Fréttir

Ljósmyndir frá opnunarkvöldi vígsluhátíðar

Rúmlega áttatíu manns tóku þátt í dagskrá á opnunarkvöldi vígsluhátíðar í tilefni af 20 ára afmæli Glerárkirkju. Bjarni Eiríksson tók nokkrar myndir, bæði við opnun á handverks- og ljósmyndasýningu Díönu Bryndísar og á kaffihúsakvöldi kvenfélagsins Baldursbrár þar sem að þau Linda, Jokka og Reynir sáu um tónlistina. Myndirnar er nú hægt að skoða hér á glerarkirkja.is.

Samfylgd þjóðar og kristni í 1.000 ár

Laugardaginn 8. desember 2012 er sérstök hátíðardagskrá í Glerárkirkju í tali og tónum. Tilefnið er 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju. Þar flytur dr. Hjalti Hugason prófessor í kirkjusögu við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands erindi sem ber yfirskriftina ,,Samfylgd þjóðar og kristni í 1.000 ár.“ Dagskráin hefst kl. 16:00 með stuttu tónlistaratriði sem Valmar Väljaots stjórnar og bænagjörð áður en gengið er í safnaðarsalinn þar sem dr. Hjalti flytur erindi sitt. Að erindi loknu er boðið upp á kaffiveitingar og umræður. Allir hjartanlega velkomnir, aðgangur ókeypis.

Opnunarávarp formanns afmælisnefndar

Hátíðardagskrá í tilefni af 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju hófst í kvöld með listsýningu Díönu Bryndísar og kaffihúsakvöldi kvenfélagsins Baldursbrár þar sem þau Jokka, Linda og Reynir sáu um tónlistina auk þess sem Valmar Väljaots tók nokkur lög á fiðluna með þeim. Gunnhildur Helgadóttir opnaði sýninguna og kaffihúsið formlega með ávarpi sem birt er hér í heild sinni.

Díana Bryndís sýnir í Glerárkirkju

Hátíðardagskrá í tilefni af 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju hefst formlega föstudagskvöldið 7. desember kl. 20:00 með opnun sýningar á verkum handverkskonunnar og ljósmyndanemans Díönu Bryndísar. Sýning Díönu Bryndísar er opin alla virka daga í Glerárkirkju frá 11:00 til 16:00 auk þess sem hægt er að skoða verkin þegar aðrir viðburðir eiga sér stað í Glerárkirkju.

Létt lög, jólalög og aðventustemning

Aðventustemningin verður í fyrirúmi á kaffihúsakvöldi, föstudagskvöldið 7. desember í safnaðarsal Glerárkirkju. Þar munu þær Linda og Jokka syngja blöndu af léttum lögum og jólalögum við undirleik Reynis Schiöth. Kaffihúsið opnar upp úr klukkan átta á föstudagskvöldinu eða um leið og sýning listakonunnar Díönu Bryndísar hefur verið formlega opnuð í anddyri kirkjunnar og verður opið til 23:00. Kaffihúsið er hluti af hátíðardagskrá í tilefni af 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju. Það er kvenfélagið Baldursbrá sem sér um veitingarnar sem þær selja á vægu verði. Kaffihúsið er öllum opið og fólk hvatt til þess að skreppa á þetta eina kaffihús sem er opið þetta kvöld norðan ár á Akureyri.

Glerárkirkja í landi Lögmannshlíðar

Djákninn í Glerárkirkju var spurður í tilefni afmælis kirkjunnar úr hvaða landi lóðin sem kirkjan stæði á væri. Hann svaraði drjúgur: ,,Úr landi Sjálfsbjargar" en áttaði sig um leið á því hve vitlaust þetta rétta svar var. Vissulega fékk Lögmannshlíðarsókn úthlutað lóð fyrir nýja kirkju útúr lóð Sjálfsbjargar á sínum tíma. En spurningin snéri að mun eldri landamerkjum. Þau sem hafa áhuga á sögu og tilurð byggðar norðan ár á Akureyri velta jú meðal annars fyrir sér hvar gömlu bæirnir stóðu og hver hafi átt hvaða tún. Umræðan skilar sér svo í að gömul þekking er dregin fram í dagsljósið.

Strætó breytt í skrúðhús

,,Árið 1954 varð Glerárhverfi hluti af Akureyri og eftir því sem byggð efldist jókst áhugi íbúanna á því að þar yrði sérstök kirkjusókn með eigin kirkju. Í kringum 1970 var nokkur umræða um málið og þá horft til þess að kirkja yrði reist á holtinu austan við þar sem nú er Glerárskóli og íþróttasvæði Þórs. En bið varð á framkvæmdum þrátt fyrir sístækkandi byggðina." Þetta skrifar Baldur Dýrfjörð meðal annars í pistli sem birtist í dag á trú.is í tilefni af 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju.

Útvörður byggðar Akureyrar í norðri

Frásögnum viðstaddra og blaðagreinum frá þeim tíma ber saman: Mikil hátíðarstemning ríkti þegar Glerárkirkja var vígð 6. desember 1992 að viðstöddum rúmlega 900 manns, en athöfnin tók að sögn blaðamanns hjá Degi á Akureyri hátt í þrjár klukkustundir. Í dag aðeins 20 árum síðar þætti mörgum það nú heldur löng athöfn. En fögnuðurinn var stór, loksins var komin kirkja norðan við á. Blaðamaður Dags nefnir Glerárkirkju m.a. ,,útvörð byggðar Akureyrar í norðri". Hér á glerarkirkja.is má nú nálgast nokkrar blaðagreinar sem segja söguna frá vígslu fyrsta áfanga 1987 og vígslu kirkjuskipsins 1992.

Celebrating Glerárkirkja's 20th anniversary

On the upcoming weekend, 7th to 9th of December 2012, the parish of Glerárkirkja in Akureyri, North-Iceland is celebrating the 20th anniversary of the church. As one of over 280 congregations around Iceland who belong to the Evangelical Lutheran Church of Iceland (ELCI), the members are happy to be able to celebrate by inviting to various events on the weekend. The variety is broad and everyone should be able to find an event that might fit to one’s own interests. All parts of the programme are open for everyone. Please notice that all spoken words will be in Icelandic, but lyrics will be in different languages.

Glerárkirkja 20 ára

Mikið verður um dýrðir í Glerárkirkju um komandi helgi, þ.e. 7. til 9. desember því þá fögnum við 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju, en þann 6. desember árið 1992 var kirkjan fullbúin og kirkjuskipið þar með tekið í notkun. Dagskráin hefst formlega á föstudagskvöldinu þegar formaður afmælisnefndar, Gunnhildur Helgadóttir, opnar listsýningu Díönu Bryndísar og létt lög í bland við jólalög taka að hljóma frá kaffihúsi kvenfélagsins Baldursbrár þar sem þær Jokka og Linda syngja við undirleik Reynis Schiöth. Í framhaldinu rekur einn viðburðurinn annan fram á sunnudagskvöld en nær hápunkti sínum í hátíðarmessu á sunnudegi klukkan tvö. Vonumst við í Glerárkirkju eftir því að sem flestir hafi tök á því að láta sjá sig í Glerárkirkju þessa helgina.