Kirkjan hörfar

Þýski fréttavefurinn welt.de birti fyrir tveimur dögum áhugaverða grein sem ber heitið „Die Kirche räumt sich selbst aus dem Weg.“ Þar fjallar blaðamaðurinn Dankwart Guratzsch um þá breytingu sem hefur orðið í samfélaginu eða öllu heldur í viðhorfi kirkjunnar í gegnum tíðina. Hann byrjar á því að minna á að sú hafi verið tíðin að einræðisherrar eins og Stalín hafi þvingað trúfélög til þess að láta heilagar byggingar af hendi. Í dag taki trú og kirkjubyggingar sífellt minna pláss í þjóðfélaginu.

Hann spyr hvort að kirkjunni sé ætlað rými í skipulagi nútímans og hvort að kirkjan ætli sér að vera sjáanleg. Þannig sé staðan sú í Stuttgart þar sem verið er að byggja nýja miðborg. 12.000 íbúar munu flytja þangað, risastórar verslunarmiðstöðvar eru í byggingu en engin kirkja. Spyrja má hvort að innkaupin séu hinn nýi Guð? Sama sagan sé upp í Hamborg þar sem einnig er verið að byggja nýtt hverfi í miðborginni, einnig fyrir um 12.000 íbúa. Þar er ekki gert ráð fyrir kirkju en þó hafi 19 kirkjur tekið sig saman og opnað bænarými með 30 stólum á neðstu hæð í stórri skrifstofubyggingu. Kirkjuklukku hafi meira að segja verið komið fyrir á toppi skrifstofubyggingarinnar, en hún sé svo vanmáttug að lítið heyrist í henni.

Og fréttamaðurinn spyr hvort að kirkjan hafi ákveðið að hörfa. Hann telur brýnt að þessi spurning sé rædd, hvert sem hann líti sjái hann byggingar sem nú hýsi veitingastaði, íbúðir eða jafnvel skemmtistaði , banka og fleira en þessar byggingar hafi eitt sinn verið kirkjur. Þetta setur hann í samhengi við þá staðreynd að Napóleon og Stalín breyttu heilögum byggingum til dæmis í hesthús og sundlaugar. Hér sé hins vegar mikilvægt að hafa í huga að þeir hafi fylgt ákveðnu markmiði, viljað útrýma trúarbrögðum og hræða þau sem aðhylltust kristna trú, allt í stíl við kenningar eins og þær frá Karl Marx um að trúarbrögð væru opíum fyrir fólkið.

Í dag þurfi engan einræðisherra meir, í dag þurfi engan hræðsluáróður gegn trúarbrögðum, kirkjan sjái nú sjálf um að útrýma sér. Rökin séu fengin úr hagfræðinni, útgjöld séu of mikil miðað við notkun, sífellt fleiri skrái sig úr kirkjunni, það vanti presta. Áhugavert sé einnig hvernig hugtakanotkun hefur breyst hjá þeim sem stjórna í kirkjunum. Það sem áður voru heilagar kirkjur, staðir tilbeiðslunnar eru nú aðeins fasteignir.

Greinina má lesa í heild sinni á þýsku á vef welt.de.