Kompásnámskeið fyrir kennara

Glerárkirkja, í samstarfi við Skóladeild Akureyrarbæjar og Námsgagnastofnun stendur fyrir Kompásnámskeiði fyrir kennara á Akureyri haustið 2011. Hverjum grunnskóla er boðið að senda þrjá kennara á námskeiðið, en það hentar sérstaklega kennurum á unglingastigi. Skráning er hjá skólastjórum í viðkomandi skólum.

DAGSKRÁ

Hægt er að nálgast dagskrána sem pdf-skjal til útprentunar hér á vefnum.
14. nóvember - mánudagur
13:00 til 14:20. Upphitunarleikir og ísbrjótar í Kompás - þátttakendur fá nasaþef af því að vera þátttakendur í leikjum sem í boði eru í Kompás.
- Hressing í boði Lögmannshlíðarsóknar.
14:40 til 16:00. Almenn kynning á Kompás.
Þátttakendur eru beðnir um að lesa til undirbúnings bls. 38 til 55.

23. nóvember - miðvikudagur
13:00 til 13:40. Kynning á fimm Kompás æfingum sem eru til umfjöllunar í næstu tímum.
13:40 til 14:20. ,,Mismunandi laun".
- Hressing í boði Lögmannshlíðarsóknar.
14:40 til 15:20. ,,Forsíða".
15:20 til 16:00. ,,Stjörnuspákort fátæktar"

28. nóvember - mánudagur
08:20 til 09:00. ,,Sköpum tengsl"
09:00 til 09:40. ,,Borgirnar tvær".
- Hressing í boði Lögmannshlíðarsóknar.
10:20 til 12:00. Hvernig nýtist Kompás í kennslu? Hvar hentar samkvæmt námskrá að nota Kompás? Hversu mikið þarf að aðlaga verkefnin að notkun í skóla? Umræður undir stjórn Aldísar Yngvadóttur, ritstjóra íslensku útgáfunnar og deildarstjóra í lífsleikni hjá Námsgagnastofnun
- Hádegisverður í boði Lögmannshlíðarsóknar.
13:00 til 14:20. Þemun í Kompás. Hvaða umfjöllun er að finna í Kompás og hverjar eru helstu áherslur einstakra efnisþátta. Fyrirlestur.
- Hressing í boði Lögmannshlíðarsóknar.
14:40 til 16:00. Framtíðarsýn - ,,hvernig ætla ég sem þátttakandi.á þessu námskeiði að nýta mér Kompás í kennslu? Mat á námskeiðinu, lokaorð.

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju, Evrópufræðingur (MA) og æskulýðsþjálfari sér um námskeiðið, en hann hefur m.a. þjálfað á slíkum námskeiðum fyrir Evrópu Unga Fólksins, Æskulýðsvettvanginn, Félag fagfólks í frítímaþjónustu, UMFÍ og KFUM og KFUK, auk þess að vera með Kompáskynningar fyrir Námsgagnastofnun.

---
Mannréttindi er ekki hægt að verja með lagatextum einum saman. Allir þurfa að standa vörð um þau, einnig ungt fólk. Kompás er handbók um mannréttindafræðslu og -menntun, ætluð æskulýðsleiðtogum, kennurum og öðrum sem vinna með ungu fólki sem fagaðilar eða áhugafólk. Handbókin hefur að geyma raunhæfar hugmyndir og hagnýt verkefni sem ætlað er að virkja og vekja jákvæða vitund ungs fólks um mannréttindi og fá það til að vinna í þágu mannréttinda og lýðræðis á sinn eigin hátt, í sínu eigin samfélagi. Bókin spannar vítt svið mannréttinda og efnistökin taka mið af áherslu á jafnrétti og mannlega reisn þar sem litið er til mannauðsins sem býr í ungu fólki.

Handbókin Kompás var þróuð af þverfaglegu og þvermenningarlegu teymi fagfólks. Hún er m.a. byggð á hugmyndum um reynslunám þar sem áhersla er á nemendur, umhverfi þeirra og vangaveltur - nemendur sjálfir eru útgangspunkturinn í náminu. Bókin var samin innan ramma áætlunar æskulýðs- og íþróttadeildar Evrópuráðsins um mannréttindi sem var hleypt af stokkunum árið 2000 í tilefni af 50 ára afmæli mannréttindasáttmála Evrópu. Með áætluninni er stefnt að því að efla þátt mannréttinda í æskulýðsstarfi og að mannréttindafræðsla verði liður í almennri menntun. Íslensk þýðing bókarinnar kom út í desember 2009. Í Kompási er að finna ólíkar leiðir og nálganir fyrir hvern þann sem hefur áhuga á mannréttindum, lýðræði og borgaravitund.

Rafræn útgáfa er á www.nams.is/kompas