Fréttir

Hólahátíð hefst í dag

Hólahátíð hefst formlega í kvöld kl. 20:00 í Auðunarstofu. Þar flytur Ragnheiður Þórsdóttir erindi um vefnað til forna við kljásteinsvefstól sem þar hefur verið settur upp. Hápunktur hátíðarinnar er svo á sunnudag en þá vígir biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, Solveigu Láru Guðmundsdóttur til vígslubiskups á Hólum. Meðal gesta verða sex erlendir biskupar.

Upplýsingaskilti við minnisvarða um sr. Friðrik endurnýjað

Í landi Háls í Svarfaðardal stendur minnismerki um sr. Friðrik Friðriksson. Á dögunum var skilti með upplýsingum um ævi og störf sr. Friðriks, endurnýjað.

Aung San Suu Kyi segir þörf á nýjum aðferðum við sáttargjörð

„Friður, öryggi og sáttargjörð í Myanmar“ var yfirskrift ráðstefnu sem haldin var dagana 2. til 5. ágúst sl. í Myanmar. Að baki ráðstefnunnar stóðu samtök kristinna kirkna í Asíu og samkirkjuráðið í Myanmar. Nóbelsverðlaunahafinn og mannréttindabaráttukonan Aung San Suu Kyi ávarpaði ráðstefnuna og benti á að leita þyrfti einfaldra, en djúpstæðra leiða til að tryggja frið.

Kirkjan hörfar

Þýski fréttavefurinn welt.de birti fyrir tveimur dögum áhugaverða grein sem ber heitið „Die Kirche räumt sich selbst aus dem Weg.“ Þar fjallar blaðamaðurinn Dankwart Guratzsch um þá breytingu sem hefur orðið í samfélaginu eða öllu heldur í viðhorfi kirkjunnar í gegnum tíðina. Hann byrjar á því að minna á að sú hafi verið tíðin að einræðisherrar eins og Stalín hafi þvingað trúfélög til þess að láta heilagar byggingar af hendi. Í dag taki trú og kirkjubyggingar sífellt minna pláss í þjóðfélaginu.

Ferðir fermingarbarna á Hólavatn nálgast

Á morgun, þriðjudaginn 14. ágúst hefjast gistiferðir verðandi fermingarbarna á Hólavatn í Eyjafirði. Minnt er á að nauðsynlegt er að skrá sig. Því fyrr sem fólk skráir sig, þeim mun betur getum við skipulagt ferðirnar. Þessar ferðir eru ekki hluti af formlegri fermingarfræðslu kirkjunnar heldur er um kynningu á æskulýðsstarfi Glerárkirkju að ræða. Skráning stendur yfir á netfangið glerarkirkja@glerarkirkja.is