Sjálfboðaliðar óskast til Panama

Mörgum sem störfuðu í Glerárkirkju veturinn 2005 til 2006 er Silvia Geiger örugglega í fersku minni en hún var hér í kirkjunni sem sjálfboðaliði. Í dag er hún gift og ber ættarnafnið Herazo. Silvia býr í Panama ásamt eiginmanni sínum þar sem þau starfa fyrir Ungt fólk með hlutverk. Nú hefur okkur í Glerárkirkju borist bréf þar sem hún segir frá því að þau eru að leita að sjálfboðaliðum til að starfa með þeim í skóla sem Ungt fólk með hlutverk rekur þar: Doulos Christian Academy. Þau eru að leita að fólki sem hefur köllun til þess að vinna fyrir Krist með börnum, bæði kennurum, leikskólakennurum, öðru fagfólki en einnig ungu fólki sem vill taka til hendinni og vinna margskonar störf. Verkefnið er fjármagnað af stuðningshópi sem viðkomandi einstaklingur kemur sér upp í heimalandi sínu, en það er mjög ódýrt að búa í Panama. Þeim sem hafa áhuga er bent á að hafa samband við Pétur Björgvin djákna í Glerárkirkju, 864 8451.