Útvörður byggðar Akureyrar í norðri

Frásögnum viðstaddra og blaðagreinum frá þeim tíma ber saman: Mikil hátíðarstemning ríkti þegar Glerárkirkja var vígð 6. desember 1992 að viðstöddum rúmlega 900 manns, en athöfnin tók að sögn blaðamanns hjá Degi á Akureyri hátt í þrjár klukkustundir. Í dag aðeins 20 árum síðar þætti mörgum það nú heldur löng athöfn. En fögnuðurinn var stór, loksins var komin kirkja norðan við á. Blaðamaður Dags nefnir Glerárkirkju m.a. ,,útvörð byggðar Akureyrar í norðri". Hér á glerarkirkja.is má nú nálgast nokkrar blaðagreinar sem segja söguna frá vígslu fyrsta áfanga 1987 og vígslu kirkjuskipsins 1992.

Úr Degi, 13. febrúar 1987Fyrsti áfangi Glerárkirkju var vígður í febrúar 1987. Af því tilefni birtist heilsíðufrétt í Degi 13. febrúar 1987. Þar var rætt við Inga Þór Jóhannsson, formann Byggingarnefndar, Svan Eiríksson arkitekt og sr. Pálma Matthíasson, fyrsta sóknarprestinn. Á mynd með þeim sem fylgir fréttinni er einnig Eiríkur Stefánsson, byggingarstjóri.

Blaðamanni leikur meðal annars forvitni á að vita hve stór kirkjan sé. Svarið er einfalt: ,,Efri hæðin er um það bil 1100 fermetrar svo þetta gerir samtals 2100 fermetra. Sá hluti kirkjunnar sem við tökum nú í notkun er anddyrið og svonefnd suðurálma, alls um 500 fermetrar. Suðurálman verður notuð til guðsþjónustuhalds fyrst um sinn en seinna eiga að koma þar skrifstofur fyrir sóknarprestinn og sóknarnefnd, kapella, fatahengi o.fl."

Greinin sem er aðgengileg á tímarit.is er einnig aðgengileg hér á glerarkirkja.is. Smellið á myndina til að skoða greinina (PDF-skjal).

Sr. Pálma líður stórkostlegaAf sama tilefni var einnig birt símaviðtal við sr. Pálma, en á þeim tíma var Dagur með sérstakan dálk í blaðinu sem hét ,,Á línunni".  Þar greinir sr. Pálmi frá því að honum líði stórkostlega og segir m.a.: ,,Þessi dagur leggst mjög vel í mig, þetta er svo stórkostlegur áfangi og mjög langþráður. Annars má ég ekki vera vanþakklátur og tala um langþráðan áfanga, það hafa margir prestar orðið að bíða lengur en ég og það má segja að okkar kirkjubygging hafi gengið fyrir sig á hljóðhraða miða við kirkjubyggingar almennt."

Greinin sem er aðgengileg á tímarit.is er nú einnig aðgengileg hér á glerarkirkja.is. Smellið á myndina til að skoða greinina (PDF-skjal).

Leiðari sem Bragi Bergmann ritstjóri Dags á Akureyri ritar daginn fyrir vígslu kirkjuskipsins árið 1992 er helgaður vígslu Glerárkirkju. Þar minnir Bragi meðal annars á að einungis átta ár eru liðin frá því að fyrsta skóflustungan að Glerárkirkju var tekin og að aðeins rúm fimm ár séu síðan að fyrsti áfangi kirkjunnar var tekinn í notkun. Það þyki ekki langur tími þegar svona stór framkvæmd sé annars vegar. Og hann er ánægður með bygginguna: ,,Glerárkirkja er svo sannarlega glæsilegt mannvirki, um það verður ekki deilt." Greinin sem er aðgengileg á tímarit.is er nú einnig aðgengileg hér á glerarkirkja.is. Smellið hér.

Morgunblaðið 5.desember 1992Þennan sama laugardag er heilsíðufrétt í Morgunblaðinu þar sem sagt er frá vígslu Glerárkirkju. Þar kemur meðal annars fram að í ársbyrjun 1983 var sótt um lóð undir kirkjuna á lóð Sjálfsbjargar við Bugðusíðu og hún veitt í maí það ár. Þá er minnt á að fyrst var messað í kirkjunni í ágúst 1985 þó svo að kirkjan hafi ekki orðið fokheld fyrr en á árinu 1987 - sem er skemmtilega orðað því að á öðrum stað í fréttinni kemur hins vegar fram að fyrsti áfangi kirkjunnar var vígður í byrjun árs 1987. En þetta gefur góða mynd af því hve stór framkvæmdin var.

Þá er þess getið að hollensku kirkjuklukkunum sem eru í Glerárkirkju hafi fyrst verið hringt 2. september árið 1990 og að þær séu tæplega eitt og hálft tonn að þyngd. Þá er vitnað í sóknarprestinn, sr. Gunnlaug Garðarsson og haft eftir honum: ,,Það er mikill fögnuður í huga og hjarta yfir þessari stóru stund, nú er allt til reiðu fyrir starf og þjónustu við söfnuðinn. Það skapast margir möguleikar, en réttlæti fyrir kirkjubyggingum fáum við hvergi nema hjá Guði sjálfum". Þá kemur fram að íbúar í sókninni nálgist sex þúsund og kveðst Gunnlaugur vona að brátt verði tveir prestar starfandi við kirkjuna. Sú von rættist því miður ekki strax og liðu hartnær sjö ár þar til að sr. Arnaldur Bárðarson kom til starfa við kirkjuna, en með honum urðu í fyrsta sinn tveir prestar starfandi við kirkjuna.

Morgunblaðið greinir einnig frá því að fjölbreytt starfsemi fari nú þegar fram í húsinu, skátastarf, leikskóli, AA-starf, fundir Parkinsonsfélagsins og fleira. Auk þess birtir blaðið myndir af þeim þremur sóknarprestum sem hafa starfið við Glerárkirkju: Sr. Pálmi Matthíasson, Sr. Pétur Þórarinsson og sr. Gunnlaugur Garðarsson.

Greinin sem fengin er af timarit.is er nú einnig aðgengileg sem pdf-skjal hér á glerarkirkja.is og má nálgast hana með því að smella á myndina hér til vinstri.

Dagur: Glerárkirkja vígð á morgunSama dag er blaðamaður Dags á Akureyri mjög hátíðlegur í heilsíðufrétt um tímamótin. Hann skrifar meðal annars: ,,Á sunnudaginn verða þó merkustu tímamót í sögu hins unga safnaðar. Megináfangi kirkjubyggingarinnar er að baki. Sjálfur aðalsalur kirkjunnar er tilbúinn til notkunar og helgihaldið hefur fengið samastað til framtíðar. Safnaðarheimili kirkjunnar er einnig tilbúið til notkunar og nú á einungis eftir að ganga frá suðurálmunni til endanlegra nota og hluta þess mikla húsrýmis, sem er á neðri hæð kirkjubyggingarinnar. Þó kirkjur hafi um aldir verið reistar Drottni til dýrðar, og séu enn, hefur byggingarstíll þeirra tekið breytingum á síðari tímum. Einkum hefur verið hugað að auknu notagildi þeirra kirkjubygginga er risið hafa og er svo einnig um Glerárkirkju."

Í blaðagreininni er vitnað í orð fyrrum sóknarprests, sr. Péturs Þórarinssonar: ,,Við upphaf sjöunda áratugarins var hverfið sem við þekkjum í dag að miklu leyti óbyggt; þar hefur allt stækkað - húsin, skólinn, hverfið og kirkjan".

Þá er haft eftir fyrsta sóknarpresti kirkjunnar að hann hafi kveðið því að messa í íþróttasal Glerárskóla á jólum fyrst eftir að sá siður var tekinn upp í sókn sem aðeins átti litla kirkju upp í Lögmannshlíð. En sá kvíði hafi reynst óþarfur: ,,húsið hafi fyllst; ekki aðeins á aðfangadagskvöld, heldur einnig á jóladag og á annan dag jóla."

Í niðurlagi greinarinnar er rætt við hinn unga sóknarprest sem er bjartsýnn: ,,Þegar horft er til framtíðar opnast safnaðarstarfinu margvíslegir möguleikar er eiga mun sér skjól í Glerárkirkju. Gunnlaugur Garðarsson, kvaðst líta björtum augum til komandi tíma. Veröldin taki stöðugt stakkaskiptum og ljóst að ef kristin trú eigi að hafa þau ítök er hún hafi haft með þjóðinni verði kirkjan að laga sig að breyttum aðstæðum. En sama verði ætíð hversu hæfileikaríkt fólkið sé og nýjungarnar margar, ekkert af því nægi ef fólkið sjálft skynji ekki ábyrgð sína. Okkur beri að líta á það sem heilaga skyldu að styðja við hið trúarlega uppeldi. (Smellið á myndina til að nálgast greinina).

Frétt úr Degi, 8. desember 1992Þriðjudaginn 8. desember birtist svo heilsíðufrétt í Degi þar sem greint var frá vígsluathöfninni í máli og myndum. Þar kom fram að um 900 manns hefðu sótt athöfnina sem hefði öll verið hin glæsilegasta. En á síðunni er einnig birt afsökunarbeiðni frá sóknarnefnd. Í hita leiksins hafði nefndin tekið sér það vandasama hlutverk að veita viðurkenningar og til að lengja athöfnina ekki frekar úr hófi hafði verið ákveðið að sumir fengju sínar viðurkenningar við annað tækifæri. Þetta féll ekki í góðan jarðveg og því þótti rétt að sóknarnefnd bæðist formlega afsökunar. Þegar litið er til baka má segja að hér hafi vel átt við orðtækið ,,Fall er fararheill" því að sóknarnefndum við Glerárkirkju hefur farist starf sitt mjög vel úr hendi síðustu tuttugu ár og tekist meðal annars það stórvirki að gera sóknina skuldlausa, nokkuð sem flestar sóknir á landinu dreymir um.

Í inngangi fréttarinnar segir: ,,Mikil hátíðarstemmning ríkti er biskup Íslands, herra Ólafur Skúlason, vígði Glerárkirkju síðastliðinn sunnudag. Yfir níu hundruð manns voru viðstaddir athöfnina, sem tók hátt í þrjár klukkustundir. Með vígslu aðal kirkjunnar er miklum áfanga náð í byggingasögu hennar. Íbúar Glerárhverfis hafa lyft Grettistaki með byggingu hennar en framkvæmdum er nú nánast lokið. Auk þess að vera veglegt guðshús og glæsilegur útvörður byggðar Akureyrar í norðri, veitir hin nýja kirkjubygging möguleika til öflugs safnaðarlífs og fjölbreytilegra starfa er rúmast innan ramma kristinnar kirkju. Með kirkjubyggingunni hefur Glerársöfnuður eignast athvarf - fastan samastað um ókomna framtíð.

Heilsíðan sem fengin er að láni af tímarit.is er nú einnig aðgengileg á glerarkirkja.is. Smellið á myndina!