Stefna Glerárkirkju um ramma æskulýðsstarfsins

Starf með börnum og unglingum í Glerárkirkju hefur verið mikilvægur þáttur í starfinu frá upphafi. Öll þau sem að starfinu koma leggja líf og sál í starfið og það er sameiginleg stefna að bæta starfið sífellt og gera þannig gott starf betra. Lykilatriði í slíkri vinnu er að öllum sé ljóst hver rammi starfsins er og hvaða kröfur eru gerðar til aðstöðu og þeirra sem koma að starfinu. Um árabil höfum við haft ákveðin heilræði að leiðarljósi og fylgt siðareglum sem voru endurnýjaðar árið 2009. Smellið á kassann til að opna skjalið. Hér er grundvallarregla mannlegra samskipta höfð að leiðarljósi sem orðuð er með gullnu reglunni: ,,Allt sem þér viljið, að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera." (Matt. 7,12) Þannig er okkur umhugað að sýna ábyrgð og trúmennsku í hvívetna og vanda okkur og gæta varfærni við störf okkar þannig að sómi sé af. Á grunni þessara heilræða og siðareglna höfum við sett niður punkta um ýmiss smáatriði þessu tengd, sjálfum okkur til áminningar, en þau koma ekki í stað fyrrnefndra siðareglna: Samskipti við foreldra •    Foreldrum er á hvaða tíma sem er án þess að tilkynna það fyrirfram velkomið að mæta í starfið í kirkjunni og fylgjast með og/eða taka þátt í starfinu. •    Í hvert sinn sem barn tekur í fyrsta sinn þátt í starfinu í kirkjunni er nafn og heimilisfang foreldris/forráðamanns skráð og foreldrinu/forráðamanninum sent bréf (eða tölvupóstur/símhringing) í beinu framhaldi þar sem markmið starfsins og helstu starfsaðferðir eru kynntar og foreldrið/forráðamaðurinn hvatt/ur til að kynna sér starfið persónulega, þ.e. ef foreldri hefur ekki mætt á staðinn með barnið í þetta fyrsta skipti. Praktísk atriði í starfinu •    Hvert og eitt þeirra einstaklinga sem að starfinu koma gæta þess að vera helst aldrei ein með lítinn barna- eða unglingahóp og aldrei undir nokkrum kringumstæðum ein með einu barni eða unglingi. Alltaf er einn starfsmaður/ sjálfboðaliði 18 ára eða eldri til staðar. •    Allar ferðir á vegum kirkjunnar eru farnar með rútu eða flugi, aldrei einkabílum. Komi upp þær aðstæður að starfsmaður Glerárkirkju þurfi að ferðast í bifreið með einu eða tveimur börnum er undantekningarlaust notast við þjónustu leigubílastöðvar eða almenningssamgangna en aldrei einkabifreið. •    Ef aðstoða þarf börn eða fötluð ungmenni á salerni er það aðeins gert að fengnu leyfi og leiðbeiningum foreldris. •    Starfsfólk og sjálfboðaliðar gæta þess í öllum samskiptum á netinu að spjalla ekki einslega við þátttakendur úr starfinu heldur taka aðeins þátt í hópspjalli eða notast við skilaboðakerfi sem senda skilaboð samstundis til margra. •    Þegar farið er í leiki í sundlaugum sem og aðra leiki sem einkennast af líkamlegri snertingu er þess gætt að aldursmunur þátttakanda sé lítill og að starfsfólkið sem stjórnar leikjunum sé af báðum kynjum. •    Ef gist er í ferðum á vegum kirkjunnar, gista strákar í sér herbergi og stelpur í sér herbergi. Starfsfólk / fullorðnir gista ekki í sama herbergi og þátttakendur, nema um fjölskylduferðir sé að ræða, þ.e. dagskrá sem er opin bæði foreldrum og börnum. •    Starf með börnum í Glerárkirkju fer aðeins fram í rýmum þar sem gluggar eru á dyrum eða með öðrum gluggum á sem gera samstarfsfólki sem og utanaðkomandi auðvelt að fylgjast með því sem fram fer innan veggja starfsins. Að sjálfsögðu eru dyr ólæstar og foreldrum alltaf heimill aðgangur. Dagbækur og gæðastjórnun •    Í Glerárkirkju er virkt innra eftirlit með faglegum vinnubrögðum. Það byggist upp á þremur þáttum. Í fyrsta lagi gagnkvæmum heimsóknum starfsfólks á starfsvettvang annarra þar sem farið er yfir gátlista kirkjunnar ,,Gæði í gegn". Í öðru lagi eftirliti djákna eða presta með starfinu þar sem farið er yfir gátlista kirkjunnar ,,Gæði í gegn" og samtal átt við starfsfólkið. Í þriðja lagi með þátttöku æskulýðsstarfs Glerárkirkju í ,,Job shadowing" verkefnum innan ramma Evrópu Unga Fólksins. •    Að loknum hverjum starfsdegi fyllir hver starfsmaður út eigin vinnuskýrslu þar sem einnig koma fram dagbókarfærslur um helstu viðburði dagsins, sér í lagi ef slys eða óhapp hefur orðið. Námskeið og símenntun •    Öll þau sem starfa í Glerárkirkju hafa einnig kynnt sér heilræði kirkjunnar fyrir fólk sem starfar með börnum og unglingum og leggja sig fram við að fylgja þeim sem og fyrrnefndum siðareglum. Á árlegum fundum starfsfólks er farið yfir þessi mál sem og aðrar stefnur kirkjunnar. •    Í upphafi hvers starfsvetrar sækir starfsfólk Glerárkirkju fjögurra tíma skyndihjálparnámskeið þar sem áhersla er lögð á viðbrögð við slysum sem geta orðið á vettvangi starfsins. •    Í upphafi hvers starfsvetrar sækir starfsfólk Glerárkirkju fjögurra tíma námskeið sem snýr að forvörnum gegn ofbeldi á börnum, þar sem þau eru upplýst um helstu þætti sem vert er að hafa í huga, stefna Glerárkirkju í forvörnum kynnt og farið yfir starfsferla kirkjunnar hvað tilkynningar til barnaverndarnefnda skv. Barnaverndarlögum varðar. Starfsfólkið •    Við Glerárkirkju starfa einungis sjálfboðaliðar og launað starfsfólk 18 ára og eldri sem hefur sótt um viðkomandi starf skriflega og gert í þeirri umsókn sinni grein fyrir eigin reynslu af starfi með börnum ásamt því að nefna tvo óskylda meðmælendur. Við hlið þeirra starfar yngra aðstoðarfólk, 15 ára og eldra sem tekur þátt í eða hefur lokið farskóla leiðtogaefna. •    Glerárkirkja kynnir markmið starfsins og stefnu safnaðarins fyrir öllum þeim sem hafa áhuga á að starfa í Glerárkirkju og biður umsækjendur að koma í viðtal þar sem samskipti starfsfólks við börn og unglinga eru rædd í ljósi siðareglna og heilræða þeirra sem unnið er eftir. •    Karlar og konur sem gegna einhvers konar hlutverkum í tengslum við starf í Glerárkirkju með börnum og unglingum eiga það sameiginlegt að þau starfa samkvæmt siðareglum þjóðkirkjunnar og hafa samþykkt aðgengi kirkjunnar að upplýsingum úr eigin sakaskrá og þannig gert stjórnendum kirkjunnar kleift að ganga úr skugga um að viðkomandi hafi ekki brotið gegn Barnaverndarlögum nr. 80/2002, né gerst sekur um kynferðisbrot skv. 22. kafla almennra hegningarlaga, barnaverndarlaga og æskulýðslaga. Að sama skapi hafa þau með undirskrift sinni gert stjórnendum kirkjunnar mögulegt að nálgast upplýsingar um að þau hafi hreina sakaskrá hvað varðar önnur ofbeldisbrot skv. 23. og 24. kafla almennra hegningarlaga sem og brot gegn ávana- og fíkniefnalögum. •    Starfsfólki og sjálfboðaliðum sem fara ekki að reglum kirkjunnar er veitt áminning og boðið upp á samtal um hvernig bæta megi gæði vinnuframlags þeirra. Ef engar eða litlar úrbætur verða er starfsfólki sagt upp / sjálfboðaliðar leystir undan skyldum sínum. Ef um lögbrot er að ræða eða grunur leikur á að barnaverndarlög hafi verið brotin er viðkomandi umsvifalaust leystur undan öllum skyldum. •    Ef upp kemur mál er varðar hegðun starfsmanns eða sjálfboðaliða sem hefur verið á þann hátt að ætla megi að hann / hún hafi brotið gegn forvarnarreglum um kynferðislegt ofbeldi eða með orðum sínum og gerðum tælt ungmenni eða sært blygðunarsemi þeirra er þegar í stað haft samband við fagráð kirkjunnar um kynferðisbrot, tilkynning send til þeirra yfirvalda sem við á hverju sinni og foreldrar /forráðafólk þeirra barna / ungmenna sem í hlut eiga boðaðir á fund.