Upplýsingaskilti við minnisvarða um sr. Friðrik endurnýjað

Í landi Háls í Svarfaðardal stendur minnismerki um sr. Friðrik Friðriksson. Á dögunum var skilti með upplýsingum um ævi og störf sr. Friðriks, endurnýjað.

Minnisvarðinn sem um getur var afhjúpaður sunnudaginn 10. september 1995 að viðstöddu fjölmenni. Það var Guðrún Þorsteinsdóttir, þá húsfreyja á Hálsi í Svarfaðardal sem afhjúpaði minnisvarðann. Séra Friðrik Friðriksson fæddist að Hálsi í Svarfaðardal 25. maí 1868 og lést í Reykjavík 9. mars 1961. Foreldrar hans voru Guðrún Pálsdóttir og Friðrik Pétursson, smiður og skipstjóri. Árið 1899 stofnaði Friðrik KFUM og KFUK í Reykjavík.

Það voru ábúendur á Hálsi sem létu í té landrými fyrir minnisvarðann, en allar sóknarnefndir í Dalvíkurprestakalli sem og Dalvíkurbær, Svarfaðardalshreppur, Sparisjóður Svarfdæla, Eyjafjarðarprófastdæmi og Landssamband KFUM og KFUK studdu við gerð minnisvarðans. Sjálfur steinninn er tekinn úr Hálslandi en lágmyndina gerði Jónas S. Jakobsson, myndhöggvari.

Það var svo í tilefni af því að 25. maí 1997 voru 130 ár liðin frá fæðingu sr. Friðriks að Friðrik Magnússon þá bóndi á Hálsi afhjúpaði söguskilti um sr. Friðrik. Það voru áhugamenn um sögu sr. Friðriks sem stóðu fyrir því að þetta upplýsingaskilti við minnisvarðann var sett upp. Þar koma fram ágrip af ævi og störfum sr. Friðriks. Spjaldið með textanum á því upplýsingaskilti var orðið ill-læsilegt sökum veðrunar og því hefur það nú verið endurnýjað.

Smellið hér til að skoða fleiri myndir.