Fréttir

Æfing hjá Æskulýðskór Glerárkirkju

Æskulýðskór Glerárkirkju hefur nú hafið æfingar aftur að lokna jólafríi og verða æfingar kórsins á fimmtudögum kl. 17:00 í safnaðarheimilinu. Stjórnandi er Marína Ósk Þórólfsdóttir tónlistarkennari. Kórinn er ætlaður börnum í 6. bekk og eldri. Hann kemur fram í fjölskylduguðsþjónustum í Glerárkirkju einu sinni í mánuði, auk ýmissa annarra tækifæra.

Af Þrettánduakademíunni

Í tilefni þess að Þrettánduakademíunni er nýlokið, viljum við í Glerárkirkju benda á pistil sr. Guðrúnar Karlsdóttur á trú.is. Yfirskrift akademíunnar var að þessu sinni Af baráttunni góðu í þjónustu og boðun. Þar flutti Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu sem hann nefndi Kynferðisbrot gegn börnum og samfélagsvitund. Meðal framsögufólks var einnig Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, leikkona, leikskáld og rithöfundur. Hennar erindi bar titilinn: Um kynbundið ofbeldi á mannamáli. Sr. Guðrún Karlsdóttir, prestur í Grafarvogskirkju gerir stuttlega grein fyrir þessum tveimur erindum á trú.is. Þess má geta í þessu samhengi að í um 16 ára skeið hefur sr. Gunnlaugur Garðarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju, setið í undirbúningsnefnd Þrettánduakademíunnar, en hún hefur verið haldin árlega í Skálholti. Lesa pistil Guðrúnar.

Dagskráin framundan í Glerárkirkju

Foreldramorgnar hefjast að nýju fimmtudaginn 12. janúar. Sama dag byrjar æskulýðskórinn aftur æfingar sínar. Barnastarfið og messan er á sínum stað sunnudaginn 15. janúar og barnakórinn byrjar æfingar mánudaginn 16. janúar, nú á nýjum tíma, þ.e. kl. 15:45. Nánar má fræðast um dagskrá vikunnar hér.

Æskulýðsfélagið Glerbrot - dagskrá á vorönn

Um síðustu helgi áttu félagar úr æskulýðsfélagi Glerárkirkju góða daga saman í bústað á Illugastöðum. Meðal annars bjuggu þau til dagskrá fyrir starfið mánuðina janúar, febrúar og mars. Æskulýðsfélagið heitir Glerbrot, en það nafn fékk félagið við stofnun þess haustið 1983. Í vor verður æskulýðsfélagið með félagsfundi á sunnudögum kl. 16.16 og opið kaffihús á þriðjudagskvöldum. Starfið hefst sunnudaginn 15. janúar, þ.e. í sömu viku og fermingarfræðslan sem hefst þriðjudaginn 17. janúar. Félagið er opið krökkum úr áttunda bekk og eldri. - Smellið hér til að skoða dagskrá.

Að ná áttum og sáttum

- Styrkingarnámskeið fyrir þau sem eru fráskilin eða standa í skilnaði. Kynningarfundur verður haldinn í Safnaðarheimili Glerárkirkju, þriðjudaginn 10. janúar 2012 kl. 20. Allir velkomnir.

Messa kl. 11:00 - Sunnudagaskóli á sama tíma

Í dag, sunnudaginn 8. janúar er messa í Glerárkirkju kl. 11:00. Sunnudagaskóli á sama tíma, sameiginlegt upphaf í messu.

Samkirkjuleg bænavika

Sigur Krists umbreytir okkur er yfirskrift samkirkjulegrar bænaviku sem hefst miðvikudaginn 18. janúar næstkomandi og lýkur með helgihaldi í Glerárkirkju miðvikudagskvöldið 25. janúar þar sem sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir leiðir helgihaldið og Gospelkór Akureyrar sér um tónlistina. Hér á vefnum er auglýsing bænavikunnar aðgengileg sem pdf-skjal. Fræðast má nánar um bænavikuna á vef prófastsdæmisins. Upplýsingar á vef Alkirkjuráðsins á ensku.

Tvö námskeið, hefjast 10. og 11. janúar

Fimmtudaginn 5. janúar sl. birtist viðtal við sr. Örnu Ýrr og Pétur Björgvin djákna á N4 um tvö námskeið sem eru framundan í Glerárkirkju.

Foreldramorgnar hefjast fimmtudaginn 12. janúar

Foreldramorgnar eru í safnaðarsal Glerárkirkju alla fimmtudaga milli tíu og tólf. Fyrsti foreldramorguninn á nýju ári verður fimmtudaginn 12. janúar 2012. Umsjón með foreldramorgnunum hefur sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, en Sigurrós Anna Gísladóttir sér um morgunverðarhlaðborðið. Sjáumst!

Kvenfélagið Baldursbrá

Kvenfélagið Baldursbrá stendur fyrir lifandi og fjölbreyttu starfi. Flest fimmtudagskvöld frá sjö til níu stendur félagið fyrir handavinnukvöldum. Gengið er inn að norðanverðu og allar konur velkomnar. Á eftirtöldum fimmtudagskvöldum eru svo félagsfundir og hefst þá dagskráin klukkan 19:30: 19. jan. / 16. feb. (aðalfundur) / 15. mars / 12. apríl / 24. maí (vorfundur). Sjá einnig hér.