Fréttir

Fjör í farskólanum

Líf og fjör í bland við ábyrgð og alvöru einkenndu síðastliðna helgi á Vestmannsvatni. Þar fór fram farskóli leiðtogaefna. Rúmlega 20 ungmenni af starfsvæði ÆSKA og ÆSKEY sóttu námskeiðið. Í þeirra hópi voru þær Hildur og Svava frá Glerárkirkju. * Lesa frétt á kirkjan.is. * Skoða myndir hér á vefnum.

Helgihald í Glerárkirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu

Á sunnudaginn kemur, 27. nóvember hefst aðventan. Í Glerárkirkju verður fjölskylduguðsþjónusta kl. 11. Þar þjóna sr. Gunnlaugur Garðarsson og Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni. Barna- og æskulýðskórar kirkjunnar leiða söng undir stjórn Marínu Óskar Þórólfsdóttur. Fermingarbörn flytja leikþátt. Að guðsþjónustu lokinni verður opnuð jólakortasýning í anddyri kirkjunnar, þar sem fólki gefst færi á að skoða jólakort frá mismunandi tímum og fræðast um sögu jólapóstsins.  Barnastarfið verður á sínum stað í safnaðarheimilinu, sameiginlegt upphaf í fjölskylduguðsþjónustunni.  Á sunnudagskvöldið verður kvöldmessa kl. 20:00. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar og félagar úr Kór Glerárkirkju leiða almennan söng. 

Jesús Kristur, sannur maður, sannur Guð?

Hjónin úr Laufási, sr. Bolli Pétur Bollason og Sunna Dóra Möller taka tveggja manna tal um spurninguna hvort Jesús hafi verið sannur maður og sannur Guð á umræðukvöldi í Glerárkirkju, miðvikudagskvöldið 23. nóvember. Dagskráin hefst kl. 20:00. Að kaffihléi loknu er boðið upp á almennar umræður. Allir velkomnir. Aðgangur ókeypis, tekið er við frjálsum framlögum í kaffisjóð í hléi.

Bókakaffi í Glerárkirkju

Bókakaffi verður í Glerárkirkju, miðvikudagskvöldið 30. nóvember kl. 20:00. Þar segir Óskar Guðmundsson frá nýrri bók sinni um Eyfirðinginn, athafnamanninn, bændaleiðtogann og biskupinn Þórhall Bjarnason. Heitt á könnunni.

Frásögn frá umræðukvöldi 7

Í haust hefur Eyjafjarðar-  og Þingeyjarprófastsdæmi staðið fyrir samræðukvöldum um trúna á Krist, guðspjöllin og nútímann. Kvöldin hafa að jafnaði hafist á tveggja manna tali og svo var einnig miðvikudagskvöldið 16. nóv., en þá ræddu dr. Ragnheiður Harpa Arnardóttir og sr. Gunnar Jóhannesson um sjöunda kaflann í bók páfa, en sá kafli hefur yfirskriftina ,,Boðskapur dæmisagnanna“. Á vef prófastsdæmisins má finna nokkra punkta úr tveggja manna tali kvöldsins.

Aðventuheimsóknir í Glerárkirkju

Á aðventu 2010 stendur hópum frá félagasamtökum, vinnustöðum, úr leikskólum og skólum sem fyrr til boða að taka þátt í skipulagðri dagskrá í Glerárkirkju. Tekið er á móti hópum frá þriðjudeginum 29 nóvember og fram til mánudagsins 12. desember.

Helgihald í Glerárkirkju sunnudaginn 13. nóvember

Á sunnudaginn er kristniboðsdagurinn.  Kl. 11:00 verður messa í Glerárkirkju samkvæmt venju. Sr. Guðmundur Guðmundsson þjónar, Karl Jónas Gíslason kristniboði prédikar og segir frá starfi kristniboðsins. Á sama tíma er barnastarf í safnaðarheimilinu, sameiginlegt upphaf.  Kl. 20:00 er kvöldguðsþjónusta með krossbandinu. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir þjónar.  Allir velkomnir.

Frásögn af umræðukvöldi

Þessar vikurnar stendur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi fyrir samræðukvöldum um trúna á Krist, guðspjöllin og nútímann. Til grundvallar umræðunni liggur bók Joseph Ratzinger „Jesús frá Nasaret“. Síðasta miðvikudagskvöld fór sjötta umræðukvöldið fram. Á vef prófastsdæmisins er sagt lítillega frá kvöldinu. Lesa áfram á vef prófastsdæmisins.

Af tveggja kvenna tali sr. Örnu og Kristínar Ástgeirs

Á vef prófastsdæmisins má nú lesa stutta samantekt af tveggja kvenna tali þeirra Kristínar Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, og sr. Örnu Ýrr Sigurðardóttur, prests í Glerárkirkju, um jafnrétti, menningu og samfélag. Lesa frétt á vef prófastsdæmisins.

Vel heppnað TTT-mót á Ólafsfirði

Æskulýðssamband kirkjunnar í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, í samstarfi við KFUM og KFUK á Norðurlandi stóð fyrir helgarsamveru undir yfirskriftinni "Guð elskar glaðan gjafara" dagana 5. og 6. nóvember síðastliðinn. Gist var í grunnskólanum á Ólafsfirði og fór dagskráin fram víða um bæinn. Var það mál manna að Ólafsfirðingar hefðu tekið afskaplega vel á móti hópnum. Meðal stjórnenda á mótinu voru sr. Sigríður Munda Jónsdóttir, sr. Guðmundur Guðmundsson, Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju og Jóhann H. Þorsteinsson, sviðsstjóri æskulýðsstarfs KFUM og KFUK. Skoða myndir frá samverunni. Skoða frétt á www.625.is.