Fermingarfræðsla 2016-2017 að hefjast!

Fermingarundirbúningurinn í Glerárkirkju er nú framundan og verður hann að mestu með sama hætti og verið hefur undanfarin ár. Lesin verður Bókin um Jesú (seld í kirkjunni á 2500 kr), börnin þurfa einnig að nota Nýja testamentið og stílabók. Í október fara fermingarbörnin í dagsferð til Löngumýrar í Skagafirði og komið verður við á Hólum í Hjaltadal, nánar auglýst síðar.

 Fermingarfræðslan mun hefjast þriðjudaginn 20. september og munu undirritaðir annast fræðsluna. Í vetur verður kennt á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Dagana 5., 6., og 7. september kl. 17 munu börnin mæta til kynningarstunda í kirkjunni með skólafélögum sínum sem hér segir: Giljaskóli, 5. september; Síðuskóli, 6. September; Glerárskóli, 7. september. Komist einhver ekki á kynningarfund síns skóla er velkomið að koma á kynningarfund með öðrum skóla.

 Skráning í fermingarfræðslu fer fram rafrænt á vef Glerárkirkju (sjá hér) og stendur yfir til 5. september n.k.. Á kynningarfundunum verður hægt að fá skráningareyðublað fyrir þau sem ekki eiga þess kost að skrá sig í fermingarfræðslu í gegnum vef kirkjunnar.

 Sunnudaginn 18. september verður messa og sunnudagaskóli kl. 11 og vonumst við til að sjá ykkur sem flest þar ásamt börnum ykkar. Að messu lokinni munum við prestarnir eiga stuttan fund með foreldrum. Fyrir þau sem komast ekki verður annar foreldrafundur þann 25. september að lokinni messu og sunnudagaskóla kl. 11.

 Að rækja guðsþjónustur og messur er mikilvægur þáttur í fermingarundirbúningnum og þar er fordæmi foreldra áhrifaríkt. Auk þess eru Glerárkirkja og KFUM og K á Akureyri í samstarfi um félagsstarf fyrir 8. bekkinga undir merkjum UD ? Glerá. UD Glerá hittist í Sunnuhlíð (félagshúsi KFUM og K) á fimmtudögum kl. 19.30 og verður fyrsta samveran þann 8. september n.k. fermingarbörn eru eindregið hvött til að mæta og taka þátt í skemmtilegu og uppbyggilegu félagsstarfi (sjá hér)