Samfylgd þjóðar og kristni í 1.000 ár

Laugardaginn 8. desember 2012 er sérstök hátíðardagskrá í Glerárkirkju í tali og tónum. Tilefnið er 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju. Þar flytur dr. Hjalti Hugason prófessor í kirkjusögu við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands erindi sem ber yfirskriftina ,,Samfylgd þjóðar og kristni í 1.000 ár.“ Dagskráin hefst kl. 16:00 með stuttu tónlistaratriði sem Valmar Väljaots stjórnar og bænagjörð áður en gengið er í safnaðarsalinn þar sem dr. Hjalti flytur erindi sitt. Að erindi loknu er boðið upp á kaffiveitingar og umræður. Allir hjartanlega velkomnir, aðgangur ókeypis.

Hjalti Hugason er fæddur á Akureyri 1952, stúdent frá MA 1972, Cand. theol. frá guðfræðideild Háskóla Íslands 1997 og doktor í kirkjusögu frá háskólanum í Uppsölum í Svíþjóð 1983. Hjalti starfaði við Kennaraháskóla Íslands frá 1986 til 1992 en frá þeim tíma hefur hann starfað við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ þar sem hann er nú prófessor í kirkjusögu. Auk þess hefur Hjalti kennt kirkjusögu við háskólann í Uppsölum, gegnt prestsþjónustu í íslensku og sænsku kirkjunni. Þá var hann um skeið aðstoðarframkvæmdastjóri við Nordisk ekumeniska institutet í Svíþjóð.

Hjalti hefur samið fjölda greina og ritgerða sem birst hafa hér á landi og erlendis um íslenska og norræna kirkjusögu, trúarlega þjóðháttarfræði, kirkju-, félags- og menningarmál auk þess sem hann hefur látið til sín taka hin síðustu misseri í umræðunni um stjórnarskrá lýðveldisins, þjóðkirkjuákvæðið í nýrri stjórnarskrá og unnið að þróun á tillögu að nýjum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti íslensku þjóðkirkjunnar.

Hjalti var ritstjóri ,,Kristni á Íslandi“, fjögurra binda verki sem kom út samkvæmt samþykkt Alþingis frá 26. mars 1990 sem fól í sér að gefið yrði út ritverk um kristni á Íslandi og áhrif hennar á þjóðlíf og menningu í þúsund ár. Verkið kom út á Kristnitökuafmælinu árið 2000.