Skírn

Jesús sagði: ,,Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.”

Mt.28.18-20.

Í skírninni er skírnþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelisk – lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan og Glerárkirkja eru hluti af. Algengast er að barn sé skírt meðan það enn er ómálga. 

Meginreglan er sú að barn sé skírt í kirkju og að viðstöddum söfnuði eða fulltrúum hans, en gömul íslensk hefð er fyrir því á Íslandi að skírn geti farið fram á heimili barnsins. Velkomið er að hafa samband beint við presta Glerárkirkju til að sammælast um skírnarathöfn, hvort heldur skírnin fer fram í guðsþjónustu safnaðarins, sem sérstök athöfn í kirkjuskipi eða kapellu Glerárkirkju, eða á heimili:

Sr. Gunnlaugur Garðarsson, 8648455 (gunnlaugur(hja)glerarkirkja.is).

Sr. Stefanía G. Steinsdóttir 8648456 (stefania(hjá)glerarkirkja.is).

Aðstandendur velja barninu skírnarvotta. Skírnarvottar heita einnig guðfeðgin og eru aldrei þau aldrei færri en tvö, karl og kona (eins og felst í orðinu), en mest geta verið fimm. Æskilegt er að í það minnsta eitt guðfeðginana sé á þeim aldri að það geti fylgt barninu eftir til fullorðinsára. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna fyrir hönd barns síns og skuldbinda sig þar með til að ala barnið upp í kristinni trú.

Skírnarsálmar

Athugið að ef að fjölskyldan hefur áhuga á því að halda skírnarveislu í safnaðarsal í húsinu þá þarf að panta það sérstaklega hjá Hauki Þórðarsyni, umsjónarmanni í Glerárkirkju í síma 464 8803 eða á netfangið haukur[hjá]glerarkirkja.is.