24.09.2012
Á mánudögum er boðið upp á gönguhóp í Glerárkirkju. Lagt er af stað frá Glerárkirkju kl. 16:30 og gengið upp í Lögmannshlíðarkirkju. Þar gefst tækifæri til að fá sér heitan drykk en einnig er sest niður í kirkjunni og höfð stutt helgistund. Öll þau sem áhuga hafa eru velkomin í gönguhópinn. Áætlað er að hópurinn sé kominn til baka að Glerárkirkju kl. 18:30. Umsjón með gönguhópnum hafa hjónin Regína B. og Pétur Björgvin Þorsteinsson. Nánari upplýsingar gefur Pétur í síma 864 8451.
24.09.2012
Marína Ósk Þórólfsdóttir sem stjórnar yngri kórum Glerárkirkju er fjölhæf tónlistarkona. Þetta árið kemur hún meðal annars að plötunni "Latínudeildin" þar sem hún syngur lagið "Á fyrsta reit" Okkur hér í Glerárkirkju þykir vænt um að geta bent á þessa plötu um leið og við bendum á Youtube upptöku af laginu sem er vel til þess fallið fyrir foreldra barnanna í kórunum sem og aðra til að kynnast söngkonunni Marínu Ósk aðeins betur.
23.09.2012
Unga fólkið sem er í framvarðarsveitinni í sunnudagaskólastarfinu í Glerárkirkju sótti í dag, sunnudaginn 23. september, námskeið þar sem Magnea Sverrisdóttir djákni leiðbeindi þeim um ýmsa þætti er snúa að sunnudagaskólastarfinu. Og þar er í mörg horn að líta: Hvernig tökum við á móti krökkunum, hvernig tölum við, hvaða framkomu veljum við, hvað látum við brúðurnar gera og þá hvernig, og svona mætti lengi telja. Námskeiðið er hluti af stærri námskeiðaröð sem Glerárkirkja stendur fyrir að vanda á haustin. Dæmi um önnur námskeið má nefna eldvarnarnámskeið og skyndihjálparnámskeið.
23.09.2012
Mánudagskvöldin eru tólf spora kvöld í Glerárkirkju. Þau kvöld hittist hópur fólks í safnaðarheimilinu kl. 19:30 til mannræktar. Þessar vikurnar standa yfir opnir kynningarfundir. Öllum er velkomið að taka þátt í kynningarfundunum án þess að skuldbinda sig nokkuð varðandi frekari þátttöku. Það er hópur sjálfboðaliða sem leiðir starfið í anda þeirrar sjálfshjálparvinnu sem býr að baki hugmyndinni um tólf spora starfið.
21.09.2012
Sunnudaginn 23. sept. kl. 20 verður haldin samkoma í félagsheimili KFUM og KFUK Sunnuhlíð. Ræðumaður kvöldsins er sr. Bolli Pétur Bollason en um tónlistina sjá þau Arnar, Sandra, Radek, Helgi og Jóhann. Að samkomu lokinni verður boðið upp á kaffisopa. Komið og njótið þess að eiga saman notalega og uppbyggilega kvöldstund í samfélagi bræðra og systra í Kristi.
21.09.2012
UD-Glerá er heitið á unglingastarfi vetrarins sem er samstarfsverkefni KFUM og KFUK og Glerárkirkju. Aðsóknin á fyrstu tvo fundina hefur verið vægast sagt mjög góð og hlökkum við til að starfa með frábæru teymi unglinga í vetur. Umsjón með starfinu hafa Jóhann H. Þorsteins og Pétur Björgvin. Dagskráin fer fram á fimmtudagskvöldum í félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð. Húsið opnar kl. 19:30. Myndir frá starfinu eru aðgengilegar á Facebook síðu UD-Glerá.
21.09.2012
Forystumenn austfirskra þjóðkirkjusókna ályktuðu um sóknargjöld og komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána á nýliðnu leiðarþingi Austurlandsprófastsdæmis, en slík þing eru haldin um allt land í tengslum við komandi Kirkjuþing. Leiðarþing í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi verða tvö, annars vegar í Glerárkirkju miðvikudagskvöldið 26. september og hins vegar í Bjarnahúsi á Húsavík laugardaginn 29. september kl. 11:00.
20.09.2012
Sunnudaginn 23. september kl. 11:00 er messa og barnastarf í Glerárkirkju. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar, Kór Glerárkirkju leiðir almennan söng. Sameiginlegt upphaf er í messu, en að loknum ritningarlestrum ganga börnin og þeir foreldrar sem það kjósa yfir í sunnudagaskólann sem er í safnaðarheimilinu. Sá háttur er einnig hafður á að í andyri kirkjunnar eru litir, blöð og leikföng þannig að ef þannig stendur á hjá fjölskyldunni þá er velkomið að bíða eftir sunnudagaskólanum í forkirkjunni.
19.09.2012
,,Brátt verður gengið til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá. Þar verður meðal annars spurt um stöðu Þjóðkirkjunnar: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ Flestir hafi skoðanir á stöðu Þjóðkirkjunnar, ekki aðeins í stjórnarskránni heldur í samfélaginu almennt. En ef til vill hafa færri velt því fyrir sér um hvað komandi þjóðaratkvæðagreiðsla um stöðu Þjóðkirkjunnar snýst." skrifar sr. Gunnar Jóhannesson í pistli sem er birtur á trú.is í dag.
19.09.2012
Dr. Hjalti Hugason birtir í gær pistil m.a. á trú.is þar sem hann fjallar um þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskránni og segir m.a.: ,,
Í 62. gr. felast bæði réttindi og skyldur þjóðkirkjunni til handa. Greinin kveður á um að evangeliska lúterska kirkjan skuli njóta stuðnings og verndar ríkisvaldsins „að því leyti“ sem hún er þjóðkirkja. Það var hún svo sannarlega 1874. Fram til þess tíma hafði þjóðinni borðið skylda til að vera lútersk. Með stjórnarskránni var hins vegar innleitt trúfrelsi. Allur þorri þjóðarinnar var þó áfram lúterskur í einhverri merkingu og tilheyrði kirkjunni. Því var hún þjóðkirkja, kirkja þjóðarinnar. Í ákvæðinu fólst aftur á móti ekki að ríkisvaldið skyldi styðja og vernda þessa kirkju vegna þess að hún boðaði réttari trú en aðrar kirkjur. "