Styttist í brottför hjá Kór Glerárkirkju

Spennan vex: Nú eru aðeins nokkrir dagar í brottför hjá Kór Glerárkirkju, en kórinn heldur af landi brott á næsta þriðjudag. Ferðinni er heitið til Austurríkis þar sem kórinn mun taka þátt í alþjóðlegri kórakeppni.

Þetta er í 28. sinn sem INTERKULTUR stendur fyrir Franz-Schubert kórakeppninni sem nú hefur yfirskriftina: "Sing’n’joy Vienna". Nokkur vinna hefur verið lögð í það af samtökunum upp á síðkastið að fríska upp á keppnina og gera hana meira aðlaðandi fyrir breiðan hóp kóra. Liður í því er tímasetningin, en þessi árlega keppni hefur alltaf farið fram í nóvember hvert ár. Í ár er hún hins vegar í júní. Þá hefur dagskráin verið gerð fjölbreyttari, möguleikar kóra til þátttöku í keppninni annars vegar og möguleika til að kynnast fólkinu í hinum kórunum hins vegar, hafa verið endurbættar. Og breytingarnar eru að skila sér. Aldrei hefur þátttakan verið jafn mikil og má jafnvel tala um að mótið hafi nú sprungið út í höndunum á skipuleggjendum. Það verður gaman að fylgjast með Kór Glerárkirkju á þessum slóðum og heyra hvernig þeim þykir að syngja í hinu þekkta konserthúsi Vínarborgar og stóru kirkjunum þeirra.