Skírn

Skírnin er gleði og hátíðardagur fjölskyldunnar þar sem við tökum á móti barni eða fullorðinni manneskju sem systkini okkar í Kristi.

Athöfnin hefur ýmiskonar merkingu í okkar samfélagi, fyrir mörgum er þetta mikilvæg stund og ákveðin tímamót þar sem lítið barn er í fyrsta skipti kynnt með nafni fyrir fólkinu sínu.

Trúarleg vídd stundarinnar er djúp og fögur, við skírnina er ítrekað að Guð vakir yfir okkur í gegnum lífið, að við séum börn Guðs og kölluð til að lifa lífi í trú, von og kærleik.

Frá upphafi kirkjunnar hafa nýir meðlimir verið skírðir með vatni í nafni heilagrar þrenningar og skírnin er stærri en þjóðkirkjan, því er vel hægt að skíra börn eða einstaklinga sem tilheyra öðrum trúfélögum eða standa utan trúfélaga, þó hvetjum við fólk til að vera meðlimir í þjóðkirkjunni ef það hefur áhuga á að sækja þjónustu hennar.

Ef fólk vill bæn og blessun yfir barni sínu en ekki skírn er hægt að ræða við prestana um barnablessun eða nafnablessunarathöfn, uppbyggingin er svipuð en barnið er þá ekki skírt.

Uppbygging stundarinnar er yfirleitt á þessa vegu en hægt er að móta stundina með foreldrum, t.d. skoða fjölda skírnarsálma.

 • Signing
 • Ávarp prests
 • Skírnarvottar lesa ritningartexta, skírnarskipunina og söguna af því þegar Jesús býður börnunum að koma til sín.
 • Bæn
 • Blessun vatnsins
 • Trúarjátning
 • Skírnarsálmur
 • Skírnin sjálf.
 • Faðir vor
 • Ávarp prests
 • Blessunarorð

Skírnir fara yfirleitt fram í kirkju, sal eða heimahúsi og prestar Glerárkirkju taka vel í að skíra þar sem fjölskyldunni hentar. Þó bendum við á að það getur verið skemmtilegt að skíra í guðsþjónustu, sérstaklega þegar fjölskylduguðsþjónusta fer fram og hvetjum við foreldra til að skoða þann möguleika.

Þegar skírn fer fram taka 2-5 skírnarvottar þátt í stundinni, yfirleitt eru það einhver sem standa barninu nærri, ömmur og afar, frændur og frænkur eða vinafólk foreldra. Foreldrar og skírnarvottar játa því í athöfninni að ætla að vera til staðar fyrir barnið í gegnum lífið, styðja það og leiða, og ala það upp í trú, von og kærleik.

Til að velja prest fyrir athöfnina bendum við á netföng starfandi presta við Glerárkirkju hér á starfsmanna síðunni.

Athugið að ef að fjölskyldan hefur áhuga á því að halda skírnarveislu í safnaðarsal í húsinu þá þarf að panta það sérstaklega hjá Arnari umsjónarmanni í Glerárkirkju í síma 464 8800 eða á netfangið arnar[hjá]glerarkirkja.is.

 

Skírnarsálmar

Á heimasíðunni barnatru.is má finna texta og hljóðupptökur af ýmsum sálmum sem henta vel við skírnarathöfn, t.d.:

nr. 29 : Ástarfaðir himin hæða
nr. 130 : Ó Blíði Jesú blessa þú
nr. 119 : Leiddu mína litlu hendi
nr. 194 : Megi gæfan þig geyma