Fréttir

Kristin trú og stjórnmál: Höskuldur Þórhallsson flytur erindi

Frá októberbyrjun hafa staðið yfir umræðukvöld í Glerárkirkju undir yfirskriftinni "Hvað er kristin trú" á miðvikudagskvöldum kl. 20:00. Miðvikudagskvöldið 21. nóvember er komið að Höskuldi Þórhallssyni alþingismanni að vera frummælandi og er yfirskrift erindis hans "Kristin trú og stjórnmál". Sem fyrr byggir umræðan að hluta til á bókinn "Hvað er kristin trú?" en bókin er til sölu í kirkjunni á 3.000 krónur. Það er Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi sem stendur fyrir þessum umræðukvöldum í samstarfi við Glerárkirkju.

Fjölbreytt helgihald í dag, 18. nóvember

Dagurinn í dag hefst í Glerárkirkju kl. 11:00 með messu og barnastarfi. Sameiginlegt upphaf í messu safnaðarins þar sem Kór Glerárkirkju leiðir almennan söng. Að því loknu ganga börn og þeir foreldrar sem kjósa í sunnudagaskólann í safnaðarsalnum. Þar verður fjölbreyttur söngur, sögur sagðar, horft á brúðuleikhús og fleira til gamans gert. Í kvöld kl. 20:00 er svo guðsþjónusta með Krossbandinu. Prestur dagsins er sr. Gunnlaugur Garðarsson.

Kökubasar, tombóla, markaður, kaffisala og lifandi tónlist

Það verður sannkölluð kaffihúsa- og markaðsstemning í safnaðarsal Glerárkirkju í dag frá 14.00 til 17:00 en þá stendur kvenfélagið Baldursbrá fyrir tombólu og kökubasar. Fólk er hvatt til að mæta og styrkja fjáröflunar kvenfélagsins, njóta þeirrar lifandi tónlistar sem í boði verður og fá sér kaffi, heitt súkkulaði og eplaköku í kaffihúsahorninu. Þá verða kvenfélagskonur með ýmsan varning til sölu. Athugið enginn posi á staðnum.

Alþjóðadagur fórnarlamba umferðarslysa í dag

Í tilefni Alþjóðadegi fórnarlamba umferðarslysa ætlar Rauði krossinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri og Félag slökkviliðsmanna á Akureyri að standa fyrir stuttri samveru í dag sunnudag kl 16.30 við þyrlupallinn hjá FSA. Tilgangurinn er að sýna samhug, minnast fórnarlamba umferðarslysa, kveikja kertaljós og hlusta á stutta hugvekju.

Samvera eldri borgara

Gestur samverunnar verður Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands og mun hann fjalla um málefni ljóðsins. Rúta fer frá Lindasíðu kl. 14:45 og kemur við á Dvalarheimil­inu Lögmannshlíð á leið til kirkjunnar. Að venju verður helgistund og kaffiveitingar.

Erindi dr. Gunnlaugs A. Jónssonar komið á vefinn

Á fræðslukvöldi 7. nóvember sl. flutti dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor í Gamla testamentisfræðum erindi um Trúfélagið í ljósi Davíðssálma, afar áhugavert þar sem hann skýrði það sem er sameiginlegt og greinir á milli Gyðingdóms og kristni.

Jón Bjarnason um kirkjustarfið

„Komið er að þolmörkum í kirkjustarfi víða um land vegna niðurskurðar fjárveitinga. Staða, hlutverk og ábyrgð kirkjunnar og fjölþætt starf á hennar vegum er með þeim hætti að við hljótum að leggja við hlustir og bregðast við þegar hún kallar á hjálp, ekki sjálfrar sín vegna heldur fyrir okkur, mig og þig." segir Jón Bjarnason í grein um kirkjustarfið í Morgunblaðinu í dag.

Umræða á Alþingi um fjármál sóknarnefnda

Vakin er athygli á því að í opnum fyrirspurnartíma á Alþingi, þriðjudaginn 13. nóvember kl. 13:30 mun innanríkisráðherra, Ögmundur Jónsson, bregðast við (kl. 14:00) fyrirspurn frá Birgi Ármannssyni um stöðu og fjármál sóknarnefnda í ljósi niðurskurðar hin síðustu ár.

Fræðslukvöld um kristna trú og kynin með Huldu Hrönn M. Helgadóttur

Næstkomandi miðvikudag 14. nóvember verður sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir fyrirlesara á fræðslukvöldi kl. 20. Hún mun fjalla um Kynin: Kristin trú og kyn. Spurningarnar sem hún mun fást við eru: Hver er boðskapur kristni inn í umræðuna um kyn í dag? Hafði eða hefur meinlætalífið tilgang og innihald? Hvaða hlutverki gegnir hjónabandið í kristinni trú? Fræðslukvöldin hefjast kl. 20, boðið er upp á veitingar í hléi en eftir þær eru umræður um efni kvöldsins.

Hugmyndir um sameiningar prófastsdæma og prestakalla

Skipulagsmál voru fyrirferðarmikil á kirkjuþingi í gær sunnudag þegar tekin voru til fyrri umræðu mál er varða sameiningar prófastsdæma og sameiningar prestakalla, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Samantekt þingmála er að finna á vef kirkjuþings. Þar er einnig að finna upptökur af umræðu um þau mál sem farið hafa í fyrstu umræðu.