Fréttir

Vel heppnuð ferð á landsmót æskulýðsfélaga

Á dögunum fór 15 manna hópur frá Glerárkirkju á landsmót æskulýðsfélaga, en það var haldið á Selfossi síðustu helgina í október. Alls tóku um 500 ungmenni þátt í mótinu sem var vel heppnað í alla staði. Landsmótin hafa verið fastur liður í æskulýðsstarfi kirkjunnar um áratuga skeið. Næsta landsmót verður austur á Héraði í október 2012. Hér á vef Glerárkirkju má nú skoða nokkrar myndir af ferð okkar á mótið.

Dagur gegn einelti - kirkjuklukkunum hringt

Í dag, 8. nóvember kl. 13:00, verður brugðið út af vananum með hringingu kirkjuklukkna.  

Söfnun fyrir hjálparstarf kirkjunnar

Um þrjú þúsund fermingarbörn í 67 prestaköllum á öllu landinu munu ganga í hús í þessari viku og safna fé fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku. Við í Glerárkirkju hvetjum fermingarbörn vorsins 2012 til þess að taka þátt. Gengið verður í hús í Glerárhverfi fimmtudaginn 10. nóvember kl. 18.30 til 21:00, föstudaginn 11. nóvember kl. 18:30 til 21:00 og laugardaginn 12. nóvember kl. 11:00 til 16:00. Þau fermingarbörn sem vilja taka þátt eru beðin að mæta á fræðslustund um verkefnið fimmtudaginn 10. nóvember kl. 17:45. Foreldrar eru hvattir til þess að styðja við fermingarbörnin í þessu verkefni. Börnin ganga í hús tvö og tvö saman eða með foreldri. Hér á vefnum má skoða stutt kynningarmyndband.

Kompásnámskeið fyrir kennara

Glerárkirkja, í samstarfi við Skóladeild Akureyrarbæjar og Námsgagnastofnun stendur fyrir Kompásnámskeiði fyrir kennara á Akureyri haustið 2011. Hverjum grunnskóla er boðið að senda þrjá kennara á námskeiðið, en það hentar sérstaklega kennurum á unglingastigi. Skráning er hjá skólastjórum í viðkomandi skólum.

Tveggja manna tal um trú, þekkingu og heimspeki

Miðvikudagskvöldið 9. nóvember kl. 20:00 halda umræðukvöld prófastsdæmisins áfram hér í Glerárkirkju. Að þessu sinni snýst tveggja manna talið um trú, þekkingu og heimspeki. Þátttakendur eru sr. Gunnlaugur Garðarsson sóknarprestur í Glerárkirkju og dr. Hjalti Hugason, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. Að kaffihléi loknu eru almennar umræður. Allir velkomnir, aðgangur ókeypis. Sjá nánar á vef prófastsdæmisins.

Kompás í kirkjustarfi

Allt frá árinu 2006 hefur Glerárkirkja staðið fyrir ýmsum verkefnum sem tengjast mannréttindafræðslu, en það ár réð kirkjan Ölmu Guðnadóttur og Daníel Müller tímabundið til þess að fara í sjöundubekki í skólum bæjarins með mannréttindafræðslu. Verkefnin sem notuð voru, voru byggð á Kompás, handbók Evrópuráðsins í mannréttindafræðslu með ungu fólki. Á trú.is í dag má lesa pistil þessu tengdan, hann nefnist: Kompás í kirkjustarfi.

Allra heilagra messa sunnudaginn 6. nóvember

Á allra heilagra messu nk. sunnudag verður messa að venju kl. 11. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar, félagar úr Kór kirkjunnar leiða söng. Barnastarfið er á sama tíma í safnaðarheimili, sameiginlegt upphaf í messu. Allir velkomnir.

Landsmótið fer vel af stað

500 unglingar og leiðtogar eru samankomnir á landsmóti æskulýðsfélaga kirkjunnar sem var sett á Selfossi fyrr í kvöld. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, brá á leik við setningu landsmotsins og þakkaði unglingunum fyrir gott starf og góðan hug: „Nú veit ég af góðverkahelgi landsmótsins. Þar munuð þið leggja mikið af mörkum til þeirra sem treysta á aðstoð. Ég veit að hérna inni eru mörg gullhjörtu, sem bera umhyggju fyrir öðrum og láta gott af sér leiða.“' Meðal þátttakenda eru 12 ungmenni og 2 leiðtogar úr Glerárkirkju ásamt Pétri Björgvini djákna Glerárkirkju. Sjá nánar á kirkjan.is

15 manna hópur frá Glerárkirkju á landsmót

15 manna hópur leggur af stað í dag klukkan ellefu frá Glerárkirkju. Ferðinni er heitið á landsmót æskulýðsfélaga á Selfossi sem hefst í kvöld en alls er búist við um 500 þátttakendum. Undirbúningur hjá hópnum úr Glerárkirkju hefur staðið í nokkurn tíma, m.a. hafa tvær stúlkur úr hópnum æft stíft fyrir hæfileikakeppnina þar sem þær munu flytja söngatriði. Þá hittist hópurinn á dögunum til þess að sauma búninga, enda búningaball á dagskránni á laugardagskvöldinu og verðlaunum heitið fyrir flottustu búningana. Nokkrar mömmur og ein amma var fengin með í saumaskapinn og aldeilis glatt á hjalla. Skoða myndir frá búningasaumaskapnum.

,,Það er mikið mál að þrífa þessa kirkju

Það var um miðjan júlí í sumar. Þau komu göngumóð í Glerárkirkju, herra og frú Edge. Höfðu gengið alla leið frá Oddeyratanga. Þau voru farþegar á skemmtiferðaskipinu Aurora sem lá við bryggju. Það fyrsta sem hann sagði eftir að hafa heilsað mér var: ,,Það er mikið mál að þrífa þessa kirkju."