Fréttir

Fermingarferðalag í Skagafjörð

Eins og undanfarin ár fara fermingarbörnin í Glerárkirkju í ferðalag, sér til gagns og gamans. Farið verður frá Glerárkirkju að morgni (brottför kl. 08:30) á Löngumýri í Skagafirði með viðkomu á Hólum í Hjaltadal. Áætluð heimkoma er um kl. 20:00 sama dag. Kostnaði vegna ferðarinnar er haldið í lágmarki og er hún styrkt bæði úr sóknarsjóði Lögmannshlíðarsóknar og héraðssjóði prófastsdæmisins. Börnin greiða 1500 kr. hvert. Fargjöld, fæði og námsgögn eru þar innifalin.

Jesú sögunnar - Kristur trúarinnar

Umræðukvöldaröðin "Hvað er kristin trú?" hefst miðvikudagskvöldið 10. október næstkomandi með erindi sr. Hreins Hákonarsonar sem nefnist "Jesú sögunnar - Kristur trúarinnar." Umræðurnar á miðvikudagskvöldum í haust eru byggðar á samnefndri bók eftir Halvör Moxnes. Sem fyrr er um samstarf Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis og Glerárkirkju. Hvert kvöld hefst með erindi kl. 20:00. Að loknu kaffihléi taka við umræður til kl. 22:00. Aðgangur er ókeypis, ekki nauðsynlegt að skrá sig. Tekið er á móti frjálsum framlögum í kaffisjóð. Velkomið er að mæta á einstaka kvöld.

Kvöldmessa kl. 20:00

Messað verður í Glerárkirkju sunnudagskvöldið 7. október kl. 20:00. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir þjónar. Kór Glerárkirkju leiðir fjölbreyttan sálmasöng undir stjórn Valmars Väljaots organista.

Fjölskylduguðsþjónusta 7. október kl. 11:00

Fjölskylduguðsþjónusta verður í Glerárkirkju sunnudaginn 7. október kl. 11:00. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir og Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni leiða athöfnina. Barnakór Glerárkirkju og Æskulýðskór Glerárkirkju syngja undir stjórn Marínu Óskar Þórólfsdóttur og Rósu Ingibjargar Tómasdóttur. Sögustund fyrir börnin við altarið, brúðuleikhús og fleiri dagskrárliðir sunnudagaskólans eru hluti af fjölskylduguðsþjónustunni. Allir fá biblíumynd og bók til að safna biblíumyndum í.

Evrópuhátíðin 2013 - upplýsingar

Á foreldrafundi í UD-Glerá í kvöld upplýstu þeir Jóhann H. Þorsteinsson og Pétur Björgvin Þorsteinsson, umsjónarmenn æskulýðsstarfsins foreldra og unglinga um ýmsa þætti sem tengjast Evrópuhátíð KFUM og KFUK 2013. Hátíðin verður haldin í Prag í Tékklandi í byrjun ágúst og stefnir æskulýðshópurinn á þátttöku þar. Helstu upplýsingar kvöldsins eru nú einnig aðgengilegar hér á vefnum.

Facebook reglur fyrir unglinga - tillaga

Á fræðslukvöldi sem KFUM og KFUK og Glerárkirkja stóðu fyrir með stuðningi Æskulýðssjóðs um Facebooknotkun, setti fyrirlesari kvöldsins, Halldór Elías Guðmundsson fram hugmynd að Facebook notkunarreglum fyrir ósjálfráða ungmenni. Að beiðni þátttakenda eru reglurnar birtar hér. Þær eru hugsaður sem grundvöllur fyrir umræðu milli ungmenna og foreldra um Facebooknotkun, en ekki sem algildar reglur sem allir ættu að fara eftir. Þá nefndi Halldór að foreldrum væri hollt að velta því fyrir sér hvort þau gætu sjálf farið eftir álíka reglum fyrir fullorðna áður en þau færu fram á að unglingarnir færu eftir svona reglum. Góða skemmtun.

Þjóðkirkja og stjórnarskrá

Opnaður hefur verið upplýsingavefur Þjóðkirkjunnar varðandi atkvæðagreiðslu um stjórnarskrártillögu þá sem kynnt er með heimsendum bæklingi fyrir þjóðinni allri. Á forsíðu upplýsingavefsins segir frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup, m.a.: ,,Ég hvet til þess að spurningu um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá verði svarað játandi. ...þar sem stjórnarskráin er í grunninn sáttmáli okkar um undirstöður samfélagsins, er mikilvægt að um mögulegar breytingar á stjórnarskrá ríki breið sátt."

Mat á verkefnum fyrir erlenda sjálfboðaliða í Glerárkirkju

Frá ársbyrjun 2006 fram á sumarið 2011 tók æskulýðsstarf Glerárkirkju alls á móti 13 erlendum sjálfboðaliðum sem dvöldu hér allt frá 6 upp í 13 mánuði. Verkefnið var styrkt af Evrópu Unga Fólksins, sem er íslenskt heiti styrktaráætlunar Evrópusambandsins og snýr að ungmennum frá 13 til 30 ára. Til þess að meta gæði þessa starfs hér í Glerárkirkju komu 10 af þessum sjálfboðaliðum ásamt fulltrúum frá sínum sendisamtökum til landsins í febrúar síðastliðnum og áttu fund með fulltrúum Glerárkirkju. Matskýrsla á ensku um þetta verkefni er nú aðgengileg hér á vef Glerárkirkju sem pdf-skjal.

EVS in Glerárkirkja - Evaluation

It all started back in 2005 with an application from the youth work department of the Evangelical Lutheran Church, Glerárkirkja. It was an application for a European Voluntary Service (EVS) project. The project was called "Together in Snow and Sun." Since then, 13 volunteers have spent from 6 to 13 months in Akureyri as European Volunteers, participating in Glerárkirkja's projects. Earlier this year 10 of them came again to Iceland together with representatives from their organisations. This time they had a different task. Together they where asked to evaluate Glerárkirkja's EVS project. Now, a few months later we in Glerárkirkja are proud to present the evaluation report, online as a PDF-document.

Síðasti opni tólf spora fundurinn í kvöld

12 spora fundir í Glerárkirkju verða á mánudögum kl. 19:30 í vetur. Í kvöld, 1. október kl. 20:00 er komið að þriðja og síðasta svokallaða opna kvöldi þar sem öllum gefst kostur á að kynna sér starfið. Frá og með fjórða kvöldi geta engir nýir bæst í hópinn, því frá þeim tíma er unnið í lokuðum sjálfshjálparhópum.