Yfirlýsing Glerárkirkju vegna stórfundarins „Þjóð gegn Þjóðarmorði“ sem fram fer á Akureyri, Ísafirði, Egilstöðum og Reykjavík þann 6. september 2025.
Við prestar Glerárkirkju ætlum í nafni þess friðar-, réttlætis- og kærleiks boðskapar sem trú okkar byggir á að standa fyrir athöfn í Glerárkirkju þann 6. september 2025 þar sem við lesum upphátt í kirkjunni nöfn og aldur allra barna sem látist hafa í þeim manngerðu hamförum sem gengið hafa yfir Palestínu og Ísrael frá 7. október 2023.
Í þeim hörmungum sem stríð og hernaður er tapa saklaus börn lífi, eru rænd tilveru sinni, fjölskyldu og framtíð sinni og draumum.
Við viljum nefna nöfn þeirra og aldur í heilögu rými, gefa stund til að minnast og meðtaka að þetta eru saklausar og elskaðar manneskjur en ekki tölur á blaði. Manneskjur sem við megum aldrei gleyma!
„Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi“. Þessi orð Krists eru flutt við hverja skírn og ítreka helgi lífsins, að börnin eru heilög, dýrmæt og mikilvæg, sama hvaðan þau koma. Því ætlum við að lesa upphátt fyrst nöfn og aldur þeirra barna sem látist hafa í Ísrael vegna átakanna og svo nöfn og aldur þeirra sem látist hafa í umsátrinu um Palestínu, því að Guð sér hvorki landamæri né þjóðerni, veggi, múra eða gaddavírsgirðingar.
Fjölbreyttur hópur lesara tekur þátt í gjörningnum og hann stendur yfir frá 9:00-12:00 og 16:00-20:00. Fólki er velkomið að líta við í kirkjunni á sínum forsendum, tendra kertaljós, sitja eins lengi og þau vilja í kyrrð og taka þátt í að skapa heilaga stund þar sem við lyftum upp börnunum sem látið hafa lífið í þessari hræðilegu mannúðarkrísu.
Prestar Glerárkirkju