Vatn fyrir íbúa í Malaví, Úganda og Eþíópíu

Fermingarbörn Glerárkirkju ganga í hús þriðjudaginn 6. nóvember síðdegis og fram á kvöld til að safna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Malaví, Úganda og Eþíópíu. Þetta er í 14. sinn sem söfnunin er haldin. Í fyrra söfnuðu fermingarbörn 8 milljónum króna. En samtals hafa þau í gegnum árin safnað um 75 milljónum króna til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar. Við í Glerárkirkju gleðjumst yfir því að vera ein af 65 sóknum á landinu sem taka þátt í þessu söfnunarverkefni og vonumst til þess að íbúar sóknarinnar taki vel á móti fermingarbörnunum eins og undanfarin ár. Nánari upplýsingar gefur Pétur Björgvin djákni í síma 864 8451.

Fermingarbörnin ganga í hús tvö og tvö saman eða með foreldri og biðja um frjáls framlög í innsiglaðan bauk sem þau hafa meðferðis. Baukunum skila þau svo að söfnun lokinni í Glerárkirkju þar sem Pétur Björgvin og Jón Oddgeir Guðmundsson starfsmaður Hjálparstarfs kirkjunnar og kirkjuvörður í Glerárkirkju taka á móti baukunum. Krökkunum er boðið upp á súkkulaðiköku og djús.

Í grein á vísir.is greina Innocent Kaphinde og Donia Phiri sem bæði eru frá Malaví frá því hvernig brunnur með hreinu vatni gjörbreytir aðstæðum og bætt lífið á svo margan hátt. Þau hafa fengið að upplifa hvernig hreint vatn bætir heilsuna, ekki síst fyrir yngstu börnin, og allir hafa meiri orku og getu til að sinna störfum og daglegum verkum. Þar sem það eru konur og stúlkur sem oftast sækja vatn breytir brunnurinn enn meira fyrir þær en aðra, ekki bara að þær fái betri heilsu heldur geta stúlkur nú þar sem það tekur ekki svo langan tíma að sækja vatn í næsta brunn líka farið í skóla eins og strákarnir. Áður fór svo mikill tími í að sækja vatn að þær misstu af skólanum.

Foreldrabréf vegna söfnunar fyrir hjálparstarfið 6. nóvember er að finna hér.