Fréttir

Kór Glerárkirkju

Fimmtudaginn 2. september hófst vetrarstarf Kórs Glerárkirkju. Í kórnum eru nú starfandi fjörutíu félagar og stjórnandi hans er Valmar Väljaots. Kór Glerárkirkju er blandaður kór sem hefur það að aðalmarkmiði að syngja við helgihaldið í Glerárkirkju. Framundan hjá kórnum er þátttaka í Kórahátíð í Hofi, hinu nýja og glæsilega menningarhúsi  okkar Akureyringa og er sú hátíð 23. október næstkomandi.

Glerbrot stefnir á landsmót

Æskulýðsfélagið Glerbrot (9. og 10. bekkur) heldur fundi reglulega á neðri hæð kirkjunnar alla þriðjudaga kl. 20:00. Þau hafa nú tekið ákvörðun um að stefna á landsmót æskulýðsfélaga sem að þessu sinni verður haldið á Akureyri. Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar er haldið árlega og er einn stærsti viðburður í unglingastarfi kirkjunnar. Yfirskrift mótsins í ár er ,,Frelsum þrælabörn á Indlandi" - ,,Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér" (Matt 25:40). Með þessari yfirskrift vill ÆSKÞ sem stendur á bak við mótið minna á að við erum öll börn Guðs og verkamenn hans hér á jörðu og að okkur ber að gæta systkina okkar, hvar sem þau eru í heiminum. Þau sem ætla með, þurfa að vera virk í Glerbroti og skrá sig fyrir 1. október. Skráningargjald (óafturkræft) er kr. 5.000. Upplýsingar um mótsgjald má fá á fundum Glerbrots, en það eru Stefanía Ósk og Samúel Örn sem halda utan um Glerbrot í vetur.  

Sunnudagaskólinn hefst 19. september

Sunnudagaskólinn í Glerárkirkju hefst 19. september. Lögð verður áhersla á hreyfisöngva, sagðar sögur og brúðuleikhúsið erá sínum stað. Það eru þau Dagný, Kolbrá, Lena, Linda, Ragnheiður, Stefanía og Andri sem skipta með sér umsjóninni í vetur.

12 spora fundir

12 spora fundir í Glerárkirkju verða á miðvikudögum kl. 20:00 í vetur. Fyrsti fundur verður miðvikudagskvöldið 15. september. Fyrstu þrjú miðvikudagskvöldin eru svokölluð opin kvöld þar sem öllum gefst kostur á að kynna sér starfið. Frá og með fjórða kvöldi geta engir nýir bæst í hópinn. Nánar má fræðast um Tólf spora starfið á vefsíðunni Vinir í bata  eða með því að hringja í umsjónarfólk starfsins í Glerárkirkju, þær Heiðrúnu (862-4703), Önnu (699-7627) eða Ingu (461-1142) á milli kl. 18:00 og 20:00. Tólf spora er mannrækt sem er öllum opin og hentar þeim sem í einlægni vilja dýpka sínar tilfinningar og öðlast betri líðan og meiri lífsfyllingu.

Foreldramorgnar alla fimmyudaga kl. 10:00

Foreldramorgnar eru alla fimmtudagsmorgna í safnaðarsal Glerárkirkju frá 10:00 til 12:00. Boðið er upp á léttan morgunverð á vægu verði. Foreldramorgunn er tilvalinn staður fyrir foreldra sem eru heima fyrir hádegi með ung börn. Þar gefst tækifæri til að kynnast öðrum foreldrum og hjálpa barninu að taka sín fyrstu skref í leik við jafnaldra sína. Öðru hvoru er boðið upp á fræðslu. Í mars 2011 höldum við upp á 20 ára afmæli foreldramorgna í Glerárkirkju sem hafa gengt nokkrum nöfnum í gegnum tíðina. Oftast er talað um mömmumorgna (enda flest sem mæta mömmur) en til að gæta jafnræðis þá veljum við nú að tala um foreldramorgna (því okkur langar að sjá pabbana). Til gaman má geta að á tímabili hétu þeir kynslóðamorgnar því að nokkrar ömmur voru duglegar að mæta með barnabörnin (þær eru velkomnar sem fyrr, afar líka)!

Alfanámskeiðin hefjast á ný!

Alfanámskeið verða haldin í haust í samstarfi við KFUM og KFUK á Akureyri. Kynningarkvöld verður miðvikudaginn 8. sept. kl. 20. Það er byrjendanámskeiðið þar sem glímt er við spurninguna: Hver er tilgangur lífsins. Þau Dögg Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur, og Fjalar Freyr Einarsson, grunnskólakennari, leiða það. Þá verður samhliða boðið upp framhaldsnámskeið þar sem verður tekist á við kristna siðfræði: Tíu boðorð á 21. öld. Sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, og Bjarni Guðleifsson, líffræðingur, munu leiða þann hluta. Allir eru velkomnir á kynningarkvöldið 8. sept. kl. 20. Sjá nánar á vef Eyjafjarðarprófastsdæmis.

Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum

Árið 2003 gaf íslenska Þjóðkirkjan út bæklinginn ,,Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum". Í pistli dagsins á trú.is minnir Pétur Björgvin djákni á þennan bækling og hvetur okkur öll í kirkjunni til að gera enn betur. Lesa pistil á  Lesa pistil á trú.is.

Haustfundur starfsfólks og sjálfboðaliða

Haustfundur starfsfólks og sjálfboðaliða í Glerárkirkju verður mánudagskvöldið 13. september kl. 19:00 til 20:00. Þar mæta öll þau sem gegna ábyrgðarstöðum í hópum og starfi í Glerárkirkju, s.s. stjórn foreldrafélags Æskulýðskórsins, stjórn Kórs Glerárkirkju, umsjónarfólk 12 spora námskeiðanna, starfsfólk og sjálfboðaliðar í æskulýðsstarfinu, einfaldlega allir til skrafs og ráðagerða en þó fyrst og fremst til að efla kynnin innbyrðis. Og að sjálfsögðu verður hópmyndatakan til staðar (munið hvað var gaman síðast)!  

Skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk Glerárkirkju

Skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk Glerárkirkju verður haldið mánudaginn 13. september frá 17:00 til 22:00 í safnaðarsal Glerárkirkju. Farið verður yfir endurlífgun, viðbrögð við slysum, óhöppum og veikindum sem geta komið upp í kirkjustarfinu. Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Anna Sigrún Rafnsdóttir, frá Rauða Krossi Íslands.  

Námskeiðið Verndarar Barnanna í Glerárkirkju

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Glerárkirkju munu sækja námskeiðið Verndarar Barnanna þriðjudaginn 14. september næstkomandi í Glerárkirkju frá 17:00 til 21:30. Umsjón með námskeiðinu hefur Gréta Kristjánsdóttir forvarnafulltrúi Akureyrarbæjar. Námskeiðið Verndarar barna boðar byltingu í fræðslu, forvörnum og viðbrögðum við kynferðislegri misnotkun á börnum. Markmiðið er að veita fullorðnu fólki öfluga fræðslu og markvissa þjálfun í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðislegri misnotkun barna af hugrekki og ábyrgð. Námsefnið Verndarar barna er sérhannað fyrir stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem þjóna börnum og unglingum – sem og einstaklinga sem bera ábyrgð á umönnun og verndun barna; sínum eigin eða annarra.  Efnið byggist á 7 skrefa bæklingnum til verndar börnunum okkar.  Innifalið í verði er verkefnabók og stefnumótunarupplýsingar fyrir félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki sem vinna með börnum. Námsefnið er íslensku og fræðslumyndbandið er á ensku en með íslenskum texta. Á Íslandi eru ein af hverjum fimm stúlkum og einn á móti hverjum tíu strákum sem verða fyrir kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur.