Fréttir

Jólaaðstoð - hvernig sæki ég um?

Þú hringir í 867 5258 milli 10:00 og 12:00 á mánudegi, þriðjudegi eða miðvikudegi. Hér er um samstarfsverkefni Mæðrastyrksnefndar Akureyrar, Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins og Rauða krossins að ræða. Það einfaldar málið - nú sækir þú um á einum stað og allir þessir aðilar sameinast um að styðja þig með þátttöku fyrirtækja og bæjarbúa á Akureyri og nágrenni. Hringdu fyrir 11. des!

Málþing um heimilisofbeldi

Í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi stendur Jafnréttisstofa og samstarfsaðilar hennar fyrir málþingi á Amtsbókasafninu í dag, fimmtudaginn 29. nóvember kl. 17:00 um heimilisofbeldi. Átakið beinist að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Hópar og samtök um allan heim hafa nýtt átakið til að krefjast aðstoðar og stuðnings til handa brotaþolum, til að styrkja forvarnastarf og þrýsta á um breytingar á löggjöf til að bæta réttarstöðu þeirra.

Hinir ýmsu heimsendar ...

Nú er prédikun síðustu sunnudagsmessu komin á vefinn... Hana má lesa hér

Skólaheimsóknir á aðventu

Það hefur verið okkur í Glerárkirkju mikið ánægjuefni hve margir hópar úr skólum norðan ár hafa þegið boð um þátttöku á fræðslustundum á aðventu í Glerárkirkju. Á aðventu 2012 munum við halda okkar striki og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá þar sem kennarar geta valið úr nokkrum fræðsluliðum eins og verið hefur undanfarin ár. Tekið er á móti hópum frá fimmtudeginum 29. nóvember og fram til föstudagsins 14. desember. Skráning fer fram hjá Sverri í Glerárkirkju (sverrir[hjá]glerarkirkja.is / 464 8800). Hann gefur einnig upplýsingar um nánari tímasetningar en bókað er eftir viðhorfinu ,,fyrstur kemur, fyrstur fær.“ – Gjarnan skoðum við óskir um aðrar tímasetningar seinna í desember, ef slíkt hentar betur.

Hnattvæðingin - áskoranir fyrir kristna trú

Áttunda og jafnframt síðasta fræðslukvöldið undir yfirskriftinni ,,Hvað er kristin trú" verður haldið í safnaðarsal Glerárkirkju miðvikudagskvöldið 28. nóvember. Byggt er á samnefndri bók eftir Halvor Moxnes. Þetta kvöld mun Jónas Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar flytja inngangserindi að umræðum um kristna trú í hnattvæddum heimi. Dagskráin hefst kl. 20:00. Að loknu inngangserindi Jónasar er tekið kaffihlé áður en að farið er í almennar umræður. Það eru allir hjartanlega velkomnir, þátttaka er ókeypis en beðið er um frjáls framlög í kaffisjóð.

Vel heppnuð ferð á Hólavatn

Unglingastarfið hefur gengið vel í haust en að þessu sinni er Glerárkirkja í nánu samstarfi við KFUM og KFUK á Akureyri og ber starfið heitið UD-Glerá. 20, 30 og allt upp í 50 krakkar hafa verið að mæta á vikulega fundi unglingadeildarinnar sem haldnir eru í félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð á Akureyri. Úr þeim hópi fóru 20 krakkar í gistiferð á Hólavatn föstudagskvöldið 23. nóvember. Þrátt fyrir vetrarfærð og vetrarveður var það hin besta upplifun þar sem að ævintýraleikur úti í snjónum á föstudagskvöldinu og ganga á ísilögðu vatninu á laugardeginum áttu sinn þátt í að gera ferðina eftirminnilega.

Kirkjan taki virkan þátt í umræðu samfélagsins

Höskuldur Þórhallsson hélt erindi í Glerárkirkju í gærkvöldi, miðvikudagskvöldið 21. nóvember 2012. Erindið var hluti af fyrirlestraröð sem Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi stendur fyrir í samstarfi við Glerárkirkju um kristna trú og byggist umræðan á bók Halvor Moxnes "Hvað er kristin trú?" sem kom út í íslenskri þýðingu sr. Hreins Hákonarsonar hjá Skálholtsútgáfunni árið 2010. Í erindi sínu brýndi Höskuldur kirkjuna: Það væri mikilvægt að kirkjan tæki virkan þátt í umræðunni í samfélaginu og við samfélagið. Hennar hlutverk væri þó ekki að koma með látum og upphrópunum inn í umræðuna, heldur ætti hún að einbeita sér að hógværum og umburðarlyndum málflutningi þar sem hún héldi fyrirgefningunni og hverjum þeim góða málstað sem Jesús Kristur stóð fyrir á lofti. Hætt væri við að kirkjunni yrði einfaldlega ýtt út af sjónarsviðinu ef hún drægi sig út úr umræðunni.

Fermingar 2014

Fermingin er stór viðburður í lífi hvers einstaklings og fjölskyldu hans og skiljanlegt að margir vilji skipuleggja slíkar fjölskylduhátíðir með góðum fyrirvara. Það hefur verið okkur gleðiefni í Glerárkirkju í gegnum árin að allt að 97% barna úr hverjum árgangi hefur kosið að fermast í Glerárkirkju og vonumst við til þess að þegar kemur að börnum fæddum árið 2000 verði hlutfallið áfram hátt. Hér á eftir má sjá hvaða daga verður fermt í Glerárkirkju vorið 2014.

Sjálfsvirðing - Erindi sr. Huldu Hrannar M. Helgadóttur

Sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir, sóknarprestur í Möðruvallaprestakalli, var fyrirlesari á fræðslukvöldi í Glerárkirkju 14. nóvember 2012. Hún nefndi erindi sitt "Sjálfsvirðing" og spurði m.a. í upphafi: "Hver er ég, hvert er samhengi mitt, hvað hefur áhrif á mig, hverjar eru fyrirmyndir mínar, hvað nema augu mín og eyru án þess að ég taki eftir því?" Hún benti á að allt væru þetta spurningar sem vert væri að skoða þegar kynin, einsetulíf, hjónaband og sjálfsvirðing væru hugleidd. Erindi hennar í heild sinni er birt hér á vefnum með aðstoð Youtube.

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Fjöldi aðila á Akureyri, þar á meðal Jafnréttisstofa, Akureyrarbær, Aflið, Akureyrarkirkja, Amnesty, Glerárkirkja, Menntaskólinn á Akureyri, Háskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Zonta konur og fleiri standa að dagskrá í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Dagskráin er að þessu sinni undir yfirskriftinni "Heimilisfriður - Heimsfriður". Boðið verður upp á kvikmyndasýningu í Sambíóum á Akureyri 27. nóvember, málþing á Amtsbókasafninu 29. nóvember, ljósagöngu frá Akureyrarkirkju 6. desember og mannréttindadag í versluninni Flóru 8. desember.