Vel heppnuð ferð á Hrafnagil

Febrúarmót ÆSKEY og KFUM og KFUK á Norðurlandi fór fram á Hrafnagili dagana 18.-19. febrúar s.l. Yfirskrift mótsins var "Daginn í dag, gerði Drottinn Guð" og voru 110 þátttakendur frá Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri, Svalbarðseyri, Grenivík, Bárðardal og Húsavík. Aðstaðan á Hrafnagili er mjög góð og sundlaugin, íþróttasalurinn og gervigrasvöllurinn komu að góðum notum og ekki skemmdi það fyrir hve vel var staðið að matseldinni í mötuneyti skólans.

Á laugardagsmorgninum var samverustund þar sem rætt var um þá hluti sem við getum verið þakklát fyrir á hverjum degi. Krakkarnir voru sjö saman í hóp og í sameiningu skrifuðu þau, hvert frá sínu brjósti, eitt atriði fyrir hvern dag vikunnar sem þau eru þakklát fyrir. Lífið, fjölskyldan. tómstundir, skólinn, maturinn, vinirnir, nammidagar, KFUM og KFUK og kirkjustarfið voru meðal þess sem þau nefndu hvað oftast og svo var fjölmargt annað sem hvert og eitt þeirra hafði fram að færa í upptalningu á því sem við getum verið þakklát fyrir. Mótinu lauk svo með helgistund í Kaupangskirkju þar sem krakkarnir skipuðu kórinn, fluttu leikþátt og bænir sem þau höfðu samið frá eigin brjósti. Börnin á mótinu eiga það sameiginlegt að sækja félagsstarf sem boðið er uppá á vegum kirkjunnar og KFUM og KFUK á Norðurlandi. Það starf er öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu og ánægjulegt til þess að vita að fjölmörg börn njóta góðs af því.

Hér á vef Glerárkirkju mál skoða myndir frá mótinu.

Á vef RÚV má hlusta á viðtal við nokkra þátttakendur.