Spörum tölvurnar, leikum úti

Okkur hér í Glerárkirkju er það hjartans mál að fólki líði vel. Eins og við öll þekkjum þá liggur oft nokkur vinna að baki vellíðan. Við þurfum að hugsa vel um okkar og taka hollar ákvarðanir um hvað við gerum. Pistill Arnars Márs Arngrímssonar í Akureyri - Vikublað er gott innleggi í þá umræðu. Við hvetjum foreldra og fólk almennt til að lesa pistil hans. Hann nefnir meðal annars tíu atriði sem börn ættu að gera áður en þau fengju að fara í tölvu viðkomandi dag. Væntanlega sjá foreldrar að það er auðvelt að bæta við þennan lista. Veljum það sem hollt er! Arnar skrifar:

Topp tíu listi yfir það sem börnin þín ættu að gera áður en kemur að daglegu (d)rápi í tölvunni.

  1. Vertu úti. Það er gott.
  2. Lestu allt sem að kjafti kemur.
  3. Heimsæktu ömmu þína og biddu hana að kenna þér að baka pönnukökur.
  4. Skrifaðu sögu og gefðu pabba þínum í afmælisgjöf.
  5. Safnaðu krökkunum í hverfinu saman og farið í fótbolta.
  6. Lærðu heima og njóttu þess.
  7. Skúraðu, settu í þvottavél; foreldrar þínir eru ekki þjónustufólk.
  8. Safnaðu uppáhaldslögunum þínum á geisladisk og gefðu mömmu þinni.
  9. Bjóddu 10 vinum þínum í bíó heima; fáðu mömmu og pabba til að poppa.
  10. Taktu fram trivial pursuit, tafl, spilastokk eða leggðu kapal.

Pistill Arnars er aðgengilegur á vef akv.is.

P.S.: Eftir að hafa lesið þetta á tölvunni þinni á þessum líka fína sumardegi, ættir þú að spyrja sjálfa(n) þig hvort að sama regla ætti að gilda fyrir þig? (Það gildir líka fyrir djáknann í Glerárkirkju).

Uppfært kl. 19:00: Bendum einnig á áhugaverða svargrein við þessari grein, einnig á akv.is.