Fréttir

Guðsþjónusta með þátttöku sjálfboðaliða YWAM

Í Montana starfrækja alþjóðasamtökin Youth with a mission (YWAM) biblíuskóla eins og þau gera víða um heim. Þar er meðal annars boðið upp á fimm mánaða nám sem nefnist Discipleship Training School sem mætti útleggja á íslensku sem lærisveinaþjálfun. Síðasti hluti námsins er nokkurs konar starfsþjálfun sem kallast Outreach, eða boðunarferð. Þessa vikuna hefur Glerárkirkja notið starfskrafta 15 nemenda sem eru hér ásamt starfsfólki skólans og YWAM á Íslandi. Sunnudaginn 27. janúar mun hópurinn taka virkan þátt í guðsþjónustu safnaðarins. Tónlistarstjóri þann dag er Marína Ósk Þórólfsdóttir en það er sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir sem heldur utan um alla þræði guðsþjónustunnar þennan dag. Dagskráin þennan dag verður að hluta til óhefðbundin. Það sama gildir um lagavalið því við hliðina á þekktum sálmum eins og "Í bljúgri bæn" má finna sálma á ensku. Í einum þeirra segir t.d.: ,,I see a generation / Rising up to take the place / With selfless faith, with selfless faith." Að vanda eru allir hjartanlega velkomnir og þess vænst að fermingarbörn fjölmenni ásamt fjölskyldum sínum. Þá minnum við á að sunnudagaskólinn er á sínum stað.

Aftur til framtíðar

Fyrir 24 árum síðan fór Arna Ýrr Sigurðardóttir á Biblíuskóla. Um svokallaðan Discipleship Training School var að ræða og var hann á vegum Youth With a Mission, á Eyjólfsstöðum á Héraði. Nú þegar sjálfboðaliðar úr slíkum skóla sinna sjálfboðnum verkefnum í Glerárkirkju varð til pistill hennar ,,Aftur til framtíðar."

Hvað fær barn í veganesti?

Í grein sem birtist í dag í Fréttablaðinu og á visir.is segir Jóhann H. Þorsteinsson, sviðsstjóri æskulýðsstarfs KFUM og KFUK meðal annars: ,,Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í starfi KFUM og KFUK og ég er þakklátur þeim foreldrum sem í dag hvetja börnin sín til að kynna sér starf félagsins og vonandi finna þau sig heima þar og vonandi getur það starf verið hluti af því holla og góða nesti sem er okkur öllum svo mikilvægt í ferðalagi lífsins."

Lofgjörðarsamkoma

Föstudagskvöldið 25. janúar verður lofgjörðarsamkoma í Glerárkirkju kl. 20:00 í umsjón biblíuskólanemenda frá YWAM Montana (Youth with a Mission) en þau eru nú stödd hér á Akureyri og er ferð þeirra hingað hluti af náminu, nokkurs konar starfsþjálfun eða "Outreach" eins og það er nefnt í dagskrá námsins sem kallast "Discipleship Training School". Lofgjörðarsamkoman er öllum opin. Tekið verður á móti samskotum sem renna til fjármögnunar á þemaviku fermingarbarna sem nú stendur yfir.

Dagskrá þemaviku fermingarbarna

Nú er hafin þemavika fermingarbarna. Við í Glerárkirkju höfum fengið til liðs við okkur 15 ungmenni á aldrinum 19 til 29 ára frá Bandaríkjunum og Kanada og munu þau hafa veg og vanda af dagskrá þemavikunnar. Fermingarbörnin mæta samkvæmt stundarskrá í fræðslutímana og fá þar tækifæri til að kynnast gestunum. Auk þess er svo boðið upp á fjölbreytta hópavinnu undir stjórn gestanna seinnipartinn á þriðjudeginum, miðvikudeginum og föstudeginum. Þá eru krakkarnir hvattir til að mæta í unglingastarfið á fimmtudagskvöldinu í Sunnuhlíð. Einnig verða gestirnir með samkomu sem er öllum opin í Glerárkirkju á föstudagskvöldinu kl. 20:00. Dagskrá þemaviku lýkur með virkri þátttöku fermingarbarna í messu sunnudaginn 27. janúar kl. 11:00.

Prédikun sr. Örnu Ýrrar sunnudaginn 20. janúar

Hér er að finna prédikun sr. Örnu Ýrrar frá 20. janúar. Þar segir hún m.a: Við gætum kannski sagt sem svo að Guð vilji að við séum með höfuðið í skýjunum, því að hann vill umbreyta okkur en við þurfum að hafa fæturna á jörðinni, því að hann vill líka nota okkur…

Biðjandi, boðandi, þjónandi kirkja - fræðslukvöld

Einkunnarorð kirkjunnar leggja áherslu á þá meginþætti kirkjulegs starfs að tilbiðja Guð, boða trú á hann og þjóna náunganum í kærleika. Á fræðslukvöldum í Glerárkirkju á miðvikudögum kl. 20:00 í febrúar og mars 2013 er ætlunin að skoða þessa þrjá þætti nánar. Til þess verkefnis fáum við fyrirlesara í heimsókn og vonumst til að sjá sem flesta þátttakendur. Sem fyrr verða kvöldin öllum opin, þátttaka ókeypis og kaffiveitingar í hléi gegn frjálsum framlögum í kaffisjóð. Umsjón með kvöldunum hefur Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni í Glerárkirkju og veitir hann nánari upplýsingar í síma 864 8451.

Að vera með höfuðið í skýjunum og fæturna á jörðinni

Á sunnudaginn er messa kl. 11. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir þjónar, Kór Glerárkirkju leiðir söng undir stjórn Valmars Väljaots. Barnastarfið hefst aftur og er upphaf sameiginlegt í messu. Í prédikuninni verður fjallað um það að vera með höfuðið í skýjunum og fæturna á jörðinni. Allir velkomnir.

Að vera með höfuðið í skýjunum og fæturna á jörðinni

Á sunnudaginn er messa kl. 11. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir þjónar, Kór Glerárkirkju leiðir söng undir stjórn Valmars Väljaots. Barnastarfið hefst aftur og er upphaf sameiginlegt í messu. Í prédikuninni verður fjallað um það að vera með höfuðið í skýjunum og fæturna á jörðinni. Allir velkomnir.

Unglingastarfið á vorönn

UD-Glerá, unglingastarf Glerárkirkju og KFUM og KFUK fer fram í sal KFUM og KFUK í Sunnuhlíð á fimmtudagskvöldum. Húsið opnað kl. 19:30 og dagskráin hefst kl. 20:00. Á dagskrá vorsins er að finna alls konar uppákomur og skemmtun þar sem ferð á landsmót KFUM og KFUK í Vatnaskógi ber hæst. Það eru allir unglingar úr áttunda til tíunda bekk velkomnir í unglingastarfið, hvert fimmtudagskvöld, annað hvert fimmtudagskvöld, þriðja hvert, fjórða hvert ... bara eins og hverjum og einum hentar, enda er dagskráin öllum opin og það besta: Starfið á fimmtudagskvöldum kostar ekki krónu!