Fréttir

Vantar gistingu fyrir 10 manns

Framundan er þemavika fermingarbarna í Glerárkirkju. Til að gera vikuna sem skemmtilegasta hefur Glerárkirkja fengið til liðs við sig 18 manna hóp fólks milli tvítugs og þrítugs sem sækir biblíuskóla á vegum Youth with a Mission, en þau eru nú stödd í Íslandi í starfsþjálfun. Hópurinn mun dvelja á Akureyri frá mánudeginum 21. janúar til og með sunnudagsins 27. janúar. Enn vantar gistipláss fyrir 10 af 18, en leitað er eftir gestgjöfum sem geta boðið upp á rúm (má vera sófi á holi eða í stofu, jafnvel dýna á gólfi) og gefið viðkomandi morgunmat. Allar aðrar máltíðir verða sameiginlegar í kirkjunni fyrir hópinn. Nánari upplýsingar gefur Pétur Björgvin í síma 864 8451 eða á netfangið petur[hjá]glerarkirkja.is.

Ljósmynda- og handverkssýning

Þessa dagana stendur yfir sýning á verkum handverkskonunnar og ljósmyndanemans Díönu Bryndísar í Glerárkirkju. Díana Bryndís, einnig þekkt sem Mamma Dreki, leggur stund á nám í ljósmyndun við New York Institute of Photography en er búsett í dag ásamt fjölskyldu sinni norðan ár á Akureyri. Sýning hennar var opnuð á afmælishátíð Glerárkirkju í desember og stendur sýningin fram í febrúar. Sýningin er opin alla virka daga frá 11:00 til 16:00 sem og þegar viðburðir eru í kirkjunni.

Foreldramorgnar hefjast aftur þriðjudaginn 15. janúar

Foreldramorgnar hefjast aftur þriðjudaginn 15. janúar 2013. Þeir verða alla þriðjudaga á vorönn frá kl. 10:00 til 12:00. Umsjón með foreldramorgnunum hefur sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir. Á þessum fyrsta foreldramorgni verður skyndihjálparfræðsla á dagskránni og hvetjum við foreldra ungra barna til að fjölmenna.

Drög að dagskrá vorannar

Hér á vef kirkjunnar má nú nálgast pdf-skjal sem inniheldur drög að dagskrá helgihalds á vorönn í Glerárkirkju og er dagskráin birt með fyrirvara um breytingar/prentvillur.

UD-Glerá - Foreldrafundur

Þriðjudagskvöldið 8. janúar kl. 20:00 verður foreldrafundur í sal KFUM og KFUK í Sunnuhlíð. Fundurinn er ætlaður foreldrum og unglingum sem hafa hug á að sækja Evrópuhátíð KFUM og KFUK í Prag í ágúst 2013. Forskráningu á hátíðina lýkur 25. janúar. Þeir sem skrá sig seinna þurfa að reikna með því að greiða hærra verð fyrir þátttöku í hátíðinni. Ferðin á hátíðina er sameiginlegt verkefni KFUM og KFUK á Akureyri og Glerárkirkju.

Þemavika fermingarbarna - upphaf fermingarfræðslu á vorönn

Fermingarfræðslan á vorönn hefst með þemaviku fermingarbarna dagana 22. til 27. janúar. Þá viku mæta börnin í fermingartíma samkvæmt stundarskrá en auk þess er fjölbreytt dagskrá í boði síðdegis þriðjudaginn 22. janúar, miðvikudaginn 23. janúar og laugardaginn 26. janúar. Þemavikan endar með virkri þátttöku fermingarbarna í messu safnaðarins sunnudaginn 27. janúar kl. 11:00. Gestir þemavikunnar að þessu sinni er 18 manna erlendur hópur ungs fólks. Þessa dagana er verið að leita að gestgjöfum til að hýsa þau. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Pétur djákna í síma 864 8451 eða á netfangið petur@glerarkirkja.is.

Fyrirbænastund, miðvikudaginn 9. janúar

Fyrirbænastund verður í Glerárkirkju miðvikudaginn 9. janúar kl. 12:00. Umsjón með stundinni hefur Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni en Valmar Väljaots sér um tónlistina. Að bænastund lokinni er boðið upp á léttan hádegisverð í safnaðarsal á vægu verði. Allir hjartanlega velkomnir. Tekið er á móti fyrirbænarefnum á netfangið petur@glerarkirkja.is eða í síma 464 8807.

Æfingar barna- og æskulýðskóra hefjast 9. janúar

Gleði og kraftmikill söngur hefur einkennt kórastarfið hjá Marínu og Rósu í haust. Um 40 börn eru skráð í Barnakór Glerárkirkju sem æfir alla miðvikudaga kl. 15:30 til 16:30. Þá hefur hópurinn líka stækkað sem mætir á æfingar Æskulýðskórs Glerárkirkju, þær æfingar eru einnig á miðvikudögum en hefjast kl. 16:30. Það er velkomið að bætast í hópinn, skráning fer fram á æfingunum sjálfum. Það kostar ekkert að vera með í kór í Glerárkirkju!

Þrettándaakademían í Skálholti

Árlega er boðað til Þrettánduakademíu í Skálholti. Í ár hefst hún mánudaginn 7. janúar og stendur fram á miðvikudaginn 9. janúar. Akademían er símenntunarnámskeið presta og guðfræðinga sem nú er haldið í 25. sinn. Að þessu sinni verður fjallað um efnið að verða og vera prestur og akademían verður eins konar tímaferðalag í gegnum reynslu og skoðanir guðfræðinga og presta, allt frá nýútskrifuðum guðfræðingum til presta sem störfuðu um áratuga skeið í kirkjunni.

Biskup: Vegið að öryggi þjóðarinnar

Í nýárspredikun sinni í Dómkirkjunni í Reykjavík, lagði biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir áherslu á mikilvægi trúarinnar fyrir alla. Hún ræddi efnahagsvanda heimsins og sagði það umhugsunarefni hvers vegna svo hafi farið í hinum vestræna heimi allsnægtanna. Þá gerði hún vanda Landspítalans að umtalsefni og sagðist telja stöðuna það alvarlega að vegið væri að öryggi þjóðarinnar.