Vorhátíð Glerárkirkju

SUNNUDAGINN 8. MAÍ FRÁ 11:00 TIL 12:45 er vorhátíð Glerárkirkju. Við hvetjum fjölskyldur, stórar sem smáar, og fólk á öllum aldri til að fjölmenna. Þennan dag fögnum við því líka að foreldramorgnar í Glerárkirkju eru 20 ára - að sjálfsögðu fáum við afmælistertu! Dagskráin hefst kl. 11:00 með fjölskylduguðsþjónustu í kirkjunni undir stjórn sr. Örnu Ýrrar Sigurðardóttur og Péturs Björgvins Þorsteinssonar djákna. Barnakór Glerárkirkju leiðir söng undir stjórn Hjördísar Evu Ólafsdóttur og Æskulýðskór Glerárkirkju kemur einnig fram undir stjórn Olgu Ásrúnar Stefánsdóttur. Undirleikari er Risto Laur og fleiri. Sérstakur gestur í guðsþjónustunni er Einar Einstaki.

Að guðsþjónustu lokinni er ýmis dagskrá í boði á kirkjutorginu fyrir framan kirkjuna. Öllum er boðið upp á grillaðar pylsur, hoppukastali er á staðnum fyrir yngstu börnin, björgunarsveitin Súlur mun sjá um kassaklifur, boðið verður upp á andlitsmálningu og hægt að föndra vinabönd. Þá mætir Skralli trúður á svæðið og dreifir gleðieiningum, félagar úr íþróttafélaginu Þór munu kynna sumarstarfið fyrir börn og unglinga og að lökum verður hægt að gæða sér á súkkulaðiafmælistertu því að foreldramorgnar Glerárkirkju eru 20 ára.

Dagskrárlok eru kl. 12:45 - þeim sem vilja halda áfram að njóta dagsins er bent á að söngleikurinn Líf og Friður sem sýndur var fyrir nokkrum árum í Glerárkirkju verður sýndur í Akureyrarkirkju kl. 13:00.

Með vorhátíðinn lýkur vetrarstarfi Barnakórsins, Æskulýðskórsins, TTT-starfsins, Kirkjuskólans, Sunnudagaskólans og æskulýðsfélagsins Glerbrots. Við í Glerárkirkju þökkum öllum sem tekið hafa þátt í starfinu í vetur.