Sunnudagaskólinn í desember

Sunnudagaskólinn er á sínum stað í desembermánuði í Glerárkirkju en þó með smá tilbreytingu. Í dag, sunnudaginn 2. desember sem er fyrsti sunnudagur í aðventu hefst barnastarfið með sameiginlegu upphafi í messu safnaðarins áður en börn og foreldrar sem kjósa ganga yfir í safnaðarsalinn í sunnudagaskólann. Næstu sunnudaga er hins vegar annað uppi á teningnum.

Á öðrum sunnudegi í aðventu, 9. desember er sunnudagaskólinn í kirkjunni sjálfri kl. 11:00 en messa safnaðarins er ekki fyrr en kl. 14:00. Í tilefni af aðventunni og afmæli kirkjunnar (við fögnum 20 ára afmæli Glerárkirkju þennan dag) verður flutt leikritið "Pési vill verða jólasveinn" Umsjón með sunnudagaskólanum þennan dag auk unga fólksins sem sér vanalega um sunnudagaskólann hafa þau sr. Arna Ýrr og Pétur Björgvin djákni. Í lok samverunnar fá öll börn smá glaðning frá jólasveininum.

Á þriðja sunnudegi í aðventu, 16. desember er fjölskylduguðsþjónusta og sunnudagaskólabörnin hvött til virkrar þátttöku í fjölskylduguðsþjónustunni. Sérstök sögustund verður fyrir börnin upp við altarið auk þess sem þeim er boðið að koma og taka þátt í hreyfisöngvum. Að sjálfsögðu fá börnin sunnudagaskólamyndir að vanda.

Á fjórða sunnudegi í aðventu, 23. desember verður sunnudagaskóli kl. 11:00 en í tilefni Þorláksmessunnar ætlum við að vera á Glerártorgi. Valmar verður með harmonikkuna og Pétur Björgvin minnir okkur á jólaguðspjallið. Það eru öllum velkomið að taka þátt í þessum hálftíma langa sunnudagaskóla.

Sunnudagaskólinn hefst aftur að loknu jólafríi, sunnudaginn 20. janúar 2013 kl. 11:00.