Starf prests við Glerárkirkju laust til umsóknar.

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu í Glerárprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi. Miðað er við að viðkomandi getið hafið störf 1. september 2022.

Auglýsing og umsóknarsíðu má finna á www.kirkjan.is eða með því að smella hér.

 

Væntingar safnaðarins.

Sóknarnefnd Glerárkirkju vill að kirkjan sé hluti af lífi samfélagsins í hverfinu og leggur áherslu á uppbyggjandi og nærandi fræðslustarf og að til staðar sé öflugt barna- og æskulýðsstarf á vegum safnaðarins. Því er æskilegt að prestar safnaðarins hafi þekkingu, reynslu og áhuga á starfi með ungmennum og fjölskyldum þeirra. Söfnuðurinn leggur áherslu á mikilvægi tónlistarlífs kirkjunnar og er það kostur ef prestar nýta það við helgihald og fræðslu. Glerárkirkja er byggð inn í íbúðahverfi og hefur söfnuðurinn áhuga á að starfið í kirkjunni endurspegli það, að hún sé hverfiskirkja. Prestar kirkjunnar þurfa að vera meðvitaðir um þetta samhengi safnaðarstarfsins og hafa áhuga á að láta sig það varða með uppbyggilegum hætti.

 

Í sókninni er vilji og löngun til að ná til ungs fólks með þjónustu kirkjunnar með áherslu á starf fyrir börn og unglinga, foreldramorgna og eldriborgarastarf. Megin áhersla sóknarnefndar Lögmannshlíðarsóknar næstu ár er að efla starf kirkjunnar með öllu fólki í sókninni, þannig að allt sóknarfólk geti fundið sér stað í kirkjustarfinu. Að þetta verði gert m.a. með ríkari áherslu á stefnumótun safnaðarins og fjölbreytni í safnaðarstarfi og helgihaldi.

 

Sóknin leitar eftir presti sem er reiðubúinn að taka þátt í teymisvinnu og samstarfi við sóknarprest og annað starfsfólk kirkjunnar um uppbyggingu safnaðarstarfs. Glerárkirkja vill styðja við framsækið starf í kirkjunni sem skapar sér sérstöðu og laðar að bæði þátttakendur og sjálfboðaliða.