Séra Lárus Halldórsson látinn

Séra Lárus Halldórsson lést hinn 15. febrúar á nítugasta og fyrsta aldursári og verður útför hans gerð frá Dómkirkjunni mánudaginn 21. febrúar næstkomandi. Séra Lárus var mörgum íbúum hér í sókninni vel kunnur, enda sinnti hann meðal annars afleysingaþjónustu í Lögmannshlíðarsókn frá nóvember 1990 og fram í maílok 1991. Séra Lárus Halldórsson fæddist 10.október 1920 á Selvöllum í Helgafellssveit. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólaum í Reykjavík hóf hann nám í guðfræðideild Háskóla Íslands og lauk embættisprófi 1945. Að því loknu vígðist hann til Flateyjar á Breiðafirði sem hann þjónaði í áratug, síðar var hann farprestur Þjóðkirkjunnar um árabil, og gegndi á þeim árum prestsþjónustu um land allt um lengri og skemmri tíma. Jafnframt gegndi hann þjónustu sem heimilisprestur á Elli og hjúkrunarheimilinu Grund á árunum1965 til 1986. Hann varð sóknarprestur í nýstofnuðu Breiðholtsprestakalli í Reykjavík 1972 og þjónaði því til ársins 1986. Kom það í hans hlut að leggja grunn að kirkjustarfi í örtvaxandi borgarhverfi við algjört aðstöðuleysi safnaðarins. Séra Lárus var virkur í málefnum sálgæslu og sérþjónustu kirkjunnar, og eins fræðslumálum kirkjunnar. Hann var hlýr og hollráður sálusorgari og hirðir safnaða sinna. Eiginkona hans var frú Þórdís Nanna Nikulásdóttir.