssálma og rekur áhrif þeirra á íslenska menningu sérstaklega. Þá mun sr. Gunnlaugur Garðarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju fjalla um biblíustef kvikmyndum og kvikmyndina The Mission(1986). Dr. Sigurður Pálsson, helsti sérfræðingur í námskrá kristindóms – og trúarbragðafræðslu í skólum, fjallar um stöðu þeirra mála í dag og það ögrandi verkefni fyrir bæði kirkju og skóla. Með þessari dagskrá viljum við sem að þessu stöndum skapa umræðu í samfélaginu um þýðingu Biblíunnar fyrir íslenska menningu.

 11. febrúar: Áhrif Davíðssálma í menningu og listum

Fyrirlesari: dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Gamla testamentisfræðum.

Tekin verða dæmi úr myndlist, kvikmyndum og bókmenntum.

 18. febrúar: Kvikmyndakvöld

Innleiðing: Sr. Gunnlaugur Garðarsson, sóknarprestur

Sr. Gunnlaugur Garðarsson fjallar um biblíustef í kvikmyndum. Horft verður á kvikmyndina  „The Mission“ frá 1986. Umræður eftir myndina. ATHUGIÐ: Kvöldið byrjar kl. 19.

   25. febrúar: Er hætt að kenna biblíusögur í grunnskólanum?

Fyrirlesari: Dr. Sigurður Pálsson, fyrrum námsstjóri í kristnum fræðum, sóknarprestur í Hallgrímskirkju og doktor í menntunarfræðum. 

Ný aðalnámskrá 2013 – hlutverk kennara, viðbrögð kirkjunnar. Í aðalnámskrá frá 2013 voru gerðar róttækar breytingar á stöðu kristindóms- og trúarbragðafræðslu. Sigurður Pálsson mun ræða um þær breytingar og þær kröfur sem í námskránni eru gerðar til kennara. Enn fremur hvernig þjóðkirkjan geti svarað þessum nýju áherslum.