Fréttir

Kirkjuskólinn hefst 14. september

Kirkjuskólinn, starf fyrir grunnskólabörn úr fyrsta, öðrum, þriðja og fjórða bekk verður á mánudögum í Glerárkirkju kl. 16:30 til 17:30. Fyrsta samveran verður 14. september. Stefnt er að starfi í tveimur aldurshópum, annars vegar yngri hóp fyrir börn úr fyrsta og öðrum bekk, hins vegar eldri hóp fyrir börn úr öðrum og þriðja bekk. Kirkjuskólinn er framhald af sunnudagaskólastarfinu og gefur þannig börnum sem hafa sótt sunnudagaskólann eða sækja hann enn að hittast einnig á virkum dögum. Hver stund byrjar með helgistund í kirkjunni, að henni lokinni er farið í ýmsa leiki og fleira til gamans gert. Lögð er áhersla á að börnin læri nýja biblíusögu hvern dag.

Jafnréttisumræðan mál kynjanna

,,Kirkjan vill með guðsþjónustu sinni, fræðslu og kærleiksþjónustu vera tákn, verkfæri og farvegur fyrir samfélagið við Krist þar sem manngildi og jafnrétti allra jarðar barna er í hávegum haft, minnug þess að Gullna Reglan og Litla Biblían, orð Jesú, fela í sér jafnréttishugsjón." skrifar Pétur Björgvin djákni í Glerárkirkju m.a. í pistli dagsins á trú.is Lesa pistil.

Sóknargjöld lækka

Samkvæmt lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum nr. 70/2009 lækka sóknargjöld þó nokkuð en fyrstu sex mánuði ársins 2009 voru þau 855 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling eldri en 16 ára. Þann 1. júlí síðastliðinn lækkuðu þau í 811 kr. og þann 1. janúar 2010 munu þau lækka enn frekar, eða í 767 kr. á hvern einstakling eldri en 16 ára.

Fréttabréf Póllandsfara

6 ungmenni úr Glerárkirkju munu taka þátt í ungmennasamskiptaverkefni í Póllandi í ágúst. Fararstjóri er Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni. Fréttabréf með dagskrá og ýmsum upplýsingum er nú aðgengilegt á netinu.

Hvíldardvöl fyrir ekkjur og ekkla á Löngumýri

Fræðslusetur kirkjunnar á Löngumýri í Skagafirði í samvinnu við Krabbameinsfélag Skagafjarðar og Dug félag aðstandenda krabbameinssjúkra í Skagafirði bjóða til hvíldardvalar fyrir þá sem misst hafa maka sinn, dagana 12. - 17. júlí 2009. Sjá nánar á vef Eyjafjarðarprófastsdæmis.

Helgihald sunnudaginn 28. júní

Kvöldmessa verður í Glerárkirkju kl. 20:30. Félagar úr vélhjólaklúbbnum ,,Trúboðarnir" lesa ritningarlestra. Sr. Gunnar Sigurjónsson flytur hugleiðingu. Félagar úr Kór Glerárkirkju syngja og leiða söng. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar fyrir altari. Organisti er Hjörtur Steinbergsson. Kaffiveitingar í safnaðarsal að athöfn lokinni. Allir velkomnir.

Helgihald sunnudaginn 21. júní

Messað er í Glerárkirkju sunnudaginn 21. júní kl. 20.30. Prestur er sr. Guðmundur Guðmundsson. Félagar úr Kór Glerárkirkju syngja undir stjórn Hjartar Steinbergssonar organista. Sungnir verða sálmar nr. 593, 750, 354 og 469.

Hvítasunnuhátíðin í Glerárkirkju

Fermingarmessa verður laugardaginn 30. maí kl. 13:30. Sr. Gunnlauguar Garðarsson og sr. Arnaldur Bárðarson þjóna. Félagar úr Kór Glerárkirkju leiða söng. Organisti: Hjörtur Steinbergsson. Á Hvítasunnudag, sunnudaginn 31. maí kl. 11:00 verður hátíðarmessa kl. 11:00. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar. Einsöngur: Óskar Pétursson tenór. Kór Glerárkirkju syngur. Organisti: Hjörtur Steinbergsson. Vinsamlegast athugið að reglubundið vikustarf kirkjunnar utan helgihalds um helgar er nú komið í sumarfrí.

Hvernig sérðu hina?

Á vef Þjóðkirkjunnar er að finna viðtal við Pétur Björgvin Þorsteinsson djákna í Glerárkirkju þar sem hann segir frá nýútkominni bók sinni: ,,Við þurfum að kenna unga fólkinu okkar að takast á við fjölbreytilegan veruleika, hjálpa þeim að verða forvitin og læra að takast á við það sem er framandi." Sjá nánar á vef Þjóðkirkjunnar.

Myndir frá vorhátíð

Vorhátíð Glerárkirkju var haldin í dag og þótti þeim sem tjáðu sig við starfsfólk kirkjunnar hún hafa verið einstaklega vel heppnuð. Reikna má með að jafnvel 500 manns hafi verið á kirkjulóðinni þegar mest lét. Á http://www.flickr.com/photos/glerarkirkja/ er hægt að skoða nokkrar myndir af hátíðinni.