Sr. María Ágústsdóttir verkefnastýra á Biskupsstofu er málshefjandi á öðru umræðukvöldi haustsins. Erindi hennar fjallar um texta biblíunnar og túlkun þeirra. Til grundvallar fræðslunni liggur bók Halvor Moxnes "Hvað er kristin trú?" sem kom út í íslenskri þýðingu Hreins S. Hákonarsonar hjá Skálholtsútgáfunni á síðasta ári. Það eru allir hjartanlega velkomnir í Glerárkirkju miðvikudagskvöldið 17. október kl. 20:00 til að hlýða á erindi sr. Maríu og taka þátt í samtali um efni kvöldsins.
Umræðukvöldin eru samstarfsverkefni Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis og Glerárkirkju. Á þessu öðru kvöldi er spurt hvaða áhrif biblíurannsóknir hafi á kirkju og kristni, hvort þessar rannsóknir auki skilning á kirkju og samfélagi og hvernig túlkunarfræðin hafi breyst með tilkomu kvennaguðfræðinnar. Gert er ráð fyrir því að inngangserindi sr. Maríu taki um 45 mínútur. Að því loknu er kaffihlé (tekið á móti frjálsum framlögum í kaffisjóð) og þar á eftir taka við umræður þar sem þátttakendur eru hvattir til að koma með spurningar, vangaveltur og innlegg um efni kvöldsins.