Bænabandið í helgistundum á fræðslukvöldum í Glerárkirkju

Þjálfun í lífsþrótti, lífslöngun, sjálfsstjórn og í því að lifa í návist Guðs er undirtitill bókarinnar Bænabandið eftir Martin Lönnebo sem Skálholtsútgáfan gaf út fyrir nokkrum árum. Karl Sigurbjörnsson þýddi bókina. Í inngangi að henni segir: Að biðja er að finna þá þögn þar sem Guð býr. Þar geturðu verið með Guði, verið snortinn af Guði og sameinast Guði. Á helgistundum á fræðslukvöldum nú í febrúar og mars verður bænabandið eitt af þeim verkfærum sem að umsjónarfólk helgistundanna mun nota, en ítarleg kynning á bænabandinu verður í umsjón sr. Gunnlaugs Garðarssonar á fræðslukvöldi 27. mars. Áhugasömum er bent á að hægt er að kaupa bókina í helstu bókabúðum, Litla húsinu við Glerárgötu á Akureyri og í Glerárkirkju.

Bænabandið er fyrirbæri sem sænski biskupinn Martin Lönnebo hefur innleitt til að hjálpa fólki við reglubundna bænaiðkun. Í grunninn er bænabandið einfalt tæki sem byggist á táknmáli. Bænabandið er nokkurs konar ytra, áþreifanlegt tákn um innri raunveruleika. Það er sett saman úr 18 mismunandi perlum sem tákna ákveðin stef í trú og lífi manneskjunnar. Stærsta perlan táknar guðdóminn, önnur sjálfið, sú þriðja æðruleysið, svo að dæmi séu tekin. Martin Lönnebo segir: "Bænabandið er æfing í að lifa í návist Guðs. Það er verkfæri lausnar og frelsis. Það uppörvar mig til að gera það litla sem ég get til að vernda og efla lífið í þrenningu þess líkamlega, andlega og sálarlega".

Í inngangi ritsins segir Karl Sigurbjörnsson enn fremur: ,,Orð og mál eru dýrmætustu gáfur mannsins. En bestu orðin verða til í þögninni og fullkomnast í þögninni.Að biðja er að finna þá þögn þar sem Guð býr. Þar geturðu verið með Guði, verið snortinn af Guði og sameinast Guði.Af eigin reynslu er mér ljóst að það er undursamleg lausn að læra bæn þagnarinnar og snertingarinnar. Hún er ekki ágeng, hún gefur hvíld og frið, hún styrkir og blessar. Hún gefur orðunum dýpt, þeim fáu orðum sem við þurfum til að nálgast Guð, sem veit allt um mig og mína, og sorgir og gleði alls sem andar og lifir.

Það er áhugavert að sjá á hversu fjölbreytilegan hátt fólk nýtir sér bænabandið en hliðstæð talnabönd eru til í flestum trúarbrögðum með einum eða öðrum hætti. Einn þeirra sem notar bænabandið er sr. Halldór Reynisson. Hann segir: "Þetta er í raun tæki til að hjálpa okkur við daglega trúar- og bænariðkun á því sem okkur finnst vera mikilvægt í daglegu lífi. Það má hins vegar leggja mismunandi merkingar í bænabandið. Það einskorðast ekki við þá sem telja sig mikið trúaða og leita mikið í kristna trú. Þess vegna geta allir notað bænaband í sínu daglega lífi. Við erum kannski vön því að bænariðkun sé það að spenna greipar og loka augunum og krjúpa en bæn er fyrst og fremst eintal sálarinnar við guð hvar og hvernig sem það fer fram. Svo dæmi sé tekið þá er ég skokkari og ég nota þann tíma oft til bænaiðkana og bæn getur einnig verið hugleiðsla - hún er bæði orðlaus og með orðum. Þetta litla verkfæri er til þess að hjálpa okkur að stunda andlega iðju og iðka með áþreifanlegum hætti."

Sem fyrr segir er bænabandið eitt þeirra verkfæra sem umsjónarfólki helgistunda á fræðslukvöldum vorið 2013 stendur til boða að nota. Helgistundirnar taka allt að 15 mínútum og hefjast klukkan 20:00 áður en gengið er í safnaðarsalinn og hlýtt á fræðsluerindi kvöldins.

Helgistundirnar eru skipulagðar sem hér segir:

6. febrúar: Sr. Jón Ármann Gíslason, prófastur á Skinnastað. Perla 1 og 2 (Guðsperlan og þagnarperlan)
13. febrúar: Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju. Perla 3 og 4 (Perlan þín og skírnarperlan)
20. febrúar: Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, prestur í Glerárkirkju. Perla 5 og 6 (þagnarperlan og reynsluperlan)
27. febrúar: Sr. Gunnlaugur Garðarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju. Perla 7 og 8 (þagnarperlan og æðruleysisperlan)
6. mars: Sr. Guðrún Eggertsdóttir, prestur á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Perla 9 til ellefu (þagnarperla, kærleikur og fórn)
13. mars: Sr. Gunnlaugur Garðarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju. Perla 12 til 14 (leyndarmálaperlurnar þrjár)
20. mars: Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, prestur í Glerárkirkju. Perla 15 og 16 (sorgin/næturperlan og þögn)
27. mars: Sr. Jón Ármann Gíslason, prófastur á Skinnastað. Perla 17 og 18 (upprisa og þögn)

(Birt með fyrirvara um breytingar)