Fréttir

Erindi dr. Gunnlaugs A. Jónssonar komið á vefinn

Á fræðslukvöldi 7. nóvember sl. flutti dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor í Gamla testamentisfræðum erindi um Trúfélagið í ljósi Davíðssálma, afar áhugavert þar sem hann skýrði það sem er sameiginlegt og greinir á milli Gyðingdóms og kristni.

Jón Bjarnason um kirkjustarfið

„Komið er að þolmörkum í kirkjustarfi víða um land vegna niðurskurðar fjárveitinga. Staða, hlutverk og ábyrgð kirkjunnar og fjölþætt starf á hennar vegum er með þeim hætti að við hljótum að leggja við hlustir og bregðast við þegar hún kallar á hjálp, ekki sjálfrar sín vegna heldur fyrir okkur, mig og þig." segir Jón Bjarnason í grein um kirkjustarfið í Morgunblaðinu í dag.

Umræða á Alþingi um fjármál sóknarnefnda

Vakin er athygli á því að í opnum fyrirspurnartíma á Alþingi, þriðjudaginn 13. nóvember kl. 13:30 mun innanríkisráðherra, Ögmundur Jónsson, bregðast við (kl. 14:00) fyrirspurn frá Birgi Ármannssyni um stöðu og fjármál sóknarnefnda í ljósi niðurskurðar hin síðustu ár.

Fræðslukvöld um kristna trú og kynin með Huldu Hrönn M. Helgadóttur

Næstkomandi miðvikudag 14. nóvember verður sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir fyrirlesara á fræðslukvöldi kl. 20. Hún mun fjalla um Kynin: Kristin trú og kyn. Spurningarnar sem hún mun fást við eru: Hver er boðskapur kristni inn í umræðuna um kyn í dag? Hafði eða hefur meinlætalífið tilgang og innihald? Hvaða hlutverki gegnir hjónabandið í kristinni trú? Fræðslukvöldin hefjast kl. 20, boðið er upp á veitingar í hléi en eftir þær eru umræður um efni kvöldsins.

Hugmyndir um sameiningar prófastsdæma og prestakalla

Skipulagsmál voru fyrirferðarmikil á kirkjuþingi í gær sunnudag þegar tekin voru til fyrri umræðu mál er varða sameiningar prófastsdæma og sameiningar prestakalla, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Samantekt þingmála er að finna á vef kirkjuþings. Þar er einnig að finna upptökur af umræðu um þau mál sem farið hafa í fyrstu umræðu.

Saga kirkju og þjóðar ekki auðveldlega slitin í sundur

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði kirkjuþing við setningu þess í morgun. Sagði Ögmundur sögu kirkju og þjóðar ekki auðveldlega slitna í sundur. Kirkjan, óttalaus, staðföst og sterk, væri sú kirkja sem þjóðin hefði ákveðið að ætti að vera með okkur um ókomna framtíð. Kirkjan væri eign þjóðarinnar, þjóðin yrði að umbera hana sem og kirkjan þjóðina, líkt og veðurfræðingar innanríkisráðherra! Við sviptivinda í þjóðmálum væri ekki leiðin að höggva á rótina heldur hlúa að henni.

Kristniboðsdagurinn - Helgihald í Glerárkirkju 11. nóvember

Sunnudagurinn 11. nóvember er helgaður kristniboðinu. Af því tilefni fáum við í Glerárkirkju góðan gest, Ragnar Gunnarsson frá SÍK kemur í heimsókn, prédikar í messu og segir sunnudagaskólabörnunum sögur af kristniboðsakrinum. Að venju hefst messan klukkan ellefu og ganga börnin inn í safnaðarsalinn til sunnudagaskóla eftir að hafa tekið þátt í upphafi messunnar. Það er sr. Guðmundur Guðmundsson sem leiðir helgihaldið, Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots organista.

Vel heppnuðu Kirkjuþingi unga fólksins lokið

Kirkjuþing unga fólksins fór fram í Grensáskirkju í dag. Þingið sóttu fulltrúar unga fólksins úr söfnuðum þjóðkirkjunnar alls staðar af landinu, þeirra á meðal Guðrún Ösp Erlingsdóttir (mynd) sem tekur virkan þátt í æskulýðsstarfi Glerárkirkju. Þingið samþykkti meðal annars ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að leiðrétta niðurskurð á sóknargjöldum og skorað á kirkjuna að standa vörð um æskulýðsstarf sem hafi orðið illa fyrir niðurskurðarhnífnum.

Vatn fyrir íbúa í Malaví, Úganda og Eþíópíu

Fermingarbörn Glerárkirkju ganga í hús þriðjudaginn 6. nóvember síðdegis og fram á kvöld til að safna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Malaví, Úganda og Eþíópíu. Þetta er í 14. sinn sem söfnunin er haldin. Í fyrra söfnuðu fermingarbörn 8 milljónum króna. En samtals hafa þau í gegnum árin safnað um 75 milljónum króna til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar. Við í Glerárkirkju gleðjumst yfir því að vera ein af 65 sóknum á landinu sem taka þátt í þessu söfnunarverkefni og vonumst til þess að íbúar sóknarinnar taki vel á móti fermingarbörnunum eins og undanfarin ár. Nánari upplýsingar gefur Pétur Björgvin djákni í síma 864 8451.

Nýtt barnastarf - Litli leikklúbburinn

Næstkomandi þriðjudag 6. nóvember tekur Litli leikklúbburinn til starfa. Hann er fyrir alla krakka í 2. bekk og upp úr. Hugmyndin er að skemmta sér við það að undirbúa jólaleikrit. Fundir verða á þriðjudögum kl. 16:30 - 17:30 á neðri hæð Glerárkirkju. Umsjón með starfinu hafa þær Guðrún Ösp í síma 845 9867 og Kristín Helga í síma 698 4415.