Fréttir

Fermingarfræðslan - frí í öskudagsvikunni

Vegna öskudagsins og frídaga í skólum í hverfinu verður engin fermingarfræðsla í Glerárkirkju þriðjudaginn 12. febrúar og miðvikudaginn 13. febrúar. Krakkarnir eru samt hvött til að muna eftir heimaverkefnunum og vonast er til að þau komi vel undirbúin í næsta fermingartíma, en kennsla hefst aftur samkvæmt stundarskrá þriðjudaginn 19. febrúar og miðvikudaginn 20. febrúar. Nánari upplýsingar um fermingarstörfin gefa prestar kirkjunnar, þau sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir (arna[hjá]glerarkirkja.is) og sr. Gunnlaugur Garðarsson (gunnlaugur[hjá]glerarkirkja.is).

Lifandi kórastarf fyrir börn og unglinga

Sönggleðin er í fyrirrúmi þegar þær Marína Ósk Þórólfsdóttir og Rósa Ingibjörg Tómasdóttir stjórna æfingum hjá Barnakór Glerárkirkju og Æskulýðskór Glerárkirkju. Alltaf er velkomið að bætast í hópinn í þetta ókeypis tónlistarstarf sem Glerárkirkja bíður upp á. Æfingar fyrir barnakórinn eru á samkvæmt útsendri dagskrá yfirleitt á miðvikudögum kl. 15:30 til 16:30 en æskulýðskórinn æfir á sömu dögum kl. 16:30. Nánari upplýsingar - meðal annars um það hvenær næsta æfing sé - gefur Marína Ósk í síma 847 7910.

Díakonían í hnotskurn - þjónustan í nútímanum

Á síðasta ári kom út ritið Þjónusta í síbreytilegu samhengi, íslensk þýðing á Diakonia in Context sem kom út hjá Lúterska heimssambandinu árið 2009. Markmiðið með þýðingunni er að efni um þjónustuna, díakoníuna, sé aðgengilegt fyrir allt áhugasamt fólk um kirkjulegt starf meðal samborgara okkar. Miðvikudagskvöldið 13. febrúar verður umræðukvöld í Glerárkirkju þar sem hluti þessa rits er lagður til grundvallar umræðunni. Framsögu flytur Ragnheiður Sverrisdóttir djákni og verkefnisstjóri á Biskupsstofu. Dagskráin hefst kl. 20:00, allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Um níuleytið er gert kaffihlé. Tekið er á móti frjálsum framlögum í kaffisjóð.

Að gerast heimsóknarvinur - kynningarnámskeið

Um nokkurt skeið hefur þjóðkirkjan staðið fyrir svonefndum vinaheimsóknum, meðal annars á Akureyri og í nágrenni. Reynt er að miðla heimsóknum til þeirra sem gjarnan vilja kynnast manneskju úr nágrenninu, en eiga sjálfir erfitt með að komast út á meðal fólks, til dæmis vegna veikinda eða fötlunar. Fimmtudaginn 14. febrúar kl. 17:00 til 20:00 verður haldið kynningarnámskeið fyrir áhugasama í Glerárkirkju. Þátttaka er ókeypis en nauðsynlegt að skrá sig á netfangið allaadda@gmail.com

Bænabandið í helgistundum á fræðslukvöldum í Glerárkirkju

Þjálfun í lífsþrótti, lífslöngun, sjálfsstjórn og í því að lifa í návist Guðs er undirtitill bókarinnar Bænabandið eftir Martin Lönnebo sem Skálholtsútgáfan gaf út fyrir nokkrum árum. Karl Sigurbjörnsson þýddi bókina. Í inngangi að henni segir: ,,Að biðja er að finna þá þögn þar sem Guð býr. Þar geturðu verið með Guði, verið snortinn af Guði og sameinast Guði". Á helgistundum á fræðslukvöldum nú í febrúar og mars verður bænabandið eitt af þeim verkfærum sem að umsjónarfólk helgistundanna mun nota, en ítarleg kynning á bænabandinu verður í umsjón sr. Gunnlaugs Garðarssonar á fræðslukvöldi 27. mars. Áhugasömum er bent á að hægt er að kaupa bókina í helstu bókabúðum, Litla húsinu við Glerárgötu á Akureyri og í Glerárkirkju.

Þjónusta í síbreytilegu samhengi

Á síðasta ári kom út ritið Þjónusta í síbreytilegu samhengi, íslensk þýðing á Diakonia in Context sem kom út hjá Lúterska heimssambandinu árið 2009. Með ritinu hafa sóknarnefndir, starfsfólk kirkna, prestar, djáknar, æskulýðsfulltrúar, kirkjugestir, safnaðarmeðlimir ... fengið í hendurnar gagnlegt og gott verkfæri til umræðu um trú í verki. Ritið verður til umræðu á þremur miðvikudagskvöldum í Glerárkirkju í febrúar en fræðslukvöldin hefjast næstkomandi miðvikudagskvöld.

Fjölskylduguðsþjónusta

Sunnudaginn 3. febrúar kl. 11:00 er fjölskylduguðsþjónusta í Glerárkirkju. Þar mun Marína Ósk Þórólfsdóttir stjórna Barnakór Glerárkirkju og Æskulýðskór Glerárkirkju auk þess sem að sunnudagaskólakrökkunum bíðst að taka þátt í nokkrum hreyfisöngvum. Þá munur þær Dagný og Ragnheiður sjá um brúðuleikhús dagsins og dreifa sunnudagaskólamyndum að samveru lokinni. Prestur er sr. Gunnlaugur Garðarsson. Allir hjartanlega velkomnir.

Að ná áttum og sáttum

Ert þú fráskilin(n) eða stendur í skilnaði? Í febrúar og mars býður Glerárkirkja upp á námskeið til styrkingar þeim sem hafa gengið í gegnum skilnað einhvern tíma á lífsleiðinni. Umsjón með námskeiðinu hafa sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, prestur í Glerárkirkju, og sr. Guðrún Eggertsdóttir, sjúkrahúsprestur. Opinn kynningarfundur verður haldinn í safnaðarheimili Glerárkirkju þriðjudaginn 5. febrúar kl. 20. Allir velkomnir.

Takk YWAM

Í gær hélt hópur ungra biblíuskólanema frá YWAM Montana ásamt leiðtogum sínum aftur til Reykjavíkur eftir að hafa stutt dyggilega við safnaðarstarfið í Glerárkirkju í heila viku. Þau sáu um þemaviku fermingarbarna, heimsóttu unglingastarfið, buðu upp á lofgjörðarsamkomu og tóku þátt í guðsþjónustu sunnudagsins þar sem þau kenndu nýja sunnudagaskólasöngva, sýndu dramadans um tengsl skaparans við sköpunina og fluttu hugleiðingu. Þessi blessunarríka heimsókn var sú þriðja frá svokölluðu Outreach teymi DTS biblíuskólanema til Glerárkirkju í gegnum árin. Við í Glerárkirkju þökkum þeim af öllu hjarta. Um leið segjum við kærar þakkir við gestafjölskyldurnar sem hýstu hópinn þessa vikuna. Án þeirra hefði okkur í Glerárkirkju ekki verið mögulegt að taka á móti svona stórum hópi erlendra gesta.

Æskulýðsmót á Reyðarfirði 8.-10. febrúar

Helgina 8. til 10. febrúar verður haldið æskulýðsmót á Reyðarfirði fyrir kirkjurnar á Norður- og Austurlandi. Mótið er ætlað unglingum úr 8. til 10. bekk og er reiknað með um 100 þátttakendum. Glerárkirkja stefnir á þátttöku með áhugasömum fermingarbörnum. Yfirskrift mótsins er ,,Samfélag í trú og gleði" og verður fjölbreytt hópastarf í boði. Skráningarfrestur rennur út í lok janúar og þarf að greiða 7.500 króna mótsgjald við skráningu.