Hvað er kristin trú? - Fræðsla haustið 2012

 Fræðslukvöldin í Glerárkirkju í október og nóvember 2012 bárui yfirskriftina "Hvað er kristin trú?" og var fræðslan byggð á samnefndri bók eftir Halvor Moxnes sem kom út í þýðingu sr. Hreins Hákonarsonar hjá Skálholtsútgáfunni árið 2010i. Fræðslukvöldin voru á miðvikudagskvöldum kl. 20:00 - 22:00. Að loknu inngangserindi málshefjanda var kaffihlé og síðan tóku við umræður og voru þátttakendur hvattir til virkrar þátttöku.

Fyrsti fyrirlestur

Upptaka frá fyrsta kvöldinu, 10. október þar sem sr. Hreinn S. Hákonarson, þýðandi samnefndrar bókar eftir Halvor Moxnes flutti erindi um Jesú sögunnar og Krist trúarinnar.

 

Annar fyrirlestur

Miðvikudagskvöldið 17. október hélt sr. María Ágústsdóttir erindi á fræðslukvöldi prófastsdæmisins í Glerárkirkju sem fjallaði um biblíutúlkun og byggði erindið að stórum hluta á öðrum kafla úr bók Halvors Moxnes "Hvað er kristin trú?" 27 manns sátu þennan fræðslufund sem var annar fundurinn í átta umræðukvöldaröð. Næst mun Þórgnýr Dýrfjörð heimspekingur fjalla um Guðsmyndir og mannskilning og fer fyrirlesturinn hans fram miðvikudagskvöldið 24. október. Erindin eru birt jafnóðum á glerarkirkja.is og er nú hægt að horfa á erindi Maríu hér á vefnum, en einnig má skoða nokkrar myndir frá kvöldinu hér.

 

Þriðji fyrirlestur

Miðvikudagskvöldið 24. október flutti Þórgnýr Dýrfjörð heimspekingur erindi í Glerárkirkju um guðsmyndir og mannskilning. Erindið er hluti af umræðukvöldaröð sem stendur yfir þessar vikurnar undir yfirskriftinni "Hvað er kristin trú?" og byggja umræðurnar á samnefndri bók eftir Halvor Moxnes, norskan guðfræðiprófessor sem horfir mjög gagnrýnum augum á margt sem tengist kristni og biblíuskilningi.

 

Fjórði fyrirlestur

Miðvikudagskvöldið 17. október var röðin komin að sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal en vegna ófærðar komst hún ekki til Akureyrar en erindi hennar var lesið upp fyrir viðstadda. Í erindi sínu ítrekaði sr. Solveig Lára mikilvægi þess að bera virðingu fyrir hugmyndum fólks um trúna er mikilvægt í allri boðun og minnti á að kristin siðfræði birtir fyrst og fremst kristinn sjálfskilning sem mótaður er af trúnni. Þá þurfi kirkjan að passa sig á því að leggja ekki áherslu á að helgisiðir kirkju okkar séu eina leiðin til að koma hinum kristna boðskap á framfæri. Nálgast má erindi Solveigar á vef hennar.

 

Fimmti fyrirlestur

Á fræðslukvöldi 7. nóvember sl. flutti dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor í Gamla testamentisfræðum erindi um Trúfélagið í ljósi Davíðssálma, afar áhugavert þar sem hann skýrði það sem er sameiginlegt og greinir á milli Gyðingdóms og kristni.

Þetta er fimmta erindið um kristna trú sem byggir á bók Halvard Moxnes. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson lagði áherslu á fræðsvið sitt og rannsóknir á Davíðs sálmum sem varpa ljósi á helgihald trúarsamfélags Gyðinga sem kristnir menn hafa tekið í arf en skýrði jafnframt muninn á Gyðingdómi og kristni sem kemur fram í helgihaldi, hátíðum og tilbeiðslu. Vakti hann athygli á harmljóðum sálmanna og trúarþörfina að tjá þjáninguna frammi fyrir Guði sem nokkuð sem fer lítið fyrir í helgihaldi okkar lútherskra manna.

 

Sjötti fyrirlestur

Sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir, sóknarprestur í Möðruvallaprestakalli, var fyrirlesari á fræðslukvöldi í Glerárkirkju 14. nóvember 2012. Hún nefndi erindi sitt "Sjálfsvirðing" og spurði m.a. í upphafi: "Hver er ég, hvert er samhengi mitt, hvað hefur áhrif á mig, hverjar eru fyrirmyndir mínar, hvað nema augu mín og eyru án þess að ég taki eftir því?" Hún benti á að allt væru þetta spurningar sem vert væri að skoða þegar kynin, einsetulíf, hjónaband og sjálfsvirðing væru hugleidd. Erindi hennar í heild sinni er birt hér á vefnum með aðstoð Youtube.