Fréttir

Biblíutúlkun 17. október kl. 20:00

Sr. María Ágústsdóttir verkefnastýra á Biskupsstofu er málshefjandi á öðru umræðukvöldi haustsins. Erindi hennar fjallar um texta biblíunnar og túlkun þeirra. Til grundvallar fræðslunni liggur bók Halvor Moxnes "Hvað er kristin trú?" sem kom út í íslenskri þýðingu Hreins S. Hákonarsonar hjá Skálholtsútgáfunni á síðasta ári. Það eru allir hjartanlega velkomnir í Glerárkirkju miðvikudagskvöldið 17. október kl. 20:00 til að hlýða á erindi sr. Maríu og taka þátt í samtali um efni kvöldsins.

Sr. Arna í námsleyfi - sr. Guðmundur leysir af

Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir verður í námsleyfi frá störfum sínum sem prestur í Glerárkirkju frá þriðjudeginum 16. október til mánudagsins 19. nóvember. Sr. Guðmundur Guðmundsson mun leysa hana af á meðan, en sr. Guðmundur er mörgum sóknarbörnum vel kunnur þar sem hann hefur starfað um árabil sem héraðsprestur í prófastsdæminu og meðal annars verið einn umsjónarmanna með fræðslukvöldum í Glerárkirkju.

Skjótt' á körfu

Heimsáskorun KFUM – 2012 „Skjótt´ á körfu” (e. „Hoop Springs Eternal“) fór fram í dag. Hún var skipulögð til þess að fagna starfi KFUM og KFUK um allan heim á sviði valdeflingar ungs fólks. KFUM og KFUK félög um allan heim skipulögðu viðburði þar sem þátttakendum og öllum sem vilja var boðið að skjóta á körfu. KFUM ætlar að setja nýtt heimsmet með því að safna saman fleira fólki en nokkurn tímann áður hefur verið gert til þess að skjóta á körfu í tilefni viðburðarins. Meðal þátttakenda á Íslandi voru unglingar úr UD-Glerá, sameiginlegu unglingastarfi KFUM og KFUK og Glerárkirkju. Myndir frá viðburðinum eru aðgengilegar á vefnum.

Svara spurningum út frá kristnum grunngildum

„Þjóðmálanefnd þjóðkirkjunnar hvetur fólk til að nýta kosningarétt sinn í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október næstkomandi og íhuga tillögur stjórnlagaráðs í heild sinni og einstakar spurningar út frá kristnum grunngildum” segir í fréttatilkynningu frá Þjóðmálanefnd.

Nýtt safnaðarblað komið út

Fyrir síðustu helgi var safnaðarblaði Lögmannshlíðarsóknar dreift í öll hús í póstnúmerinu 603. Blaðið er nú einnig aðgengilegt hér á vef Glerárkirkju sem pdf-skjal. Ef einhver hefur ekki fengið blaðið er sá hinn sami beðinn að láta okkur vita í Glerárkirkju í síma 464 8800 og munum við koma blaðinu til skila um hæl. Næsta safnaðarblað kemur út í byrjun aðventu.

Upptaka frá fræðslukvöldi 10. október

Nú standa yfir í Glerárkirkju fræðslukvöldin "Hvað er kristin trú?" Upptaka frá fyrsta kvöldinu, 10. október þar sem sr. Hreinn S. Hákonarson, þýðandi samnefndrar bókar eftir Halvor Moxnes flutti erindi um Jesú sögunnar og Krist trúarinnar. Erindið er birt í heild sinni á vefnum.

Kynning á umræðukvöldum

Í október og nóvember stendur Glerárkirkja í samvinnu við prófastsdæmið fyrir umræðukvöldum um kristna trú. Umræðurnar byggjast á bók eftir Halvor Moxnes sem nefnist í íslenskri þýðingu sr. Hreins S. Hákonarsonar: "Hvað er kristin trú?" Á fyrsta kvöldinu gerði sr. Hreinn meðal annars grein fyrir því hvar bókin varð fyrst á vegi hans og hvernig hann féll fyrir henni. Að hans sögn er margt í bókinni ögrandi og mun sumt koma lesandanum verulega á óvart. Hér fyrir neðan má hlusta á þessa stuttu frásögn sr. Hreins.

Opið bréf til Alþingismanna

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp ríkisstjórnarinnar að fjárlögum fyrir árið 2013, þar sem enn er gerð atlaga að sóknargjaldinu og öðrum tekjustofnum Þjóðkirkjunnar. Og þá auðvitað líka að tekjustofnum annara trúfélaga. Í opnu bréfi til Alþingismanna sem birtist m.a. á trú.is spyr Gísli Jónasson prófastur Alþingismenn tíu spurninga og biður um svör á opinberum vettvangi.

Leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti kynntur

KFUM og KFUK á Akureyri í samstarfi við nokkra aðila stendur fyrir fræðsluerindi um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála, 11. október kl. 16:30 til 18:00. Fyrirlesari er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og höfundur EKKI MEIR, sem er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn. Kynningin fer fram í félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð. Allir velkomnir.

Myndir frá skyndihjálparnámskeiði

Nokkrar myndir frá skyndihjálparnámskeiði fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða eru nú aðgengilegar hér á vef Glerárkirkju.