Guðsþjónusta með þátttöku sjálfboðaliða YWAM

Í Montana starfrækja alþjóðasamtökin Youth with a mission (YWAM) biblíuskóla eins og þau gera víða um heim. Þar er meðal annars boðið upp á fimm mánaða nám sem nefnist Discipleship Training School sem mætti útleggja á íslensku sem lærisveinaþjálfun. Síðasti hluti námsins er nokkurs konar starfsþjálfun sem kallast Outreach, eða boðunarferð. Þessa vikuna hefur Glerárkirkja notið starfskrafta 15 nemenda sem eru hér ásamt starfsfólki skólans og YWAM á Íslandi. Sunnudaginn 27. janúar mun hópurinn taka virkan þátt í guðsþjónustu safnaðarins.

Tónlistarstjóri þann dag er Marína Ósk Þórólfsdóttir en það er sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir sem heldur utan um alla þræði guðsþjónustunnar þennan dag. Dagskráin þennan dag verður að hluta til óhefðbundin. Það sama gildir um lagavalið því við hliðina á þekktum sálmum eins og "Í bljúgri bæn" má finna sálma á ensku. Í einum þeirra segir t.d.: ,,I see a generation / Rising up to take the place / With selfless faith, with selfless faith." Að vanda eru allir hjartanlega velkomnir og þess vænst að fermingarbörn fjölmenni ásamt fjölskyldum sínum. Þá minnum við á að sunnudagaskólinn er á sínum stað.

Þetta er í þriðja sinn sem að Glerárkirkja tekur á móti hóp í boðunarferð á vegum YWAM og kom fyrsti hópurinn fyrir tæpum aldarfjórðungi eins og lesa má um í áhugaverðum pistli sr. Örnu Ýrrar á trú.is. Fyrir nokkrum árum var svo hér öðru sinni slíkur hópur á ferð. Við í Glerárkirkju erum þakklát að mega taka á móti svona hópi af öflugum sjálfboðaliðum. Í þetta sinn eru það gestafjölskyldur út um allt Glerárhverfi sem gera kirkjunni það mögulegt: Takk kæru gestafjölskyldur fyrir að hýsa þennan stóra hóp í heila viku! Það er rík kirkja sem á slíka vini sem taka á móti gestum kirkjunnar og gefa þeim að borða án nokkurs endurgjalds í formi peninga frá kirkjunni.