16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Fjöldi aðila á Akureyri, þar á meðal Jafnréttisstofa, Akureyrarbær, Aflið, Akureyrarkirkja, Amnesty, Glerárkirkja, Menntaskólinn á Akureyri, Háskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Zonta konur og fleiri standa að dagskrá í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Dagskráin er að þessu sinni undir yfirskriftinni "Heimilisfriður - Heimsfriður". Boðið verður upp á kvikmyndasýningu í Sambíóum á Akureyri 27. nóvember, málþing á Amtsbókasafninu 29. nóvember, ljósagöngu frá Akureyrarkirkju 6. desember og mannréttindadag í versluninni Flóru 8. desember.

„Heimilisfriður – Heimsfriður“


 

Þriðjudagur 27. nóvember          Kvikmyndasýning í Sambíói kl. 18.

Sýnd verður margverðlaunuð bosnísk bíómynd um afleiðingar ofbeldis.

Fimmtudagur 29. nóvember       Málþing um heimilisofbeldi á Amtsbókasafninu kl. 17.

Frummælendur frá Kvennaathvarfinu, Sýslumannskrifstofunni á Akureyri, Háskólanum á Akureyri og Fjölskyldudeild. Fundarstjórn Tryggvi Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi

Fimmtudagur 6. desember         Ljósaganga frá Akureyrarkirkju kl. 16:30

Samstaða á Ráðhústorgi gegn kynbundnu ofbeldi og ljóðalestur Svanfríðar Larsen.

Laugardagur 8. desember           Mannréttindadagur í versluninni Flóru kl. 13-15

Amnesty-bréfamaraþon og upplestur  Jokku Vulkan.


Nánar má fræðast um átakið á vef Mannréttindaskrifstofu Íslands www.humanrights.is

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Þann 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur . Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.

Kynbundið ofbeldi er ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis hér á landi sem og annars staðar. Hundruð kvenna leita árlega til Neyðarmóttöku, Stígamóta og Kvennaathvarfsins vegna nauðgana og annars ofbeldis af hendi karla. Kynbundið ofbeldi lýsir sér í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðisáreitni og annars konar líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og stúlkum inni á heimilum þeirra sem utan.